Manuel Azaña
Manuel Azaña Díaz (10. janúar 1880 – 3. nóvember 1940) var spænskur stjórnmálamaður sem var síðasti forseti spænska lýðveldisins. Hann var þjóðhöfðingi Spánar þegar spænska borgarastyrjöldin braust út en neyddist til að flýja land og segja af sér eftir að falangistar undir stjórn hershöfðingjans Francisco Franco náðu Spáni á sitt vald árið 1939. Azaña lést stuttu síðar í Frakklandi.
Manuel Azaña | |
---|---|
Forseti Spánar | |
Í embætti 10. maí 1936 – 3. mars 1939 | |
Forsætisráðherra | Santiago Casares Quiroga Diego Martínez Barrio José Giral Pereira Francisco Largo Caballero Juan Negrín López |
Forveri | Niceto Alcalá-Zamora |
Eftirmaður | Francisco Franco (sem Caudillo) |
Forsætisráðherra Spánar | |
Í embætti 14. október 1931 – 12. september 1933 | |
Forseti | Niceto Alcalá-Zamora |
Forveri | Juan Bautista Aznar-Cabañas |
Eftirmaður | Alejandro Lerroux |
Í embætti 19. febrúar 1936 – 10. maí 1936 | |
Forseti | Niceto Alcalá-Zamora |
Forveri | Manuel Portela Valladares |
Eftirmaður | Santiago Casares Quiroga |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 10. janúar 1880 Alcalá de Henares, Madríd, Spáni |
Látinn | 3. nóvember 1940 (60 ára) Montauban, Frakklandi |
Stjórnmálaflokkur | Vinstri-lýðveldisflokkurinn |
Maki | Dolores de Rivas Cherif |
Starf | Lögfræðingur, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaManuel Azaña var af auðugum spænskum ættum og fæddist í Alcalá de Henares árið 1880. Hann nam lögfræði við háskóla Ágústínusarreglunnar í El Escorial en var rekinn úr skólanum fyrir að hafa undir höndum myndir sem munkunum þóttu ósiðlegar. Hann bjó um hríð í París og kynntist þar róttækum stjórnmálastefnum.[1] Eftir nám vann Azaña fyrir sér bæði sem lögfræðingur og sem leikritaskáld.[2] Eftir heimkomuna til Spánar tók hann doktorspróf í lögum og vann sem háskólakennari og síðan sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.[1]
Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar vann Azaña sem bókavörður við Athenaeum í Madríd, samdi bækur um frönsk stjórnmál og gaf út tímarit um bókmenntir og stjórnmál sem varð vinsælt meðal menntamanna í höfuðborginni. Eftir stríðið lét einræðisherrann Miguel Primo de Rivera banna tímarit Azaña vegna gagnrýni á ríkisstjórnina sem var oft birt þar. Þetta stuðlaði að því að Azaña lagði bókmenntastörf sín á hilluna og helgaði feril sinn stjórnmálum.[3] Azaña gekk í nefnd til að berjast gegn einræði Primo de Rivera en var handtekinn ásamt samstarfsmanni sínum, Niceto Alcalá-Zamora, árið 1930.[1]
Eftir kosningar árið 1931 leið spænska konungdæmið undir lok og lýðveldi var stofnað á Spáni. Alcalá-Zamora varð forseti Spánar og Azaña varð hermálaráðherra og síðan forsætisráðherra í stjórn hans. Sem hermálaráðherra reyndi Azaña að hreinsa andófsmenn gegn lýðveldinu úr spænsku herforingjaklíkunni og lét meðal annars leysa 200 hershöfðingja og 12.000 liðsforingja úr embætti. Hershöfðinginn José Sanjurjo leiddi árið 1932 misheppnaða uppreisn konungssinna gegn stjórn Azaña en flúði í kjölfarið til Portúgals.[3]
Sem forsætisráðherra á árunum 1931 til 1933 beitti Azaña sér fyrir ýmsum þjóðfélagsumbótum til að gera spænsk lög og réttarkerfi réttlátari. Hann studdi meðal annars kosningarétt kvenna og að jarðeignir stóreignarmanna og trúarreglna yrðu teknar eignarhaldi og þeim skipt á milli smábænda. Aftur á móti gerði stjórn hans lítið til að koma í veg fyrir kirkjurán og kirkjubrennur sem áttu sér stað á þessum tíma.[2] Azaña lagði einnig áherslu á að auka alþýðumenntun á Spáni og á að draga úr áhrifum kaþólsku kirkjunnar í menntakerfinu.[3]
Azaña neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra í september árið 1933 vegna óánægju með umbætur hans og harða stefnu í garð kaþólsku kirkjunnar. Azaña komst aftur til valda sem forsætisráðherra vinstristjórnar eftir kosningar árið 1936. Þar sem Niceto Alcalá-Zamora forseti hafði þá tvisvar rofið þing var honum vikið úr embætti og Azaña var kjörinn nýr forseti Spánar.[3]
Áhrif Azaña í spænskum stjórnmálum döluðu eftir að hann varð forseti þar sem forseti lýðveldisins átti að vera hafinn yfir flokkastjórnmál. Azaña gerði sér grein fyrir því að lýðveldið stóð höllum fæti vegna síaukinnar þjóðfélagsóeirðar en gat lítið aðhafst sem forseti.[4] Þann 17. júlí gerðu hershöfðingjar valdaránstilraun gegn ríkisstjórninni sem hratt af stað spænsku borgarastyrjöldinni. Árið 1938 flúði Azaña til Barselóna ásamt ríkisstjórn sinni vegna framsóknar þjóðernissinna. Eftir að her Francisco Franco hertók Barselóna 26. janúar 1939 flúði Azaña til Frakklands og sagði af sér sem forseti þann 3. mars.
Azaña lést í bænum Montauban í Frakklandi í nóvember árið 1940.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Manuel Azana“. Fálkinn. 2. júní 1939. Sótt 4. ágúst 2019.
- ↑ 2,0 2,1 „Don Manuel Azana, forseti spænska lýðveldisins“. Vísir Sunnudagsblað. 24. janúar 1937. Sótt 3. ágúst 2019.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Ragnar Vold (29. ágúst 1936). „Menn og málefni á lýðveldinu Spáni“. Fálkinn. Sótt 4. ágúst 2019.
- ↑ Payne, Stanley (1970). The Spanish Revolution. New York: W. W. Norton. bls. 97–99, 181–184, 191–196.
Fyrirrennari: Juan Bautista Aznar-Cabañas |
|
Eftirmaður: Alejandro Lerroux | |||
Fyrirrennari: Manuel Portela Valladares |
|
Eftirmaður: Santiago Casares Quiroga | |||
Fyrirrennari: Niceto Alcalá-Zamora |
|
Eftirmaður: Francisco Franco (sem Caudillo) |