Atlantshafslax (Salmo salar) er af laxfiskaætt og með reglubundnar göngur í og úr ferskvatni (anadromous).

Atlantshafslax

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Laxfiskar (Salmoniformes)
Ætt: Laxfiskaætt (Salmonidae)
Ættkvísl: Lax (Salmo)
Tegund:
Atlantshafslax (Salmo salar)

Tvínefni
Salmo salar
Linnaeus, 1758

Heimkynni breyta

Atlantshafslaxinn lifir í Norður-Atlantshafi allt frá Barentshafi í austri að Davíðssundi í vestri og hrygnir í ám sem renna í Norður Atlantshaf. Lax er uppsjávarfiskur og er silfraður og ljós á kvið þegar hann er í sjó.[1]

Útlit breyta

Laxinn getur orðið allt að 150 cm langur og 50 kg að þyngd en algengast er að hann sé á bilinu 50 – 100 cm og 2 – 12 kg. Hængarnir eru stærri en hrygnur og með öflugan krók á hrygningartíma. Laxinn er straumlínulaga, haus lítill og augu einnig en kjafturinn er í meðallagi. Tennur eru hvassar og sterklegar. Bakuggi er á milli trýnis og sporðs. Veiðiuggi yfir raufarugganum. Sporðblaðkan er stór og sterk. Hreistur er í meðallagi og rákin bein. Liturinn er breytilegur eftir æviskeiðum og umhverfi. Í sjó er hann silfurgljáandi og blágrænn á baki. Í ferskvatni verður hann græn- eða brúnleitur og appelsínugulur á kviði. Laxaseiðin í ánni eru dökkblá eða brún með þverrákum á hliðunum með appelsínugulum blettum á milli þverrákana en fara í silfraðan göngubúning þegar kemur að sjógöngu.[1]

Lífsferill breyta

Lífsferill laxsins hefst í ám en þar fer hryggning fram. Hryggning á sér stað á bilinu október til nóvember. Seiðin klekjast að vori og dvelja í ánni næstu ár. Laxinn er 2 til 5 ára þegar hann gengur fyrst til sjávar. Síðan bætast við eitt til þrjú ár í sjó. Þegar laxinn hér á landi gengur til sjávar er hann aðeins um 20 til 25 gr en þegar hann gengur til baka hefur hann náð 4 til 6 kg. eftir 1-2 ár í sjó en dæmi eru um að hann nái allt að 10 kg.[2] Hinsvegar getur hann náð mun meiri stærð í öðrum löndum þar sem sjávaraldur er oft lengri. Gönguseiði halda til hafs í maí til júlí og er vaxtaaukningin mikil á fyrsta ári í sjó. Þá getur fiskurinn hundraðfaldað þyngd sína. Þegar hryggningart íminn nálgast leitar hann aftur til árinnar, þar sem hann er klakinn út.[1]

Fæða breyta

Fæðustöðvar laxsins eru um allt norður Atlantshaf en er þó mest norðarlega þar sem ætið er mikið. Í sjónum lifir laxinn á smáfiskum, rækjum, rauðátu og ýmsum krabbadýrum. Á fyrstu æviskeiðunum í ferskvatni lifir hann kviðpokanæringunni en þegar hún er upp urinn fara þeir í fæðuleit og lifa þá meðal annars á lirfum, púpum vorfluga, mýflugum og smákrabbadýrum.[1]

Veiðar breyta

Á Íslandi er veiði á laxi eingöngu heimiluð í ám. Óheimilt er að veiða lax í sjó en komi hann í veiðarfæri skal sleppa honum strax aftur.[3] Ísland er eina landið í Norður-Atlantshafi sem hefur bannað þessar veiðar algjörlega síðan 1930. Vegna banns við laxveiðum í sjó eru íslenskir laxastofnar í ásættanlegu ástandi[heimild vantar] og veiðar á stöng mikilvægt sport. Slepping á laxi við stangaveiði hefur verið minni en hjá öðrum þjóðum en fer þó vaxandi. Laxveiðiárnar á Íslandi eru í einkaeigu og veiðileyfi seld dýru verði.[2] Eins og fram kemur á mynd 1 hefur heildarveiði Atlantshafslaxins minnkað verulega undanfarin 50 ár. Þó veiðarnar endurspegli ekki algjörlega ástand laxastofnsins þar sem veiðum hefur víða verið hætt og miklu sleppt af laxi í sportveiði er ljóst að stofninum hefur hrakað verulega í flestum löndum á þessu tímabili.[4]

Laxeldi breyta

Atlantshafslaxinn er mjög mikilvægur í fiskeldi við norðanvert Atlantshaf og er framleiðsla í heiminum allt að 2 milljónum tonna (mynd 2) http://www.fao.org/fishery/species/2929/en. Á Íslandi hefur ítrekað komið upp áhugi til að stunda laxeldi í sjókvíum en framleiðsla verið sveiflukennd þar sem aðstæður eru víða erfiðar. Eigendur laxveiðiánna hafa litið á fiskeldi sem umhverfisógn þar sem lax úr kvíum gæti gengið í veiðiár og blandast náttúrulegum laxi. Árið 2004 var stigið það mikilvæga skref að banna laxeldi í sjókvíum í nágrenni við laxveiðiár og er slikt eldi eingöngu heimilað á Austfjörðum og Vestfjörðum þar sem lítið er um slíkar ár.[5]

Verndun breyta

Árið 1984 voru stofnuð alþjóðleg samtök um verndun Atlantshafslaxins er kallast The North Atlantic Salmon Conservation (NASCO). Að samtökunum stóðu Kanada, Evrópusambandið, Danmörk, Ísland, Noregur, Rússland og Bandaríkin. Samtökin vinna að því að endurheimta búsvæði og stuðla að verndun laxins meðal annars varðandi áhrif laxeldis.[6] Einnig hafa verið stofnuð einkarekin samtök um verndun Atlantshafslaxins sem kallast NASF, North Atlantic Salmon Fund. Þeir vinna að sömu gildum og NASCO en byggja sinn rekstur á frjálsum framlögum og leggja áherslu á að endurheimta laxastofninn, sem hefur farið minnkandi.[7]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Gunnar Jónsson (1992). Íslenskir fiskar. Fjölvaútgáfan. bls. 179-185.
  2. 2,0 2,1 Árni Ísaksson. „Freshwater Fisheries in Iceland“ (PDF). Sótt 5. nóvember 2014.
  3. Alþingi. Lög um lax- og silungsveiði. 2006 nr. 61 14. júní, 14. gr. http://www.althingi.is/lagas/nuna/2006061.html
  4. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 15. ágúst 2014. Sótt 5. nóvember 2014.
  5. Árni Ísaksson (2008). Stjórn veiðimála í 75 ár. Landssamband veiðifélaga. bls. 69-91.
  6. „About NASCO“. Sótt 5. nóvember 2014.
  7. „About NASF“. Sótt 5. nóvember 2014.

Heimildir breyta

 
Wikilífverur eru með efni sem tengist

„Hvað er vitað um laxa?“. Vísindavefurinn.