Viktor Orbán

Viktor Mihály Orbán[1] (f. 31. maí 1963) er ungverskur stjórnmálamaður sem hefur verið forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010. Hann var áður forsætisráðherra landsins frá 1998 til 2002. Hann er núverandi formaður þjóðernissinnaða íhaldsflokksins Fidesz. Hann hefur gegnt forystu flokksins frá árinu 2003 og var áður formaður hans frá 1993 til 2000.

Viktor Orbán
Viktor Orbán 2018.jpg
Viktor Orbán árið 2018.
Forsætisráðherra Ungverjalands
Núverandi
Tók við embætti
29. maí 2010
Í embætti
6. júlí 1998 – 27. maí 2002
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. maí 1963 (1963-05-31) (56 ára)
Székesfehérvár, Ungverjalandi
StjórnmálaflokkurFidesz
MakiAnikó Lévai (g. 1986)
BörnRáhel, Gáspár, Sára, Róza, Flóra
HáskóliEötvös Loránd-háskóli; Pembroke-háskóli, Oxford
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Orbán fæddist í Székesfehérvár og nam lögfræði í Eötvös Loránd-háskóla, þaðan sem hann útskrifaðist árið 1987. Hann nam stjórnmálafræði í stuttan tíma en hóf síðan sjálfur þátttöku í stjórnmálum í kjölfar byltinga ársins 1989. Hann gerðist leiðtogi stúdentahreyfingarinnar Bandalags ungra lýðræðissinna (Fiatal Demokraták Szövetsége) sem síðar varð að stjórnmálaflokknum Fidesz. Orbán varð þjóðþekktur stjórnmálamaður eftir að hann hélt ræðu við endurgreftrun Imre Nagy og annarra píslarvotta uppreisnar ársins 1956. Í ræðunni krafðist Orbán þess opinskátt að sovéskir hermenn hefðu sig á burt úr Ungverjalandi.

Eftir að kommúnisminn féll og lýðræði var komið á í Ungverjalandi var Orbán kjörinn á ungverska þjóðþingið og varð þar leiðtogi Fidesz árið 1993. Fidesz hafði í upphafi aðhyllts efnahagslega frjálshyggju og Evrópusamruna en undir forystu Orbán varð hann brátt þjóðernissinnaður hægriflokkur. Eftir að Fidesz unnu flest sæti á þingi í kosningum árið 1998 gerðist Orbán forsætisráðherra hægrisinnaðrar samsteypustjórnar og gegndi því embætti í fjögur ár.

Fidesz tapaði þingkosningum árin 2002 og 2006 með naumindum og Orbán var því leiðtogi stjórnarandstöðunnar í átta ár. Vinsældir ungverskra sósíalista döluðu mjög á seinna kjörtímabili þeirra og því tókst Orbán að vinna stórsigur í þingkosningum árið 2010. Orbán varð forsætisráðherra á ný með mikinn meirihluta á þingi og gerði stórtækar breytingar á ungversku stjórnarskránni. Fidesz hélt afgerandi þingmeirihluta sínum eftir kosningar árin 2014 og 2018.

Stefnumál Orbán eru mjög íhaldssöm bæði með tilliti til félagsmála og þjóðernismála. Hann hefur lýst stjórnarháttum sínum sem uppbyggingu svokallaðs „ófrjálslynds lýðræðis“.[2] Orbán hefur verið sakaður um einræðistilburði.[3][4][5]

TilvísanirBreyta

  1. Orbánnak kiütötték az első két fogát, Origo, 20. desember 2012; skoðað 21. júní 2018.
  2. „Prime Minister Viktor Orbán’s Speech at the 25th Bálványos Summer Free University and Student Camp“. 30. júlí 2014.
  3. Meijers, Maurits; van der Veer, Harmen. „Hungary’s government is increasingly autocratic. What is the European Parliament doing about it?“. washingtonpost.com. Washington Post. Sótt 21. júní 2018.
  4. „What to do when Viktor Orban erodes democracy“. economist.com. The Economist. Sótt 21. júní 2018.
  5. Kingsley, Patrick 10. febrúar 2018, „As West Fears the Rise of Autocrats, Hungary Shows What’s Possible". The New York Times. ISSN 0362-4331 Skoðað 10. febrúar 2018.


Fyrirrennari:
Gyula Horn
Forsætisráðherra Ungverjalands
(6. júlí 199827. maí 2002)
Eftirmaður:
Péter Medgyessy
Fyrirrennari:
Gordon Bajnai
Forsætisráðherra Ungverjalands
(29. maí 2010 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti