Rósa Guðmundsdóttir
Rósa Guðmundsdóttir, Vatnsenda-Rósa eða Skáld-Rósa (23. desember 1795 – 28. september 1855) var íslensk skáldkona og ljósmóðir á 19. öld. Ýmsar lausavísur hennar urðu fljótt þjóðkunnar og eru enn alþekktar. Rósa er þó ekki síður þekkt fyrir ástamál sín og viðburðaríkt líf sitt.
Rósa Guðmundsdóttir | |
---|---|
Fædd | 23. desember 1795 Ásgerðarstaðir í Hörgárdal |
Dáin | 28. september 1855 Efri Núpur Vestur-Húnavatnssýsla |
Störf | Ljósmóðir |
Þekkt fyrir | Ljóð og vísur |
Titill | Vatnsenda-Rósa, Skáld-Rósa |
Trú | Mótmælandi |
Maki | Fyrri: Ólafur Ásmundarson Seinni: Gísli Gíslason |
Börn | Rósant Berthold Ólafsson (Natanson), Þóranna Rósa Ólafsdóttir (Natansdóttir), Súsana Natansdóttir |
Foreldrar | Guðmundur Rögnvaldsson |
Uppruni
breytaRósa fæddist á Ásgerðarstöðum í Hörgárdal, dóttir Guðmundar Rögnvaldssonar bónda þar, og fluttist sjö ára gömul með fjölskyldu sinni að Fornhaga í sömu sveit. Henni er lýst þannig á unglingsárum að hún hafi verið mjög lagleg, vel gefin, skáldmælt, glaðlynd og hvers manns hugljúfi. Góður bókakostur var til á heimili Rósu og hún virðist hafa fengið gott uppeldi. Móðir hennar dó þegar hún var tólf ára og er sagt að ekki löngu síðar hafi Rósa farið sem vinnukona á amtmannssetrið á Möðruvöllum.
Ástir Rósu og Páls Melsteð
breytaPáll Melsteð, síðar amtmaður, var þá skrifari Stefáns Þórarinssonar amtmanns, rétt rúmlega tvítugur að aldri. Miklar sögur hafa gengið um ástarsamband hans og Rósu en heimildum ber illa saman. Hafi það átt sér stað á Möðruvöllum hefur Rósa verið mjög ung, 15-17 ára, því Páll fór til Kaupmannahafnar til náms 1813. Hann hafði átt barn með Önnu Sigríði, dóttur amtmannsins, í nóvember árið áður og var gifting þeirra fyrirhuguð.
Páll kom heim aftur sumarið 1815, varð sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bjó á Ketilsstöðum á Völlum. Hann kvæntist Önnu Sigríði 2. nóvember sama ár en sagt er að hann hafi ekki flutt hana austur fyrr en sumarið eftir, hugsanlega vegna þess að hún átti þá aftur von á barni, en á meðan hafi Rósa verið ráðskona hjá honum. Þjóðsagan segir að hún hafi ekkert vitað fyrr en hún færði Páli kaffi í rúmið einn morguninn og sá þá Önnu Sigríði við hlið hans.
Hvað sem til er í þessu giftist Rósa skömmu síðar manni sem var í vist á Ketilsstöðum, Ólafi Ásmundasyni, og var Páll svaramaður hennar. Ólafur virðist hafa verið andstæða Rósu að flestu leyti og er margt sem bendir til þess að hún hafi óviljug gifst honum þótt óvíst sé hvað fékk hana til þess. Þau voru í vinnumennsku hjá Páli og Önnu Sigríði í eitt ár en fluttu síðan vestur í Húnavatnssýslu. Þar eignuðust þau dótturina Pálínu 1818, sem sögð er hafa heitið eftir Páli Melsteð, og síðan dæturnar Guðrúnu og Sigríði.
Rósa og Natan Ketilsson
breytaRósa og Ólafur bjuggu um skeið á Lækjamóti í Víðidal og þar réðist til þeirra maður að nafni Natan Ketilsson, mikill kvennamaður og hafði á sér misjafnt orð, hafði siglt til að læra lækningar þótt lítið yrði úr og stundaði þær nokkuð. Fljótlega eftir að hann kom á heimilið tókust ástir með honum og Rósu. Hún eignaðist soninn Rósant Berthold, sem var skrifaður Ólafsson en flestir þóttust vita að Natan ætti hann.
Árið 1824 fluttu þau hjónin að Vatnsenda í Vesturhópi, sem Rósa var kennd við þaðan í frá, og fór Natan með þeim. Þar fæddist Þóranna Rósa, sem einnig var skráð Ólafsdóttir, en þegar Rósa eignaðist dótturina Súsönnu 1826 var hún skrifuð Natansdóttir og ekkert reynt að fela faðernið. Í réttarhaldi yfir Rósu 1827 játaði hún hjúskaparbrot en Ólafur sagðist hafa fyrirgefið konu sinni. Þau bjuggu saman að nafninu til í nokkur ár í viðbót en fengu lögskilnað 1837.
