Samyrkjubúskapur er fyrirkomulag í landbúnaði þar sem bændur reka leigujarðir sínar í sameiningu. Í ýmsum ríkjum kommúnismans (Sovétríkjunum, Kína, og Víetnam svo dæmi séu tekin) voru samyrkjubú bæði rekin af hinu opinbera og af samvinnufélögum.

Fyrir útbreiðslu eignarréttar á síðustu öldum var samyrkjubúskapur algengt fyrirkomulag í landbúnaði, bú voru þá rekin í sameiningu af fjölskyldum eða ættbálkum.

Ríkisstjórn Sovétríkjanna kom á fót samyrkjubúskap smám saman á milli 1927 og 1933 sem hluta af fyrstu fimm ára áætluninni. Samkvæmt Jósef Stalín leiðtoga Sovétríkjanna var ætlunin að frelsa hina fátæku kotbændur undan oki jarðareigandanna (kúlakkanna) og að auka framleiðni með meiri miðstýringu. Til að koma áætlun sinni í framkvæmd voru fjölmargir bændur myrtir og bændur fluttir í stórum stíl til Síberíu. Áður var Úkraínu-sléttan eitt frjósamasta svæði Evrópu, en þvingaður samyrkjubúskapurinn og klúðursleg stjórnsýsla leiddi til snarminnkaðrar framleiðslu á korni og fjöldi búfés minnkaði um helming. Minnkuð framleiðni var að hluta til vegna erfiðra þurrka á svæðinu, en allt leiddi þetta til hungursneyðar árin 1932–33 þar sem 11 milljón létust.[1] Einna verst varð hungursneyðin í Úkraínu. Landbúnaðarframleiðni náði aftur fyrri hæðum um 1940.[2][3]

Maó Zedong reyndi árin 1958–60 að iðnvæða Kína með áætlun sem nefndist stóra stökkið. Áætlunin var svipuð og hjá Stalín, en hún misheppnaðist hrapallega. Í ofanálag urðu svæsnir þurrkar á svæðinu og leiddi þetta allt til hungursneyðar og hörmunga. Eftir andlát Maós 1976 voru umbætur gerðar á samyrkjubúskaps­fyrirkomulaginu.

Tilvitnanir

breyta
  1. „Holodomor of 1932-33 in Ukraine“. www.faminegenocide.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 3 júní 2019. Sótt 27. mars 2018.
  2. Richard Overy: Russia's War, 1997
  3. Eric Hobsbawm: Age of Extremes, 1994
   Þessi landbúnaðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.