Fyrsta ráðuneyti Bjarna Benediktssonar
Fyrsta ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum þann 11. janúar 2017. Hún samanstóð af Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Bjartri framtíð og var því fyrsta samsteypustjórn fleiri en tveggja flokka síðan þriðja ráðuneyti Steingríms Hemannssonar, sem hélt velli frá hausti 1989 til kosninga vorið 1991. Í ríkisstjórninni voru 11 ráðherrar og því einum fleiri en voru í stjórninni sem hún tók við af. En eftir að ljóst varð að ríkisstjórnin yrði mynduð sóttist Sjálfstæðisflokkurinn eftir því að skipta Innanríkisráðuneytinu milli tveggja ráðherra til að annars vegar annast málefni samgöngu- og sveitarstjórna og hins vegar dómsmál.[1]
Aðrar breytingar á ráðherraembættum voru annars vegar þær að iðnaðar- og viðskiptaráðherra varð að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og að félags- og húsnæðismálaráðherra varð að félags- og jafnréttismálaráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sex ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa milli sín naumasta mögulega meirihluta á Alþingi með 32 þingmenn.
Ráðuneyti Bjarna hrundi þegar Björt framtíð dró sig úr stjórnarsamstarfinu í september sama ár eftir að upplýst var um að fyrri ríkisstjórn hefði veitt dæmdum barnaníðingi, Hjalta Sigurjóni Haukssyni, uppreist æru samkvæmt meðmælum frá föður Bjarna, Benedikt Sveinssyni.[2] Bjarni hafði vitað frá því í júlí sama ár að faðir hans væri meðal umsagnaraðila Hjalta.[3] Meðlimir Bjartrar framtíðar kölluðu málið „alvarlegan trúnaðarbrest“ innan ríkisstjórnarinnar.[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ Mbl, Innanríkisráðuneytið heyrir sögunni til, 2. apríl 2017. Skoðað 2. apríl 2017
- ↑ Freyr Gígja Gunnarsson; Alma Ómarsdóttir (14. september 2017). „Faðir forsætisráðherra ábyrgðist barnaníðing“. RÚV. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ Sunna Kristín Hilmarsdóttir (14. september 2017). „Bjarni fékk að vita það í lok júlí að faðir hans væri á meðal umsagnaraðila Hjalta Sigurjóns“. Vísir. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson; Alma Ómarsdóttir (15. september 2017). „Björt framtíð slítur stjórnarstarfi“. RÚV. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ | Forsetaæurskurður um skiptingu starfa ráðherra
- ↑ | Forsetaæurskurður um skiptingu starfa ráðherra