Xenofon

Forngrískur heimspekingur, sagnfræðingur og hermaður (430–355 f.Kr.)
(Endurbeint frá Xenofón)

Xenofon (grísku: Ξενοφῶν, um 430 f.Kr. – 355 f.Kr.) var aþenskur hermaður, málaliði, sagnaritari og nemandi Sókratesar og er þekktur fyrir rit sín um sögu Grikklands á 4. öld f.Kr., samtöl Sókratesar og lifnaðarhætti í Grikklandi til forna.

Xenofon
Um yngri grískan rithöfund með sama nafni, sjá Xenofon frá Efesos.

Æviágrip

breyta

Á yngri árum tók Xenofon þátt í herferð Kýrosar yngri gegn eldri bróður sínum, Artaxerxesi II. Persakonungi árið 401 f.Kr. Kýros notaði marga gríska málaliða sem voru atvinnulausir eftir að Pelópsskagastríðinu lauk. Kýros mætti Artaxerxesi í orrustunni við Kúnaxa. Grikkirnir báru sigur úr býtum en Kýros lét lífið. Stuttu síðar var herforingi þeirra, Klearkos frá Spörtu, boðinn til friðarviðræðna, en var þar svikinn og ráðinn af dögum. Málaliðarnir - hinir tíu þúsund Grikkir - voru á óvinveittu svæði fjarri heimilum sínum, nærri hjarta Mesópótamíu, fjarri hafinu og án leiðtoga. Þeir kusu sér nýja leiðtoga, þar á meðal Xenofon sjálfan, og brutu sér leið norður gegnum land óvinanna, Persa, Armena og Kúrda, til Trapezos við strönd Svartahafs og sigldu aftur vestur til Grikklands. Í Þrakíu aðstoðuðu þeir Sevþes II. við að gera sjálfan sig að konungi. Rit Xenofons um leiðangurinn og heimferð Grikkjanna hlaut titilinn Anabasis eða Austurför Kýrosar á íslensku.

Austurför Kýrosar inniheldur eina elstu greinargerð fyrir, og greiningu á, skapgerð leiðtoga og dæmi um greiningu á leiðtoga sem nefnd hefur verið „merkismannakenningin“. Í greinargerð sinni lýsir Xenofon persónu Kýrosar yngra og segir meðal annars: „Af öllum Persunum sem voru uppi eftir Kýros mikla var hann líkastur konungi og verðskuldaði mest allra konungsveldi.“ Mælt er með lestri sjötta kafla vegna þess að í honum er lýsing á persónuleika fimm sigraðra herforingja sem snerust til liðs við óvininn. Vitnað er í Klearkos sem trúði því að „hermaður ætti að vera hræddari við eigin herforingja heldur en óvininn.“ Menoni er lýst sem manni sem hafði þann metnað helstan að verða ríkur. Agíasar frá Arkadíu og Sókratesar frá Akkeu er minnst fyrir hugrekki þeirra og tillitssemi við vini sína.

Xenofon var seinna gerður útlægur frá Aþenu, sennilega vegna þess að hann barðist undir stjórn Agesilásar, konungs Spörtu, gegn Aþenu við Koroneiu. (Það er þó mögulegt að hann hafi þegar verið orðinn útlægur fyrir tengsl sín við Kýros.) Spartverjar gáfu honum landeign við Skillos, nærri Ólympíu í Elís, þar sem Austurför Kýrosar var samin. Sonur hans barðist fyrir Aþenu við Mantineu meðan Xenofon var enn á lífi. Útlegðardóminum kann því að hafa verið létt af Xenofoni. Xenofon lést í Kórintu, eða ef til vill í Aþenu, en óvíst er um dánardægur hans, utan það að vitað er að hann lifði verndara sinn Agesilás en um hann samdi hann lofræðu.

Díogenes Laertíos segir að Xenofon hafi stundum verið þekktur sem „attíska músan“ vegna þess hve sætur stíll hans var.

Ritverk

breyta

Byrjendur í grískunámi eru oft látnir lesa ritverk Xenofons, einkum Austurför Kýrosar, og Grikklandssaga hans er ein helsta heimildin um atburði í sögu Grikklands á árunum 411 til 362 f.Kr. Rit hans um Sókrates, sem eru öll varðveitt, eru einu ritin sem tilheyra bókmenntahefð Sókratesar, að ritum Platons undanskildum.

Sagnfræðileg verk og ævisögur:

Verk um Sókrates

Styttri ritgerðir

Að auki hefur varðveist stutt ritgerð, Stjórnskipan Aþenu, sem eitt sinn var talin vera eftir Xenofon, en tilheyrir sennilega ekki verkum hans og er eldri en þau. Ritgerðin er einungis í handritum með styttri verkum Xenofons, líkt og hann hefði einnig ritað hana. Höfundinum virðist vera í nöp við lýðræðið í Aþenu og lægri stéttir, en færir rök fyrir því að stofnanir Períklesar séu vel starfi sínu vaxnar þótt tilgangurinn sé ómerkilegur.

Tilvitnun

breyta
  • „Hlýðni af eigin vilja er ávallt betri en þvinguð hlýðni.“

Heimildir og ítarefni

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Xenophon“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. nóvember 2005.
  • Guðmundur J. Guðmundsson, „Grísk sagnaritun frá Hekateosi til Pólýbíosar“ hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni og Ástráði Eysteinssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  • Hornblower, Simon (ritstj.), Greek Historiography (Oxford: Clarendon Press, 1994).
  • Luce, T.J., The Greek Historians (London: Routledge, 1997).
  • Marincola, John (ritstj.), A Companion to Greek and Roman Historiography (Oxford: Blackwell, 2007).
  • Waterfield, Robin, Xenophon's Retreat: Greece, Persia, and the End of the Golden Age (Cambridge, MA: Harvard University Press, 2006).
  • Xenophon, The Persian Expedition. Rex Warner (þýð.), George Cawkwell (inng. og skýringar). (New York: Penguin Books, 1949).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Textar á netinu hjá Project Gutenberg

breyta