Benedikt Gröndal eldri

Benedikt Gröndal eldri (13. nóvember 176230. júlí 1825) eða Benedikt Jónsson Gröndal var síðasti lögmaðurinn sunnan og austan og síðan dómari við Landsyfirrétt (landsyfirréttar assessor). Hann var menntaður í klassískum fræðum og varð fyrstur manna á Íslandi svo vitað sé til að þýða ljóð úr grísku. Benedikt orti í æsku á árunum 1775 – 1777 rímur af Hrómundi Gripssyni.

Benedikt fæddist í Vogum við Mývatn. Hann var sonur séra Jóns Þórarinssonar í Vogum og konu hans Helgu Tómasdóttur frá Skriðu í Hörgárdal. Hann fór í Hólaskóla á 16. aldursári og útskrifaðist árið 1781. Næstu tvö sumur var hann á Hólum hjá stólhaldara Jóni Árnasyni og var skrifari hjá meistara Hálfdáni sem gegndi biskupsverkum á Hólum.

Haustið 1782 fór Benedikt að Innra-Hólmi á Akranesi til Ólafs Stefánssonar amtmanns og dvaldi þar á þriðja ár sem skrifari Ólafs. Árið 1785 sigldi hann til Kaupmannahafnar og tók skólalærdómspróf (examen artium) 1786. Árin 17871788 lagði hann stund á nám í latínu og grísku og „hinum fögru vísindum“ en tók þá ekki próf og iðraðist þess síðar. Benedikt lagði hins vegar kapp á þá vísindagrein sem helst þótti lífleg til atvinnu og árin 1789 til 1790 las hann lög. Hann var jaframt starfsmaður nefndar sem fjallaði um skipun kaupverslunar Íslands og Finnmerkur. Á árunum 17881791 var hann skrifari hins konunglega íslenska lærdómslistafélags. Hann tók embættispróf í lögum 21. júní 1791 og var sama ár skipaður varalögmaður og skyldi taka við þegar Magnús Ólafsson lögmaður sunnan og austan félli frá eða léti af embætti.

Benedikt sigldi til Íslands með skipinu Svalan sem lagði í haf 26. september 1791. Skipið kom til Íslands eftir 72 daga og brotnaði við Vatnsleysuströnd nálægt Breiðagerði þann 6. desember 1791 en fólk og fé komst í land. Benedikt og annar maður lögðu á stað yfir Vatnsleysuheiði en er þeir áttu stutt eftir til Óttarsstaða sofnaði Benedikt úr vosbúð og kulda en fylgarmaður hans náði til bæjar og var Benedikt naumlega bjargað.

Hann var á Lambastöðum á Seltjarnarnesi hjá séra Geir Vídalín um veturinn en fór aftur utan og sótti um stöðu amtmanns í suðuramtinu, sem hann fékk þó ekki. Hann kom þá aftur heim og var á Lambastöðum og Bessastöðum þar til hann kvæntist og fór að búa. Magnús lögmaður dó í janúar árið 1800 og varð Benedikt þá lögmaður. Það stóð þó skammt því sama ár var lögmannsembættið lagt niður en Benedikt varð fyrsti assessor í landsyfirrétti með 700 dala árslaun. Gegndi hann því embætti til 18. júní 1817, þegar hann fékk lausn vegna veikinda.

Kona Benedikts var Þuríður Ólafsdóttir frá Frostastöðum í Skagafirði, systir Ólafs Ólafssonar lektors í Túnsbergi í Noregi. Dætur þeirra voru Helga, kona Sveinbjarnar Egilssonar rektors, og Ragnhildur kona Stefáns Gunnlaugssonar landfógeta. Sonur Helgu og Sveinbjarnar var skáldið Benedikt Gröndal sem einnig er nefndur Benedikt Gröndal yngri til aðgreiningar frá afa sínum.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Magnús Ólafsson
Lögmaður sunnan og austan
(18001800)
Eftirmaður:
Enginn