Ketildyngja er eldfjall í Ódáðahrauni. Nafnið Ketildyngja sést fyrst hjá Þorvaldi Thoroddsen og er sennilega frá honum runnið. Dyngjukeilan er lág en efst er allmikill sporöskjulagaður gígur sem nefnist Ketill. Þar er jarðhiti, hluti af háhitasvæði sem nefnist Fremri-Námur. Þar var numinn brennisteinn til útflutnings í aldaraðir. Norður af gígnum eru Ketilhyrnur, hnjúkar úr eldra bergi sem standa upp úr hrauninu. Norður og norðvestur af þeim eru Skjaldbaka og Skuggadyngja, gamlir dyngjugígar sem rísa upp úr hrauninu. Aðalhraunflæðið frá Ketildyngju leitaði til norðvesturs um Heilagsdal og fann sér svo leið um Selhjallagil niður í Mývatnssveit. Þar breiddi það úr sér og þakti stóran hluta sveitarinnar. Það myndar meginhluta Grænavatnsbruna milli Mývatns og Bláfells. Það flæddi niður farveg Laxár og hefur hugsanlega myndað fyrsta forvera Mývatns þegar það stíflaði árgilið. [1] Það rann síðan niður Laxárdal og Aðaldal og hugsanlega allt út á móts við norðurenda Fljótsheiðar. Þetta hraun nefnist Laxárhraun eldra. Allt ofan frá Grænavatnsbruna er hraunið að mestu hulið Laxárhrauninu yngra. Aðrir hraunstraumar flæddu frá Ketildyngju til norðurs í átt að Búrfelli og til suðurs og vesturs að Sellandafjalli. Hraunið frá Ketildyngju er með stærstu hraunum Íslands. Flatarmál þess er um 390 km2 og aldur þess er um 7000 ár.[2]

Ketildyngja
Bæta við mynd
Hæð939 metri
LandÍsland
SveitarfélagÞingeyjarsveit
Map
Hnit65°25′51″N 16°38′44″V / 65.43076°N 16.64561°V / 65.43076; -16.64561
breyta upplýsingum

Heimildir

breyta
  1. Sigurður Þórarinsson 1979. „The postglacial history of the Mývatn area“. Oikos 32. 17–28.
  2. Árni Hjartarson 2011. „Víðáttumestu hraun Íslands“. Náttúrufræðingurinn 81, 37-49.