Vesturhópshólar

Vesturhópshólar eða Hólar er bújörð og kirkjustaður í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu og er nyrsti bærinn í sveitinni. Nafnið er komið af sérkennilegum hólaklasa sem liggur niður frá Vatnsnesfjalli og er sennilega skriðuframhlaup úr því. Bærinn stendur sunnan undir hólunum.

Vesturhópshólakirkja.

Kirkja hefur verið í Vesturhópshólum frá fornu fari en núverandi Vesturhópshólakirkja var reist árið 1879 og í henni er meðal annars predikunarstóll sem talinn er smíðaður af listamanninum Guðmundi Guðmundssyni í Bjarnastaðahlíð. Vesturhópshólar voru lengst af prestssetur en prestakallið var sameinað Tjarnarprestakalli 1854. Á meðal presta í Vesturhópshólum var Ólafur Hjaltason, fyrsti lútherski biskupinn á Hólum.

Vesturhópshólar voru taldir ein besta jörð sveitarinnar. Þekktustu búendur þar eftir að prestssetrið var lagt af voru hjónin Þorlákur Þorláksson hreppstjóri og Margrét Jónsdóttir, sem þar bjuggu á síðasta fjórðungi 19. aldar og fram á þá tuttugustu, en á meðal barna þeirra voru Jón Þorláksson forsætisráðherra og Björg Karítas Þorláksdóttir, sem var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi.

HeimildirBreyta

  • „Æskuheimilið. Lesbók Morgunblaðsins, 7. apríl 1935“.