Lambastaðir voru bær á sunnanverðu Seltjarnarnesi, ein helsta jörðin í Seltjarnarneshreppi hinum forna, útvegsjörð, prestssetur og um tíma biskupssetur. Í landi Lambastaða hófst fyrsta þéttbýlismyndun í landi núverandi sveitarfélags, snemma á 20. öld.

Reykjavíkurprestur sat á Lambastöðum um 200 ára skeið. Þegar séra Geir Vídalín varð biskup Skálholtsbiskupsdæmis 1797 og flytja átti biskupsdæmið til Reykjavíkur fékkst ekki húsnæði fyrir biskupinn í kaupstaðnum og varð því úr að hann sat áfram á Lambastöðum og var þar biskupssetur um tíu ára skeið. Raunar mun Geir líka hafa viljað vera um kyrrt, þótti betra að stunda búskap á Lambastöðum en í kaupstaðnum og „Seltirningar siðugri en þeir í Vík“. Séra Brynjólfur Sívertsen, sem tók við af Geir sem dómkirkjuprestur, settist að í Seli.

Geir biskup var afar gestrisinn og gjöfull við þurfamenn og var mikil umferð að Lambastöðum og margir sem fengu þar mat. Sagt er að Geir hafi einhverntíma sagt að það væru tveir staðir þar sem aldrei slokknaði eldur, í helvíti og á Lambastöðum, og átti þá við að þar væri stöðugt verið að elda mat handa gestum og gangandi. Árið 1807 var svo komið að Geir, sem þá var orðinn biskup alls Íslands, varð gjaldþrota. Var honum þá gert að flytja frá Lambastöðum og í Aðalstræti 10, þar sem honum voru skammtaðar ákveðnar vörur til lífsviðurværis.

Þegar Seltjarnarneshreppur hinn nýi var stofnaður 1948 bjuggu þar um 500 manns, langflestir í Lambastaðahverfi. Landamerki Reykjavíkur og Seltjarnarness eru enn í dag að mestu hin sömu og gömlu landamerkin milli Víkur annars vegar og Lambastaða og Eiðis hins vegar.

Heimildir breyta

  • „Danskar guðsjþjónustur í Reykjavík. Lesbók Morgunblaðsins, 27. janúar 1952“.