Angela Merkel

Kanslari Þýskalands
(Endurbeint frá Angela Dorothea Merkel)

Angela Dorothea Merkel (fædd 17. júlí 1954 í Hamborg í Þýskalandi), fædd Angela Dorothea Kasner, er þýskur stjórnmálamaður, eðlisfræðingur og fyrrverandi kanslari Þýskalands. Hún er dóttir Lútherstrúar-prests og kennslukonu. Hún ólst upp að mestu í Templin, litlum bæ í þáverandi Austur-Þýskalandi, 70 km norður af Berlín. Á árunum 1973 til 1978 nam hún eðlisfræði við Háskólann í Leipzig. Hún vann að doktorsverkefni sínu í kennilegri efnafræði í Berlín og kynntist þar núverandi eiginmanni sínum, prófessor Sauer. Hún komst á þýska þingið árið 1991 sem þingmaður Mecklenburg-Vorpommern.

Angela Merkel
Angela Merkel árið 2010.
Kanslari Þýskalands
Í embætti
22. nóvember 2005 – 8. desember 2021
ForsetiHorst Köhler
Christian Wulff
Joachim Gauck
Frank-Walter Steinmeier
ForveriGerhard Schröder
EftirmaðurOlaf Scholz
Formaður Kristilega demókrataflokksins
Í embætti
10. apríl 2000 – 7. desember 2018
ForveriWolfgang Schäuble
EftirmaðurAnnegret Kramp-Karrenbauer
Persónulegar upplýsingar
Fædd17. júlí 1954 (1954-07-17) (70 ára)
Hamborg, Vestur-Þýskalandi (nú Þýskalandi)
ÞjóðerniÞýsk
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn
MakiUlrich Merkel (g. 1977; skilin 1982)
Joachim Sauer (g. 1998)
HáskóliHáskólinn í Leipzig
VerðlaunKarlsverðlaunin (2008)
Nansen-verðlaunin (2022)
Undirskrift

Hún varð formaður flokks Kristilegra demókrata (CDU) 10. apríl 2000 og gegndi formannsembættinu til 7. desember 2018. Merkel var kjörin kanslari Þýskalands af þýska sambandsþinginu 22. nóvember 2005. Sem ríkisstjórnarleiðtogi stærstu þjóðar innan Evrópusambandsins hafði Merkel mikil áhrif á viðbrögð Evrópumanna við evrópsku skuldakreppunni, evrópska flóttamannavandanum og alþjóðlega kórónaveirufaraldrinum. Merkel dró sig til hlés úr stjórnmálum að loknu fjórða kjörtímabili hennar og var ekki í framboði í þingkosningum ársins 2021.

Æviágrip

breyta

Angela Merkel (þá Kasner) fæddist árið 1954 í Hamborg í Vestur-Þýskalandi. Hún var aðeins nokkurra vikna gömul þegar foreldrar hennar fluttu með hana til Austur-Þýskalands, þar sem faðir hennar hafði fengið vinnu sem lúterskur prestur.[1] Kasner lærði eðlisfræði í háskóla og fékk að námi loknu starf við rannsóknir í vísindaháskóla í Berlín. Í háskólanum kynntist hún samnemanda sínum, Ulrich Merkel, og giftist honum árið 1977. Hjónaband þeirra entist aðeins í fimm ár áður en þau skildu, en Angela hélt nafni fyrrum eiginmanns síns.[1]

Angela Merkel vakti á þessum tíma athygli austur-þýskra stjórnvalda og var jafnvel boðið starf hjá leyniþjónustunni Stasi, sem hún afþakkaði með þeirri tylliástæðu að hún kynni ekki að þegja yfir leyndarmálum.[1] Merkel var ekki áhugasöm um stjórnmál á yngri árum sínum en var þó gagnrýnin á austur-þýsk stjórnvöld.

Stjórnmálaferill

breyta

Merkel hóf virka þátttöku í þýskum stjórnmálum eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989. Hún gekk í nýstofnaðan hægriflokk sem rann síðan saman við Kristilega demókrataflokkinn eftir að austur- og vesturhlutar Þýskalands sameinuðust á ný árið 1990. Merkel var kjörin á þýska ríkisþingið fyrir Kristilega demókrata í fyrstu þingkosningum sameinaðs Þýskalands og stuttu síðar bauð Helmut Kohl kanslari henni ráðherrasæti kvenna- og fjölskyldumála í stjórn sinni.[2] Þá var Angela Merkel 35 ára og þar með yngsti ráðherra í sögu Þýskalands.[1]

Ríkisstjórn Kohl féll í kosningum fyrir Jafnaðarmönnum árið 1998. Eftir ósigurinn var Merkel útnefnd ritari Kristilega demókrataflokksins. Eftir að upplýst var um hneykslismál er varðaði óeðlileg fjárframlög til flokksins sem snerti bæði Kohl og eftirmann hans á formannsstól, Wolfgang Schäuble, fór Merkel að gagnrýna Kohl og leggja til að Kristilegir demókratar segðu skilið við hann.[3] Þessi svik Merkel á pólitískum læriföður sínum vöktu mikla athygli þýskra fjölmiðla og var talað um gagnrýni hennar á Kohl sem „föðurmorð“.[1] Merkel var kjörin formaður Kristilega demókrataflokksins í apríl árið 2000.[4]

