Leitin (eldstöð)
64°00′29″N 21°32′37″V / 64.0081°N 21.5436°V
Leitin eða Leiti er eldstöð við Bláfjöll, austan við Lambafell á Reykjanesskaga. Gígurinn, sem er dyngjugígur, var gríðarstór en er nú fullur af framburði úr fjallshlíðum þar í kring. Hann varð til í miklu hraungosi (dyngjugosi) fyrir 5200 árum. [1] Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Þorlákshöfn). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaánna til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping svokallaðra gervigíga úr hraunkleprum og gjalli sem nefnast Rauðhólar. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Rauðamalarnám var stundað í Rauðhólum um miðja 20. öld og hurfu þá margir þeirra. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn. Hraunið kallast einu nafni Leitahraun en afmarkaðir hlutar þess bera ýmis nöfn svo sem Elliðavogshraun.[2] Hraunið hefur verið þunnfljótansi þegar það rann og er víðast hvar dæmigert helluhraun. Margir hellar eru í hrauninu, stærsti hellirinn er Raufarhólshellir við Þrengslaveg. Hellarnir Arnarker, Búri og Árnahellir eru einnig í hrauninu.
Leitahraun er eina hraunið sem runnið hefur inn fyrir þéttbýlismörk Reykjavíkur síðan ísöld lauk. Yngri hraun eru á stöku stað ofan á Leitahrauni t.d. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraunið). Það rann löngu seinna, nálægt árinu 1000. Þá varð gos í Eldborgum skammt frá Leitum. Það er apalhraun.
Tilvísanir
breyta- ↑ Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristjánsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2010). Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR).
- ↑ Árni Hjartarson, Helgi M. Sigurðsson og Reynir Vilhjálmsson (1998). Elliðaárdalur. Land og saga. Mál og mynd, Reykjavík.