Julius Nyerere

1. forseti Tansaníu (1922-1999)
(Endurbeint frá Julius Kambarage Nyerere)

Julius Kambarage Nyerere (13. apríl 1922 – 14. október 1999) var tansanískur stjórnmálamaður og fyrsti forseti Tansaníu. Hann hafði áður verið leiðtogi í sjálfstæðisbaráttu Tanganjíku undan Bretlandi og hann varð fyrsti forsætisráðherra landsins eftir sjálfstæði þess árið 1960.

Julius Nyerere
Nyerere árið 1975.
Forseti Tansaníu
Í embætti
29. október 1964 – 5. nóvember 1985
ForsætisráðherraRashidi Kawawa
Edward Sokoine
Cleopa Msuya
Edward Sokoine
Salim Ahmed Salim
VaraforsetiAbeid Amani Karume
Aboud Jumbe
Ali Hassan Mwinyi
EftirmaðurAli Hassan Mwinyi
Forseti Tanganjíku
Í embætti
9. desember 1962 – 26. apríl 1964
ForsætisráðherraRashidi Kawawa
ForveriElísabet 2. (sem drottning)
EftirmaðurHann sjálfur (sem forseti Tansaníu)
Forsætisráðherra Tanganjíku
Í embætti
2. september 1960 – 22. janúar 1962
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
LandstjóriRichard Turnbull
EftirmaðurRashidi Kawawa
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. apríl 1922
Butiama, Mara, Tanganjiku
Látinn14. október 1999 (77 ára) London, Bretlandi
ÞjóðerniTansanískur
StjórnmálaflokkurCCM (1977–1999)
TANU (1954–1977)
MakiMaria Nyerere (g. 1953)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn8
HáskóliMakerere-háskóli
Edinborgarháskóli
VerðlaunNansen-verðlaunin (1983)

Nyerere var sósíalisti og boðberi sérstakrar afrískrar jafnaðarstefnu sem hann kallaði „Ujamaa.“ Sem stjórnanda landsins tókst Nyerere að viðhalda einingu og stöðugleika en efnahagsstefnur hans heppnuðust hins vegar ekki vel og Tansanía varð mjög fátækt land á stjórnartíð hans. Tansanía var jafnframt flokksræði undir stjórn Nyerere og því var hann stundum sakaður um einræðiskennda stjórnarhætti. Nyerere er engu að síður enn mjög virtur í Tansaníu í dag og er gjarnan nefndur „landsfaðirinn“ eða Mwalimu (ísl. „kennarinn“). Flokkur hans, Chama Cha Mapinduzi, hefur unnið allar kosningar í Tansaníu síðan fjölflokkalýðræði var innleitt í landinu.

Æviágrip

breyta

Julius Nyerere var sonur höfðingja úr Zanaki-ættbálknum, sem var með minnstu þjóðarbrotum í Tanganjíku. Hann var talinn námsfúsastur systkina sinna og honum var því boðið til náms við kaþólska trúboðsstöð til þess að geta gerst kennari. Þar náði Nyerere svo góðum námsárangri að honum var boðið til náms við Edinborgarháskóla í Skotlandi.[1]

Nyerere dvaldi við nám í Edinborg til ársins 1952 en sneri þá heim til Tanganjíku og tók þar þátt í stofnun stjórnmálaflokksins Hins afríska þjóðarbandalags Tanganjíku (e. Tanganyika African National Union eða TANU).[1] Flokkurinn, sem stefndi að sjálfstæði Tanganjíku undan breska heimsveldinu, var stofnaður árið 1954 á grundvelli 25 ára gamalla samtaka sem Bretar höfðu stofnað til að skapa umræðuvettvang í nýlendu sinni. TANU stofnaði brátt deildir um alla Tanganjíku og Nyerere varð þekktur sem sjálfstæðisleiðtogi og þjóðhetja meðal landsmanna.[2]

