Auschwitz

Útrýmingarbúðir nasista

50°02′09″N 19°10′42″A / 50.03583°N 19.17833°A / 50.03583; 19.17833

Aðalhlið Auschwitz árið 2006.

Auschwitz (þýska: Konzentrationslager Auschwitz-Birkenau, KZ Auschwitz) voru stærstu fanga- og útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni, staðsettar í Póllandi nasista-þýskalands. Búðirnar samanstóðu af þremur aðalbúðum og rúmlega 40 undirbúðum. Í búðunum voru um 1,3 milljónir líflátnar, um 85% þeirra gyðingar. [1] Auschwitz var þýska nafnið á bænum Oświęcim sem er staðsettur um 60 kílómetra vestur af Kraká í Suður-Póllandi.[2][3]

Rudolf Höss breyta

Rudolf Höss var yfirmaður í Auschwitz á árunum 1940-1943. Hann hafði ætlað sér að verða prestur áður en hann var kvaddur í herinn til að berjast í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið gekk hann í Freikops, einkaher sem var skipulagður af liðsforingjum úr þýska hernum úr stríðinu. Árið 1922 gekk Höss í þýska nasistaflokkinn og síðar í Artamenen sem var félag öfgafullra þjóðernissinna sem fyrirlitu borgarlífið og vildi hverfa aftur til einfaldari tíma bænda, eftir ódæðisverk þar lenti hann í fimm ára fangelsvist árið 1923. Í júnímánuði árið 1934 bauð Heinrich Himmler honum vinnu hjá öryggissveitum nasista, betur þekkt sem SS sveitirnar, og eftir eilítið hik þáði hann það. Seinna sama árs fór hann til Dachau sem voru fyrstu þrælabúðir þriðja ríkisins. Árið 1938 þáði hann stöðu sem búðastjóri í Sachsenhausen sem voru þrælabúðir 34 km norður af Berlín. Þar stjórnaði hann einni aftökusveit þeirra búða. 30. apríl árið 1940 var honum boðið yfirmannastarf í Auschwitz.[4]

Bygging Auschwitz breyta

Auschwitz voru til fyrir komu nasista. Þær voru áður notuð sem vinnubúðir og síðar hersstöð í fyrri heimstyrjöldinni. Nasistar bættu við byggingum og aðlöguðu að eigin þörfum. Þegar Höss tók við stöðu yfirmanns Auschwitz var ekki enn búið að byggja þær, heldur átti hann einnig að stýra byggingu þeirra.[5] Fyrstu fangarnir komu svo í júní 1940 en það voru 30 þýskir glæpamenn fluttir frá Sachsenhausenbúðunum. Þeir voru fyrstu kapóarnir, fangar sem voru yfir öðrum föngum og átti að sjá um að þeir ynnu vel, annars yrði þeim refsað en ekki hinum föngunum, en þegar hins vegar kapói var leystur af störfum var honum yfirleitt refsað af föngunum sem hann sá áður um. Þessir þrjátíu fangar áttu að sjá um að fyrstu pólsku fangarnir byggðu búðirnar. Þeir fengu frumstæð verkfæri og ekki nóg nóg hráefni svo þeir urðu að stela af húsum Pólverja. Þessi þjófnaðarhefð var undirstaða í byggingu búðanna. Vinnuflokkar stálu frá öðrum vinnuflokkum og Höss sjálfur segir frá því að hann þurfti að stela ökutækjum, keyra um og hnupla nauðsynlegum hráefnum og jafnvel heimilisáhöldum. [6] Höss sagði líka frá því þegar hann var í fangelsi og minnist þessa að það eina sem hélt honum gangandi væri að hafa eitthvað fyrir stafni. Því setti hann á skilti fyrir ofan innganginn frasann: „Vinnan gerir þig frjálsan“, vitandi að þetta voru væntanlegar þrælabúðir.[7]

Auschwitz I breyta

Til að byrja með var aðal dauðaorsök í búðunum of mikil líkamleg vinna, næringarskortur eða líkamlegt ofbeldi. Þeir sem ekki dóu vegna líkamlegs niðurbots gerðu það í skála 11. Hann var skáli sem notaður var til að refsa og pynta fanganna. Jerzy Bielecki er einn þeirra örfáu sem hafa komið inn í hann og út aftur á lífi. Hann var sendur þangað fyrir að gera upp vinnu. Hann var svo veikur að hann gati ekki sinnt sínum venjulega hjólböruakstri svo hann þóttist vera að hreinsa til hér og þar, var svo gripinn og sendur í skála 11 sem refsingu. Þar var hann látinn standa upp á stól, hendur bundnar fyrir aftan bak og upp í loftið, stólnum kippt undan honum og hann látinn hanga við gífurlegann sársauka. Á milli klefa 10 og 11 var lítill aflokaður garður, þar fóru aftökur fram fyrir tíma gasklefanna. Mönnum var stillt upp við vegginn og skotnir í höfuðið með langhlaupa skammbyssum til að skapa sem minnstan hávaða.[8]