Kanslaratíð (2005–2021)

breyta

Merkel var kjörin kanslari Þýskalands í stjórnarsamstarfi Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna eftir mjög jafnar þingkosningar árið 2005.[5] Merkel hafði í aðdraganda kosninganna boðað róttækar umbætur í anda markaðshyggju en í stjórnarmyndunarviðræðunum þurftu flokkarnir að miðla málum um margt. Meðal þess sem flokkarnir komu sér saman um í stjórnarsáttmálanum var að draga úr fjárhagshalla með aukinni skattlagningu.[6] Auk þess boðaði Merkel bætt samskipti við Bandaríkin. Árið 2007 sat Merkel í forsæti evrópska ráðsins og gegndi þar með lykilhlutverki í samningu og viðræðum um Lissabon-sáttmálann, sem var samþykktur í lok ársins.

 
Merkel ásamt íhaldsleiðtogunum Mariano Rajoy og Viktor Orbán á flokksþingi Evrópska þjóðarflokksins árið 2012.

Kristilegir demókratar bættu við sig sætum í þingkosningum árið 2009 og gátu myndað hægristjórn án Jafnaðarmanna. Merkel sat áfram sem kanslari í stjórnarsamstarfi Kristilegra demókrata við hinn miðhægrisinnaða Frjálsa demókrataflokk. Á öðru kjörtímabili Merkel skall evrópska skuldakreppan á. Á kjörtímabilinu var herskylda lögð niður og atvinnuleysi fór niður fyrir þrjár milljónir manns.[7]

Kristilegir demókratar unnu þingkosningarnar árið 2013 en Frjálsi demókrataflokkurinn fékk ekki nægt fylgi til að komast inn á þing. Því neyddist Merkel til að stofna til nýs stjórnarsamstarfs við Jafnaðarmannaflokkinn. Árið 2015 sór Merkel þess eið að veita flóttamönnum úr sýrlensku borgarastyrjöldinni hæli í Þýskalandi. Merkel hefur bæði hlotið lof og last fyrir viðbrögð hennar við evrópska flóttamannavandanum og margir íhaldssamari meðlimir Kristilegra demókrata hafa gagnrýnt hana fyrir að hleypa um milljón flóttamönnum[8] inn í landið. Segist hún þó ekki sjá eftir ákvörðun sinni og að hún hafi tekið ákvörðun sína af pólitískum ástæðum og af mannúðarsjónarmiðum.[9]

Í kosningum árið 2017 voru Kristilegir demókratar áfram stærsti flokkurinn en töpuðu þó nokkru fylgi.[10] Jafnaðarmenn höfðu tapað enn meira fylgi á stjórnarsamstarfinu og því lýsti Martin Schulz, þáverandi formaður Jafnaðarmanna, því yfir að flokkurinn myndi sitja í stjórnarandstöðu frekar en að taka aftur þátt í ríkisstjórn með Merkel. Úr varð stjórnarkreppa sem entist fram í mars næsta árs, en eftir nokkrar misheppnaðar stjórnarmyndunarviðræður létu Jafnaðarmenn til leiðast og endurnýjuðu stjórnarsamstarfið við flokk Merkel. Merkel hóf sitt fjórða kjörtímabil sem kanslari Þýskalands þann 14. mars 2018.[11]

Á stjórnarárum sínum leitaðist Merkel við að viðhalda vinsamlegum samskiptum Þýskalands við Rússland og reyndi að koma til móts við Rússa í ýmsum deiluefnum þeirra við Vesturlönd. Árið 2008 átti hún, ásamt Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, þátt í að koma í veg fyrir að Úkraína hlyti aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), en Vladímír Pútín Rússlandsforseti hafði verið afar gagnrýninn á þreifingar Úkraínu eftir NATO-aðild. Stjórn Merkels gerði jafnframt viðskiptasamninga um flutninga jarðgass frá Rússlandi til Þýskalands, sem Merkel sagði til þess fallna að styðja þýsk fyrirtæki og halda samskiptum við Rússa friðsamlegum.[12] Þrátt fyrir að fordæma ólöglega innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 lét stjórn Merkels tvöfalda flutningsgetu Nord Stream 1-gasleiðslunnar frá Rússlandi árið 2015, enda var efnahagur Þýskalands þá orðinn afar háður rússnesku gasi.[13] Stjórn Merkels samþykkti jafnframt lagningu nýrrar gasleiðslu til Þýskalands frá Rússlandi, Nord Stream 2, þrátt fyrir háværa gagnrýni um að leiðslan myndi gera Þjóðverja enn háðari Rússum á sama tíma og rússnesk stjórnvöld stæðu fyrir glæpum á borð við eitrun stjórnarandstæðingsins Aleksej Navalnyj.[14] Innrás Rússa í Úkraínu hófst aðeins fáeinum mánuðum eftir að Merkel lét af embætti undir lok ársins 2021 og því hefur stefna hennar í samskiptum Þýskalands og Rússlands í síauknum mæli verið gagnrýnd.[12]