TANU vann yfirgnæfandi meirihluta þingsæta í kosningum Tanganjíku árið 1960.[2] Næsta ár var haldin ráðstefna um framtíðarstjórnun landsins í Dar es Salaam þar sem Bretar samþykktu að Tanganjíka yrði sjálfstætt ríki þann 28. desember sama ár.[1] Nyerere varð fyrsti forsætisráðherra Tanganjíku við sjálfstæði landsins en lét af því embætti í janúar 1962 og eyddi næstu tíu mánuðum í að styrkja innra starf TANU. Hann sneri aftur á valdastól í desember sama ár en varð þá fyrsti forseti landsins.[2]

Forseti Tansaníu (1964–1985)

breyta

Eftir að stjórnarbylting var gerð á Sansibar undan ströndum Tanganjíku árið 1964 átti Nyerere í samningaviðræðum við byltingarleiðtogann Abeid Karume sem leiddi til þess að Tanganjíka og Sansibar sameinuðust í eitt ríki, Tansaníu. Nyerere varð þannig fyrsti forseti Tansaníu.[3]

Ujamaa

breyta

Sem leiðtogi Tansaníu forðaðist Nyerere að taka beina afstöðu með deiluaðilum í kalda stríðinu. Hann naut þó vinsælda erlendis bæði í austur- og vesturblokkinni og Tansanía þáði ríkulega efnahagsaðstoð bæði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Sovétríkjunum og Alþýðulýðveldinu Kína. Stefna Nyerere var sú að byggja upp sérstaka tegund af sósíalisma sem hann kallaði Ujamaa. Hugsunin með Ujamaa var sú að með stefnunni væri verið að hverfa aftur til lifnaðarhátta Afríkbúa fyrir nýlendutímann, en margir gerðu sér í hugarlund að þá hefði ríkt einhvers konar velferðar- eða samvinnustefna í samfélagi Afríkuríkja.[4]

 
Nyerere ásamt bandarísku forsetahjónunum Rosalynn og Jimmy Carter árið 1977.

Nyerere réðst í gagngera endurskipulagningu á byggð í Tansaníu sem fól í sér nauðungarflutninga fólks af landsbyggðinni í sérstök Ujamaa-þorp þar sem aðgangur að vatni, menntun og læknishjálp átti að vera betri. Um 14 milljónir sveitafólks voru fluttar af landsbyggðinni í slík þorp í kringum 1977.[4] Skipulagi var hins vegar ábótavant í mörgum af þessum þorpum. Til dæmis var fólki víða safnað saman í þorp þar sem engin vatnsveitukerfi voru fyrir hendi og sameignarbúskapur gekk aðeins vel á stöku stað. Þróunin varð sú að margir smábændur yfirgáfu Ujamaa-þorpin þvert gegn vilja stjórnvalda og sneru aftur til ættjarða sinna til að halda áfram búskap með fyrri hætti.[5]

Undir lok stjórnartíðar Nyerere var fátækt enn útbreidd í Tansaníu. Frammistaða Tansaníu í landbúnaði þótti ekki góð og flytja þurfti inn mikið magn af matvælum til að forðast hungursneyðir. Í skýrslu um miðjan níunda áratuginn taldi Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðannasjálfsþurftarbúskapur hefði verið vanræktur auk þess sem slæmt veður, tíðar stofnanabreytingar, afleitt markaðskerfi, lélegar samgöngur og lítil áburðarnotkun hefðu stuðlað að vanda í tansanískum landbúnaði.[5]

Mikil miðstýring var í tansanískum efnahagi á stjórnartíð Nyerere og mikil áhersla lögð á uppbyggingu þungaiðnaðar. Tiltrú hans var sú að aðrar iðngreinar myndu skjóta rótum ef þungaiðnaður yrði treystur en raunin varð sú að mörg fyrirtæki sem stofnuð voru náðu ekki fótfestu og þurftu erlenda efnahagsaðstoð til að halda siglingu.[4]

