Vatnsfellsvirkjun

(Endurbeint frá Vatnsfellsstöð)

64°11′46″N 19°01′57″V / 64.196203°N 19.032636°V / 64.196203; -19.032636

Vatnsfellsvirkjun

Vatnsfellsvirkjun er 90 MW vatnsaflsvirkjun í Þjórsá. Framleiðslugeta stöðvarinnar er um 430 GWst á ári. Framkvæmdir hófust 1999 og var lokið 2001.[1]

Fyrirkomulag

breyta

Vatnsfellsvirkjun nýtir 65 m fallhæð á milli Þórislóns og Krókslóns sem er uppistöðulón Sigöldustöðvar. Virkjunin var byggð til að nýta vatnsmiðlunina á milli Þórisvatns og Krókslóns og var fyrirhugað að framleiða raforku í henni á veturna þegar mesta orkuþörfin er. Nú er hún hins vegar í gangi nánast allan ársins hring.

Ofan við stífluna er lítið inntakslón, um 0,6 km² að stærð, í hæstu vatnsstöðu og með miðlanlegt rými upp á 3,2 Gl. Við suðurenda aðalstíflunnar er 700 m langur aðrennslisskurður að steyptu inntaksvirki. Frá inntaki er vatninu veitt í tveimur 126 m löngum þrýstipípum úr stáli að stöðvarhúsi. Í stöðvarhúsinu eru tvær aflvélar af Francis gerð hvor um sig 45 MW. Stöðvarhúsið er ofanjarðar en grafið niður og inn í brekkurótina.

Frá stöðvarhúsinu liggja háspennustrengir um stokk neðanjarðar að rofa- og tengivirkishúsi norðan við stöðina. Frá húsinu er 220 KV flutningslína að tengivirkinu við Sigöldustöð.

Frá stöðvarhúsi að Krókslóni var grafinn 2,4 km langur frárennslisskurður. Aðkomuvegur að stöðvarhúsi var lagður suðaustan við hann.

Vatnsfellsveita

breyta

Í tengslum við Vatnsfellsvirkjun voru reistar þrjár stíflur. Ein aðalstífla nær yfir núverandi veitufarveg en að auki voru reistar tvær minni hliðarstíflur. Aðalstíflan er hæst 30 m og um 750 m löng. Krónuhæð hennar er í 565,5 m y.s. Hliðarstíflurnar eru suðaustan við aðalstífluna. Sú hærri er 10 m há og 300 m löng en sú minni um 4 m há og 80 m löng. Stíflurnar eru grjótstíflur en aðalstíflan er með steyptri klæðningu vatnsmegin.

Listaverk við stöðina

breyta

Við Vatnsfellsstöð eru tvö listaverk sem voru vígð árið 2005.

Tíðni

breyta

Listaverkið Tíðni er eftir Finnboga Pétursson. Það myndar hljóð á tíðninni 50 rið, en það er sama tíðni og rafmagnsins í orkukerfinu. Segja má að listaverkið sé manngeng hljóðpípa. Í norðanáttum, sem eru ríkjandi á svæðinu, blæs loft í gegnum hljóðpípuna. Við gegnumstreymi loftsins myndast tónninn sem er afar djúpur og á mörkum þess sem mannseyrað skynjar.

Móðir jörð

breyta

Listaverkið Móðir jörð er eftir Gjörningaklúbbinn. Hann skipa þær Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Móðir jörð er gróðurreitur sem hefur verið útbúinn við Vatnsfellsstöð. Í október 2003 voru gróðutorfur úr Þóristungum, sem eru á svæði Sporðöldulóns, fluttar á gróðursnauðan tanga við Vatnsfellsstöð í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Virkjunin sér gróðurreitnum fyrir skjóli auk rafmagns sem lýsir upp útlínur hans þegar skyggja fer.

Tengill

breyta
  1. „Bæklingur um stöðvar á Tungnaársvæði“ (pdf).