Auschwitz II (Birkenau) breyta

Sumarið 1941 komst Karl Fritzsch að því að kristölluð blásýra, almennt þekkt sem Zyklon B, kæmi sér vel til að aflífa fanga.[9] Í september sama ár var ákveðið að byggja aðrar búðir, Auschwitz-Birkenau, oft þekktar sem Auschwitz II, þá hannaðar sem útrýmingabúðir fyrir sovéska stríðsfanga. 10.000 fangar voru sendir til að byggja þær og 9.000 dóu á fyrstu sex mánuðunum. Þegar lokið var svo við þær voru aðeins nokkur hundruð eftir lifandi.[10] Í júlí 1942 var byrjað á „flokkun gyðinga“, aðferð sem nasistarnir voru frægir fyrir. Þá voru gyðingar flokkaðir eftir því hvort þeir gátu unnið eða ekki. Börn, gamalt fólk og veikir voru aflífaðir sem fyrst meðan aðrir þræluðu fyrir herinn.[11] Snemma árið 1943 var ákveðið að stækka gas-rúmtak í Auschwitz II. Í júní það ár voru fjórir gasklefar tilbúnir sem voru hannaðir til að drepa og losna við líkin með tiltölulega lítilli fyrirhöfn.[12]

Læknarannsóknir breyta

Læknar innan nasista gerðu ýmsar tilraunir á gyðingum í Auschwitz. Til að mynda prófuðu þeir áhrif röntgengeisla sem vönunartæki á kvenkyns föngum. Doktor prófessor Carl Clauberg gerði tilraunir til að líma saman leggöngin á konum með því að sprauta ýmsum efnum inn í þau. Þýska lyfjafyrirtækið Bayer, þá dótturfyrirtæki lyfjafyrirtækisins IG Farben, keypti fanga til að nota sem tilraunadýr til að prófa ný lyf.[13] Frægasti læknirinn innan veggja Auschwitz var Josef Mengele, einnig kallaður „engill dauðans“. Hann hafði miklar mætur á tvíburum og dvergum. Prófaði hann þá að sprauta þá með drepi til að athuga hvernig líkaminn brygðist við. Einnig sprautaði hann annan tvíburann með sjúkdóm, drap svo hinn eftir að sá fyrri dó og gerði svo samanburðarkrufningu.[14]

Flóttatilraunir og afleiðingar breyta

Ef flóttamaður náðist var hann oftast látinn svelta til bana. Ef honum tókst að flýja var fjölskylda hans tekin í staðin. Ef hún náðist ekki heldur voru tíu handahófskenndir fangar teknir og látnir svelta til bana.[15]

Eftir stríðið breyta

Í dag er Auschwitz safn til minningar um þá hræðilegu atburði sem hafa gerst þar. Lappað var upp á staðinn og gasklefinn í Auschwitz I gerður aftur að gasklefa eftir að SS gerði hann að varnarskýli. Flestar byggingar Auschwitz II voru brenndar þegar Rússar komu nálægt og grjótið rutt í burtu þegar Pólverjar komu aftur.

Tilvísanir breyta

 1. Jóna Símonía Bjarnadóttir (2007).
 2. Rees (2008): 7-9.
 3. Pétur Ólafsson (2005): 18.
 4. Pétur Ólafsson (2005): 18-19.
 5. Rees (2008): 19.
 6. Rees (2008): 34-36.
 7. Pétur Ólafsson (2005): 19.
 8. Rees (2008): 39-40.
 9. Rees (2008): 60-61.
 10. Rees (2008): 67-70.
 11. Rees (2008): 100-101.
 12. Rees (2008): 167-180.
 13. Rees (2008): 178-179.
 14. Rees (2008): 180-182.
 15. Rees (2008): 141.

Heimildir breyta

 • Jóna Símonía Bjarnadóttir. „Hvað getið þið sagt mér um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz?“. Vísindavefurinn 17.12.2007. http://visindavefur.is/?id=6965. (Skoðað 4.5.2009).
 • Pétur Ólafsson, „Frelsi viljans í þriðja ríkinu: hvers vegna venjulegir þjóðverjar drápu gyðinga í seinni heimsstyrjöld“, Sagnir 25 (2005): 18-22.
 • Rees, L., Auschwitz-mesti glæpur sögunnar. Jón Þ. Þór (þýð.) (Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar, 2008).

Tenglar breyta

 • „Hvað getið þið sagt mér um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz?“. Vísindavefurinn.