Agnes Magnúsdóttir
Agnes Magnúsdóttir (fædd 27. október 1795, dáin 12. janúar 1830) varð síðasta konan til að vera tekin af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða ásamt Friðriki Sigurðssyni fyrir morð á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Þau voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830.
Agnesi Magnúsdóttur hefur verið lýst sem gáfaðri, skáldmæltri og hæfileikaríkri konu. Um útlit hennar er deilt en ein heimild segir hana „ekki sjálega“, en önnur lýsir henni sem gjörvulegri og skemmtilegri í viðmóti. Agnes var á þrítugsaldri og vann sem vinnukona á Geitaskarði þegar hún kynntist Natani Ketilssyni. Þau löðuðust um leið hvort að öðru og var Agnes vistráðin á Illugastaði um næstu fardaga.[1] Agnes gerði sér eflaust vonir um að verða bústýra og eiginkona Natans, en þegar þangað var komið reyndist svo ekki vera, Natan hafði valið Sigríði Guðmundsdóttur sem bústýru, en hún var aðeins 16 ára.[2] Friðrik Sigurðsson var hrifinn af Sigríði, og vonaðist Agnes líklega eftir því að hún myndi velja Friðrik og Natan myndi þá velja sig sjálfa. Það gerðist þó ekki.[1]
Morðið
breytaKvöldið 13. mars árið 1828 kom Friðrik að Illugastöðum og fékk vinnukonurnar tvær, Agnesi og Sigríði til þess að fela sig inni í fjósi þangað til Natan og Pétur Jónsson, sem var næturgestur á bænum, væru sofnaðir. Þegar mennirnir voru sofnaðir, fóru Agnes og Friðrik inn í baðstofuna þar sem mennirnir tveir sváfu og Friðrik drap þá báða með hnífi. Hvort Sigríður hafi tekið þátt í morðinu sjálfu er ekki vitað, en áður en Friðrik og Agnes kveiktu í baðstofunni stal hún því sem þótti verðmætt.[3] Aðfaranótt 14. mars vaknaði heimafólk á bænum Stapakoti á Vatnsnesi við það að Agnes var þar komin með tíðindi. Hún sagði að Illugastaðir stæðu í ljósum logum og að húsbóndinn á bænum, Natan hafi þar brunnið inni ásamt Pétri Jónssyni. En þegar var búið að slökkva eldinn og líkin fundust kom í ljós að ekki hafi verið um slys að ræða.[1]
Í héraðsdómi, Landsyfirrétti í Reykjavík og Hæstarétti í Kaupmannahöfn, voru Agnes, Friðrik og Sigríður dæmd til dauða. Sigríður fékk þó náðun konungs og var dæmd til ævilangrar þrælkunarvinnu, en Agnes og Friðrik yrðu hálshöggvin og höfuðin sett á stangir.[3] Bæði Agnes og Friðrik fengu prestsþjónustu og fylgdu prestarnir þeim til hinsta dags. Þau þóttu bæði fá góða iðran, og sagði sýslumaður þau hafa gengið „að því er virtist ánægð á móti örlögum sínum.“ Aðrar heimildir segja þó að Agnes hafi verið döpur.[1]
Aftakan
breytaAftökupallur úr torfi og grjóti var hlaðinn á Þrístöpum og var útvegað rautt klæði til að breiða yfir pallinn og höggstokkinn á meðan á athöfninni stóð og var smíðað grindverk í kringum pallinn. Timbrið var fengið að láni og skilað svo eftir aftökuna. Öxin var fengin frá Kaupmannahöfn og einnig höggstokkurinn. Á Íslandi hafði ekki farið fram aftaka síðan árið 1790 en einn sakamaður hafði verið fluttur til Noregs og höggvinn þar árið 1805. Aftakan fór fram í Vatnsdal í Húnavatnssýslu þann 12. janúar árið 1830. Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru hálshöggvin opinberlega og höfuðin fest upp á stangir og andlitin látin snúa að alfaraleið, Húnvetningum til viðvörunar. Öllum bændum sýslunnar var skipað að vera viðstaddir aftökuna eða að senda fullgildan karlmann í sinn stað. Um það bil 150 manns voru á Þrístöpum þann 12. janúar 1830. Ekki er vitað um hve lengi höfuð þeirra hafi átt að standa, en um það voru engar reglur. Skömmu eftir aftökuna voru þau horfin, enginn veit hvað varð um þau en þó er til þjóðsaga sem segir að Guðrún Runólfsdóttir, húsfreyja á Þingeyrum hafi nóttina eftir aftökuna sent vinnumann sinn að sækja höfuðin af stöngunum og flytja þau í Þingeyrakirkjugarð og jarða þau þar.[1]
Mikið hefur verið ritað um Agnesi, ævi hennar og kynni við Natan Ketilsson og Vatnsenda-Rósu, bæði skáldsögur, leikrit og kvikmyndir.
Fræg er skáldsaga Hönnu Kent frá 2015, Náðarstund, Agnes Magnúsdóttir, ást hennar, glæpur og aftaka. Þýð. Jón Stefán Kristjánsson. JPV útgáfa, Reykjavík.
Kvikmyndin Burial rites verður gerð eftir bók Kent og leikur Jennifer Lawrence Agnesi.
Tilvísanir
breytaHeimildir
breytaGunnar Karlsson. (2004, 8. desember). Hvenær var seinasta aftakan á Íslandi? Sótt af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4649
Sigrún Huld Þorgrímsdóttir. (2005, 21. maí). Agnes og Friðrik fyrir og eftir dauðann. Sótt af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1018633/
Sagnabrunnur á Illugastöðum. Mbl.is. (1997, 10. ágúst). Sótt af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/347409/