Jón Ásgeirsson

íslenskt tónskáld

Jón Gunnar Ásgeirsson Skúlason (f. 11. október 1928 á Ísafirði) er íslenskt tónskáld. Meðal þekktustu verka hans eru óperurnar Þrymskviða, Galdra-Loftur og Möttulssaga. Hann hefur líka samið mörg vinsæl sönglög eins og lagið við ljóð Halldórs Laxness, Maístjarnan.

Jón útsetti og samdi millikafla við lag úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar árið 1960 og setti það við lausavísur sem eignaðar voru Vatnsenda-Rósu og kallaði Vísur Vatnsenda-Rósu. Lagið varð mjög vinsælt og þekkt í þessari útgáfu. Jóni þótti á höfundarétti sínum brotið þegar lagið var kallað „íslenskt þjóðlag“ og útsetning eignuð öðrum í síðari útgáfum, meðal annars þar sem lagið var notað í kvikmyndinni Tár úr steini árið 1996. Úrskurðarnefnd á vegum STEFs úrskurðaði að Jón ætti stærstan hluta lagsins þótt það byggði á þjóðlagi. Jóni þótti STEF síðan sýna sér lítinn stuðning í málarekstri út af notkun lagsins og sagði sig því úr félaginu.

Jón fékk riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2001 fyrir „störf í þágu lista og menningar.“