Þann 29. október 2018 tilkynnti Merkel að hún hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður Kristilegra demókrata.[15] Með þessu sagðist hún ætla að axla ábyrgð fyrir lélegan árangur Kristilegra demókrata í héraðskosningum. Merkel lýsti því jafnframt yfir að hún hygðist láta af störfum sem kanslari við lok kjörtímabilsins árið 2021 og hætta alfarið í stjórnmálum.[16] Annegret Kramp-Karrenbauer, sem er náinn bandamaður Merkels og hafði hlotið meðmæli hennar í formannssætið, var kjörin formaður Kristilegra demókrata í desember árið 2018.[17] Kramp-Karrenbauer tilkynnti hins vegar þann 10. febrúar 2020 að hún hygðist segja af sér sem formaður flokksins.[18] Afsögn hennar kom í kjölfar deilna um það að flokksmenn Kristilegra demókrata hefðu greitt atkvæði ásamt öfgahægriflokknum Valkosti fyrir Þýskaland um myndun nýrrar stjórnar í Þýringalandi.[19] Armin Laschet tók við af Kramp-Karrenbauer sem formaður Kristilegra demókrata eftir formannskjör þann 16. janúar 2021.[20]

Án Merkel við stjórnvölinn gekk Kristilegum demókrötum ekki vel í kosningunum 2021. Þetta leiddi til þess að Olaf Scholz, kanslaraefni Jafðaðarmanna, tók við af Merkel eftir myndun nýrrar stjórnar þann 8. desember þetta ár.[21]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Vera Illugadóttir (1. september 2017). „Undraverður uppgangur Angelu Merkel“. RÚV. Sótt 1. september 2018.
  2. Miriam Tang (9. apríl 2000). „Merkel á grasrótarstuðning vísan“. Morgunblaðið. bls. 6.
  3. „Heimta að Kohl leysi frá skjóðunni“. Dagblaðið Vísir. 23. desember 1999. bls. 9.
  4. „Angela Merkel kjörin formaður CDU“. Morgunblaðið. 16. apríl 2000. bls. 4.
  5. Arthúr Björgvin Bollason (11. október 2005). „Stjórnarmyndunarviðræður að hefjast“. Morgunblaðið. bls. 15.
  6. Kristján Jónsson (23. nóvember 2005). „Erfið stjórnarmyndun en Merkel hvergi bangin“. Morgunblaðið. bls. 14.
  7. „Arbeitsmarkt: Arbeitslosigkeit 2011 meist unter drei Millionen“ (þýska). 27. október 2010. Sótt 1. september 2018.
  8. „Milljón flóttamenn til Þýskalands í ár“. Viðskiptablaðið. 11. október 2015. Sótt 3. september 2018.
  9. Kristinn Ingi Jónsson (28. ágúst 2017). „Merkel segist ekki sjá eftir neinu“. Vísir. Sótt 3. september 2018.
  10. Birgir Þór Harðarson (25. september 2017). „Bandalag Merkel stærst en stuðningurinn minni“. Kjarninn. Sótt 3. september 2018.
  11. „Angela Merkel endurkjörin“. mbl.is. 14. mars 2018. Sótt 3. september 2018.
  12. 12,0 12,1 Valgerður Gréta Guðmundsdóttir Gröndal (25. nóvember 2024). „„Ef Úkraína hefði fengið aðild að NATO hefði stríðið byrjað fyrr og líklega orðið verra". RÚV. Sótt 19. desember 2024.
  13. Björn Bjarnason (10. apríl 2022). „Langur skuggi Merkel-áranna hvílir yfir samskiptunum við Úkraínumenn“. Varðberg. Sótt 19. desember 2024.
  14. Jóhann Hlíðar Harðarson (27. ágúst 2018). „Hóta refsiaðgerðum vegna Nord Stream 2“. RÚV. Sótt 19. desember 2024.
  15. „Angela Merkel hættir eftir átján ára formennsku“. Vísir. 29. október 2018. Sótt 29. október 2018.
  16. „Fylgistap Angelu Merkel að falli“. mbl.is. 29. október 2018. Sótt 29. október 2018.
  17. „Bandamaður Merkel sigraði“. mbl.is. 7. desember 2018. Sótt 7. desember 2018.
  18. Atli Ísleifsson (10. febrúar 2020). „Eftirmaður Merkel verður ekki næsti kanslari“. Vísir. Sótt 10. febrúar 2020.
  19. Snorri Másson (10. febrúar 2020). „Afsögn í skugga fasistahneykslis“. mbl.is. Sótt 10. febrúar 2020.
  20. „Armin Laschet er arftaki Merkel“. mbl.is. 16. janúar 2021. Sótt 16. janúar 2021.
  21. „Olaf Scholz kjörinn kanslari Þýskalands“. mbl.is. 8. desember 2021. Sótt 8. desember 2021.


Fyrirrennari:
Gerhard Schröder
Kanslari Þýskalands
(22. nóvember 20058. desember 2021)
Eftirmaður:
Olaf Scholz