Geir Vídalín (27. október 1761 - 20. september 1823) var biskup í Skálholtsbiskupsdæmi frá 1797 - en sat þó aldrei í Skálholti - og biskup Íslands alls frá 1801 - 1823. Hann bar þann titil fyrstur manna eftir siðaskipti, en áður höfðu verið tvö sjálfstæð biskupsembætti í landinu, í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal.

Aðalstræti 10 var aðsetur Geirs Vídalín biskups frá 1807-1823 og kallaðist þá Biskupsstofan.

Geir var sonur Jóns Jónssonar (10. ágúst 1726 - 1. desember 1767) prests í Laufási, sonar Jóns yngri Pálssonar Vídalín. Móðir Geirs var Sigríður Magnúsdóttir, systir Skúla fógeta. Geir lauk prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1789. Hann var dómkirkjuprestur í Reykjavík og bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi, þar sem þá var prestssetur Reykvíkinga. Hann var valinn biskup eftir lát Hannesar Finnssonar 1796. Hann var vígður biskup á Hólum af Sigurði Stefánssyni biskupi þar 30. júlí 1797. Hann sat þó áfram á Lambastöðum, enda hafði alltaf staðið til að flytja biskupssetrið til Reykjavíkur við lát Hannesar.

Sigurður Hólabiskup dó vorið 1798, það dróst að skipa eftirmann hans og á endanum varð úr að sameina biskupsdæmin. Var Geir skipaður biskup yfir Íslandi með konungsbréfi í nóvember 1801. Hann bjó áfram á Lambastöðum til 1807. Þá flutti hann í Aðalstræti 10, sem eftir það var nefnt Biskupsstofan, og bjó þar til dauðadags.

Geir biskup var orðlagður fyrir gestrisni og góðmennsku og var oft kallaður Geir biskup góði. Hann sást oft ekki fyrir í greiðasemi sinni og heimilið var dýrt í rekstri. Á endanum varð biskupinn gjaldþrota, svo að skipuð var nefnd sem sá um fjármál hans og skammtaði honum meðal annars mjöl, smjör, blek og tóbak vikulega.

Haustið 1823 kom marsvínavaða að landi við Hlíðarhús og var hún rekin þar á land og hvölunum slátrað. Flestir íbúar Reykjavíkur komu að horfa á, þar á meðal biskup. Hann varð innkulsa við þetta og dó úr lungnabólgu nokkru síðar.

Kona Geirs var Sigríður Halldórsdóttir og bjó hún áfram í Biskupsstofunni þar til hún lést 1846. Sigurður Pétursson, sýslumaður og leikskáld, var skólafélagi Geirs og aldavinur. Þegar hann sagði af sér embætti vegna heilsubrests 1803 flutti hann til Geirs og bjó hjá honum þar til Geir lést og síðan hjá ekkju hans þar til hann lést 1827.

Heimildir

breyta
  • „Lesbók Morgunblaðsins, 8. apríl 1962“.
  • „Prestar Reykvíkinga. Lesbók Morgunblaðsins, 14. maí 1967“.


Fyrirrennari:
Hannes Finnsson
Skálholtsbiskup
(17971801)
Eftirmaður:
Síðastur í embætti
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Biskup Íslands
(18011823)
Eftirmaður:
Steingrímur Jónsson