Natan hafði flutt að Illugastöðum á Vatnsnesi 1826. Hann fékk kornunga stúlku, Sigríði Guðmundsdóttur fyrir bústýru og skömmu seinna kom Agnes Magnúsdóttir frá Geitaskarði á heimilið. Um það leyti sendi hann Rósu bréf og sleit sambandi þeirra. Hún tók það mjög nærri sér og svaraði honum með ljóðabréfi þar sem hún lýsir ást sinni þrátt fyrir alla sviksemi hans. Skömmu síðar myrtu Agnes og unglingurinn Friðrik Sigurðsson frá Katadal Natan og annan mann og var dauði Natans mikið áfall fyrir Rósu.
Næstu árin var hún á ýmsum stöðum og fékkst aðallega við ljósmóðurstörf en þótt hún væri ómenntuð þótti hún mjög góð ljósmóðir og var eftirsótt víða. Hún var í nokkur ár í slagtogi við mann sem kallaður var Lækjamóts-Jón og var drykkfelldur slarkari. Þau voru meðal annars í vist hjá Ólafi manni Rósu, sem hún var enn löglega gift. Upp úr þessu sambandi slitnaði þó.
Seinna hjónaband Rósu
breytaVorið 1835 hélt Rósa suður til Reykjavíkur að nema ljósmóðurfræði hjá landlækni, líklega í um 6 vikur, gekkst undir próf 29. júní og vann ljósmóðureið sinn 21. júní sumarið eftir, fertug að aldri. Þrátt fyrir baslið og áföllin má ætla að eitthvað hafi verið eftir af fegurð og persónutöfrum hennar því að hun var þá farin að búa í Gottorp með Gísla Gíslasyni, sem var nærri 20 árum yngri en hún, prestssonur frá Vesturhópshólum og dóttursonur Vigfúsar Þórarinssonar amtmanns. Hann var gáfaður efnismaður og hefur vafalaust átt að ganga menntaveginn en kaus fremur sambúð með Rósu. Árið 1838 fluttu þau vestur í Ólafsvík og þar giftust þau í nóvember 1840. Rósa stundaði ljósmóðurstörf áfram en Gísli var í kaupavinnu á sumrin en á sjó á vetrum.
Sigurður Breiðfjörð skáld var nágranni þeirra og er sagt að þeir Gísli hafi drukkið mikið saman. Sambúð hans og Rósu var ekki alltaf góð, einkum vegna drykkju Gísla. Þau fluttu svo suður í Hafnarfjörð og bjuggu þar í þurrabúðinni Óseyri. Voru þá dætur Rósu, Sigríður og Pálína, báðar skildar við eiginmenn sína og komnar til þeirra. Sumarið 1855 réðu þau Rósa og Gísli sig bæði í kaupavinnu í Húnavatnssýslu. Rósa hélt fótgangandi af stað heim á leið um haustið en veiktist á Efra-Núpi í Miðfirði, lést um nóttina og er grafin í kirkjugarðinum þar.
Rósa var umtöluð í lifanda lífi og er það enn. Fjölmargar greinar, sagnfræðirit, skáldsögur og leikrit hafa verið skrifuð um ævi hennar, skáldskap og ástir.
Kveðskapur
breytaEftir Rósu liggja fyrst og fremst lausavísur og hafa margar þeirra orðið alkunnar. Ekkert er þó til í eiginhandarriti Rósu og ekkert birtist eftir hana á prenti á meðan hún lifði. Flestar þekktustu vísur hennar eru samsafn sem gengur jafnan undir nafninu Vísur Vatnsenda-Rósu og eru þær oftast sungnar við íslenskt þjóðlag sem Jón Ásgeirsson útsetti. Vafi leikur þó á um hvort Rósa orti allt sem henni hefur verið eignað og gildir það ekki síst um eina þekktustu vísu hennar, „Þó að kali heitan hver“, sem sögð hefur verið ort til Páls Melsteð en kemur fyrir í ljóðabréfi sem Sigurður Bjarnason í Katadal orti til konu sinnar þegar hún afplánaði refsivist í Spunahúsinu í Kaupmannahöfn. Þau voru foreldrar Friðriks, morðingja Natans Ketilssonar.
Óvéfengt er hins vegar að Rósa orti vísuna „Augað mitt og augað þitt“ (oftast ranglega sungið Augun mín og augun þín) en engin vissa er fyrir því að hún hafi ort hana til Páls.
Vísur Vatnsenda-Rósu
breyta- Augað mitt og augað þitt,
- Ó þá fögru steina.
- Mitt er þitt, og þitt er mitt,
- þú veist hvað ég meina.
- Trega ég þig manna mest
- mædd af táraflóði.
- Ó, að við hefðum aldrei sést,
- elsku vinurinn góði.
- Langt er síðan sá ég hann,
- sannlega fríður var hann.
- Allt sem prýða mátti einn mann
- mest af lýðum bar hann.
- Engan leit ég eins og þann
- álma hreyti bjarta.
- Einn guð veit ég elskaði hann
- af öllum reit míns hjarta.
- Þó að kali heitan hver,
- hylji dali jökull ber,
- steinar tali og allt hvað er,
- aldrei skal ég gleyma þér.
- Augað snart er tárum tært,
- tryggð í partast mola,
- mitt er hjartað sárum sært,
- svik er hart að þola.
- Bestan veit ég blóma þinn,
- blíðu innst í reitum.
- Far vel, Eyjafjörður minn,
- fegri öllum sveitum.