Forngrísk sagnaritun
Forngrísk sagnaritun varð til í Jóníu seint á 6. öld f.Kr. Tilurð hennar hafði mikil áhrif á þróun grískra bókmennta í óbundnu máli. Ásamt forngrískri læknisfræði og heimspeki hafði hún einnig mikil áhrif á heimsmynd Forngrikkja. Á 5. öld f.Kr. tíðkaðist að sagnaritarar nefndu rit sín historiai eða rannsóknir, seinna öðlaðist orðið þrengri merkingu.
Áhrifamestur fyrstu sagnaritaranna var Hekatajos frá Míletos (um 550-476 f.Kr.). Verk hans og annarra sagnaritara 6. aldar f.Kr. eru ekki varðveitt nema í brotum.
Heródótos (490-425 f.Kr.) er talinn vera fyrsti gríski sagnfræðingurinn en hann hefur verið nefndur „faðir sagnfræðinnar“. Rit hans um sögu Persastríðanna er elsta bókmenntaverk vestrænnar menningar í óbundnu máli. Í riti sínu fjallaði Heródótos um hvaðeina sem hann taldi skipta máli um skilning á sjálfri sögunni, þar á meðal landafræði, mannfræði, trúarbragðafræði og ýmislegt fleira.
Þúkýdídes var mestur grískra sagnfræðinga, ekki síst vegna gagnrýnins mats hans á heimildum sínum. Rit hans um sögu Pelópsskagastríðsins hafði gríðarleg áhrif á þróun sagnfræðinnar. Auk þess að greina frá því sem gerðist reyndi Þúkýdídes að greina frá undirliggjandi orsökum atburðarásarinnar. Umfjöllunarefni Þúkýdídesar voru nokkuð þrengri en Heródótosar. Hann fjallaði ekki um landafræði og trúarbrögð eins og Heródótos, heldur einblíndi hann þess í stað á stjórnmálasögu. Þúkýdídes er almennt talinn meðal bestu höfunda Forngrikkja í óbundnu máli ásamt Platoni og Demosþenesi.
Rit Xenófons Grikklandssaga (Hellenika) segir frá framvindu Pelópssakastríðsins frá árinu 411 f.Kr., þar sem sögu Þúkýdídesar lýkur, til endaloka stríðsins árið 404 f.Kr. og allt til ársins 362 f.Kr. Xenófon þykir síðri sagnfræðingur en Þúkýdídes en hann ritaði þó af mikilli þekkingu um hermennsku og herstjórnun. Í ritinu Austurför Kýrosar (Anabasis) segir hann m.a. frá herleiðangri tíu þúsund grískra málaliða til Persíu. Xenófon samdi ýmis önnur verk sem hafa nokkuð sagnfræðilegt gildi.
Á 4. öld f.Kr. varð sagnaritun í æ meira mæli álitin til þess fallin að koma áleiðis siðaboðskap. Þessi stefna í sagnaritun hafði þónokkur áhrif á rómverska sagnaritara, m.a. Lívíus. Á helleníska tímanum og í síðfornöld þróaðist grísk sagnaritun meira í áttina að sögu mikilmenna, sem voru talin skapa söguna. Slíka ævisöguritun er meðal annars að finna hjá Plútarkosi
Meðal annarra forngrískra sagnaritara má nefna Eforos, Híerónýmos frá Kardíu, Pólýbíos.
Frekari fróðleikur
breyta- Connor, W. Robert, Thucydides (Princeton: Princeton University Press, 1984).
- Finley, John H., Thucydides (Ann Arbor: The University of Michigan Press, 1963).
- Guðmundur J. Guðmundsson, „Grísk sagnaritun frá Hekateosi til Pólýbíosar“ hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni og Ástráði Eysteinssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
- Hornblower, Simon (ritstj.), Greek Historiography (Oxford: Clarendon Press, 1994).
- Hornblower, Simon, Thucydides 2, útg. (London: Duckworth, 1994).
- Kagan, Donald, Thucydides: The Reinvention of History (New York: Viking, 2009).
- Lamberton, Robert, Plutarch (New Haven: Yale University Press, 2001).
- Luce, T.J., The Greek Historians (London: Routledge, 1997).
- Marincola, John (ritstj.), A Companion to Greek and Roman Historiography (Oxford: Blackwell, 2007).
- Pitcher, Luke, Writing Ancient History: An Introduction to Classical Historiography (London: I.B. Tauris, 2009).
- Romm, James, Herodotus (New Haven: Yale University Press, 1998).
- Zagorin, Perez, Thucydides: An Introduction for the Common Reader (Princeton: Princeton University Press, 2005).