Þráinsskjöldur

Eldfjall á Reykjanesi

Þráinsskjöldur er geysimikil hraunbunga norðaustan undir Fagradalsfjalli á utanverðum Reykjanesskaga. Eldgígurinn er hraunfylltur og mjög ógreinilegur en frá honum hefur runnið mikið hraun, Þráinsskjaldarhraun, sem þekur meira og minna allt land frá Fagradalsfjalli og til strandar í norðri. Það myndar ströndina alla utan frá Vogastapa og inn að Vatnsleysuvík. Nokkur móbergsfjöll standa upp úr hrauninu svo sem Keilir og Keilisbörn, Litli Keilir og Litli Hrútur. Þráinsskjöldur er dyngja, þ.e. eldstöð af svipaðri gerð og Skjaldbreiður, en vegna landslagsáhrifa hefur hann ekki náð að verða reglulegt hringmyndað eldfjall. Hraunið hefur komið upp um einn hringmyndaðan gíg eins og í flestum dyngjum. Úlit hraunsins og hraunstraumanna í því bendir til þess að kvikan sem upp kom hafi verið þunnfljótandi og gosið virðist hafa staðið lengi. Á þeim langa tíma sem liðinn er síðan hraunið rann hafa myndast mikil misgengi, sprungur og gjár í því.

Örnefnið Þráinsskjöldur er gamalt heiti á hraununum upp af Vatnsleysuströndinni og er nefnt í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Jón Jónsson jarðfræðingur gróf það úr gleymsku þegar hann kortlagði hraun Reykjanesskagans og notaði það yfir eldstöðina í heild. Þráinsskjöldur er því strangt til tekið eldfjall þótt fáir myndu vilja kalla þennan lága og flata hraunskjöld fjall. Hæstu nibbur á gígbörmum ná 238 m y.s.

Þráinsskjaldarhraun er stærsta hraunið á utanverðum Reykjanesskaga, flatarmál þess er um 135 km². Sjór hefur staðið allnokkru lægra við ströndina þegar hraunið rann en hann gerir nú. Hraunið nær víða einn til tvo km út fyrir ströndina. Talið er að flatarmál þess neðansjávar sé um 11 km². Heildarflaratmálið er því 146 km². Rúmmál hraunsins hefur verið áætlað rúmir 5 km³. Vogar og byggðin á Vatnsleysuströnd er á hrauninu. Þráinsskjaldarhraun er meðal elstu hrauna á Reykjanesskaga, það rann í ísaldarlok, á sama tíma og ísaldarjökullinn var að hopa af skaganum. Sýnilegt er að eftir að hraunið rann hefur jökullinn vaxið á ný og flætt út á austasta hluta þess en síðan hopað fljótt til baka og hörfað inn til lands. Aldursgreiningar á skeljum í sjávarseti undir hrauninu sýna að það er um 14.100 ára.

Heimildir

  • Kristján Sæmundsson 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Í: Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson (ritstj.). Eyjar í eldhafi. Safn greina um náttúrufræði til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál hf. Reykjavík, bls. 165-172.
  • Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. Reykjanesskagi. Í: Júlíus Sólnes (ritstj.) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, bls. 379-401.
  • Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristinsson og Magnús Á. Sigurgeirsson 2010. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir.
  • Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Skýringar við Jarðfræðikort. OS-JHD-7831, Orkustofnun.

Tengill

breyta