Ketilsstaðir (Völlum)

(Endurbeint frá Ketilsstaðir á Völlum)

Ketilsstaðir er bær á Völlum á Fljótsdalshéraði, gamalt stórbýli og löngum talin ein mesta og besta bújörð á Héraði. Þar sátu ýmsir höfðingjar fyrr á öldum, þar á meðal margir sýslumenn Norðmýlinga.

Ketilsstaðir eru landnámsjörð og bjó þar landnámsmaðurinn Ásröður, sem fékk með Ásvöru Herjólfsdóttur konu sinni allt land austan Lagarfljóts, milli Gilsár og Eyvindarár. Margir nafnkunnir menn voru á meðal afkomenda þeirra og hafa einhverjir þeirra vafalaust búið á Ketilsstöðum en bærinn kemur þó ekki við Íslendingasögur og er ekki getið fyrr en á dögum Páls Þorvarðarsonar sýslumanns á Eiðum (d. 1403) en hann átti Ketilsstaði. Þegar Ingibjörg dóttir hans giftist Lofti ríka Guttormssyni mun hún hafa fengið Ketilsstaði í heimanmund og var jörðin lengi í eigu afkomenda þeirra.

Marteinn Gamlason, sýslumaður í Norður-Múlasýslu um 1440, mun hafa búið á Ketilsstöðum og síðan Bjarni sonur hans, sem kallaður var Hákarla-Bjarni. Árið 1465 giftist hann Ragnhildi, dóttur Þorvarðar sonar Lofts ríka. Hann eignaðist þó ekki Ketilsstaði með henni, heldur Eiða, og fluttu þau þangað, en Ingibjörg systir Ragnhildar, kona Páls Brandssonar sýslumanns Eyfirðinga, hefur líklega fengið Ketilsstaði í sinn erfðahlut. Erlendur sýslumaður, sonur Bjarna og Ragnhildar, bjó þar hins vegar fram á 16. öld og er sagt að enskir sjómenn hafi farið þar að honum og drepið hann. Bjarni sonur Erlendar bjó á Ketilsstöðum fram um 1570; hann var stórauðugur og þótti mikill fyrir sér.

Bessi Guðmundsson sýslumaður bjó á Ketilsstöðum frá 1712 og bjó þar til dauðadags 1723 og síðan Jórunn ekkja hans áfram í 30 ár. Árið 1747 flutti Pétur Þorsteinsson sýslumaður að Ketilsstöðum og bjó þar stórbúi til dauðadags 1795. Á meðal barna hans var Sigurður Pétursson sýslumaður og leikritaskáld.

Páll Melsteð sýslumaður í Norður-Múlasýslu settist að á Ketilsstöðum 1821 og keypti jörðina. Bústýra hans þar fyrsta árið var Skáld-Rósa Guðmundsdóttir. Páll lét reisa mikið timburhús á Ketilsstöðum og var það fyrsta timburhús sem reist var á sveitabæ á Héraði.

Oft var margbýlt á Ketilsstöðum og þar voru um skeið sex kotbýli í túninu eða rétt utangarðs: Hallberuhús, Hraukur, Kinn, Oddagerði, Steinagerði og Sigurðargerði. Áður höfðu hjáleigurnar Keldhólar og Útnyrðingsstaðir byggst úr landi jarðarinnar og urðu svo sjálfstæðar jarðir. Hálfkirkja var á Ketilsstöðum frá árinu 1500 fram til um 1900.

Heimildir

breyta
  • Ketilsstaðir á Völlum. Sunnudagsblað Tímans, 30. júní 1963“.
  • Öngulsá - Útnyrðingsstaðir. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 64. árgangur 1967“.