Stjórn Nyerere tókst að vinna bug á ólæsi í Tansaníu, en um 85 prósent landsmanna voru læsir árið 1985. Nokkur árangur náðist jafnframt í heilbrigðismálum og heilsugæsla Tansaníu var talin með þeim betri í Afríku.[5] Stuðningsmenn Nyerere hrósuðu honum jafnframt fyrir að takast að skapa samheldni meðal hinna fjölmörgu þjóðarbrota innan Tansaníu og forðast þjóðflokkadeilur sem leiddu til blóðugra átaka í mörgum öðrum Afríkuríkjum. Var þetta meðal annars gert með útbreiðslu á notkun svahílí til að skapa heilsteyptari þjóðernisímynd.[6]

Utanríkismál

breyta

Nyerere átti lengi í útistöðum við Idi Amin, forseta í Úganda, sem hafði komist til valda með því að steypa af stóli bandamanni Nyerere, Milton Obote.[7] Í október 1978 kom til hernaðarátaka milli Úganda og Tansaníu þegar Amin sendi hermenn yfir landamærin til að freista þess að innlima landsvæði í vestanverðri Tansaníu.[8] Nyerere neitaði að miðla málum við Amin og lýsti í kjölfarið formlega yfir stríði gegn Úganda. Tansaníski herinn rak hinn úgandska frá Tansaníu og hóf síðan gagnsókn in í Úganda. Tansanía gersigraði Úganda í stríðinu og leiddi það til þess að Idi Amin var komið frá völdum í apríl 1979. Stríðið varð Tansaníu engu að síður dýrkeypt og kom frekari óreiðu á efnahagsmál og innviðauppbyggingu innanlands.[9]

Afsögn og dauði

breyta

Nyerere lét af völdum árið 1985 og lét völdin ganga til nýs forseta, Ali Hassan Mwinyi. Hann sat hins vegar áfram sem leiðtogi stjórnarflokksins Chama Cha Mapinduzi (arftaka TANU) til ársins 1990. Sagðist Nyerere þá hlynntur því að fjölflokkakerfi yrði innleitt í Tansaníu.[10] Nyerere lést árið 1999.[11]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Þórarinn Þórarinsson (7. apríl 1961). „Tanganyika verður sjálfstæð“. Tíminn. bls. 5.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Nyerere og Tanganyika“. Alþýðublaðið. 10. september 1963. bls. 4.
  3. Þórarinn Þórarinsson (28. apríl 1964). „Óvænt sameining í Austur-Afríku“. Tíminn. bls. 7.
  4. 4,0 4,1 4,2 Dagur Þorleifsson (6. ágúst 1994). „Hrun Ujamaa“. Tíminn. bls. 10.
  5. 5,0 5,1 5,2 Guðmundur Halldórsson (17. nóvember 1985). „Draumurinn sem varð að martröð“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
  6. Baldur Óskarsson og Bernharður Guðmundsson (7. júní 1980). „Til varnar Júlíusi Nyerere“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 6-7.
  7. Mogens Kofod Hansen (8. október 1972). „Nyerere er hyggnasti þjóðarleiðtogi í Afríku“. Tíminn. bls. 9.
  8. Jónas Haraldsson (1. nóvember 1978). „Innrás herliðs Uganda langt inn í Tanzaniu“. Dagblaðið. bls. 7.
  9. Ólafur Geirsson (28. júlí 1979). „Hver á að greiða herkostnað Tansaníu í Uganda?“. Dagblaðið. bls. 10.
  10. „„Faðir afrísks sósíalisma" hættir“. Þjóðviljinn. 31. apríl 1990. bls. 7.
  11. „Heiðarlegur og vildi vel“. Morgunblaðið. 15. október 1999. bls. 28.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Tansaníu
(29. október 19645. nóvember 1985)
Eftirmaður:
Ali Hassan Mwinyi