Bảo Đại

Síðasti keisari Víetnams

Bảo Đại (chữ Hán: 保大, bókst. „verndari göfuglyndisins“; 22. október 1913 – 31. júlí 1997) var þrettándi og síðasti keisari Nguyễn-ættarinnar, síðustu valdaættarinnar í Víetnam. Frá 1926 til 1945 var hann keisari Annam og að nafninu til þjóðhöfðingi Tonkin, sem voru þá verndarsvæði innan franska Indókína sem náðu yfir mið- og norðurhluta Víetnams. Bảo Đại tók við krúnunni árið 1932.

Skjaldarmerki Nguyễn Phúc-ætt Keisari Víetnams
Nguyễn Phúc-ætt
Bảo Đại
Bảo Đại
保大帝
Ríkisár 8. janúar 1926 – 25. ágúst 1945 (sem keisari)
13. júní 1949 – 26. október 1955 (sem þjóðhöfðingi án titils)
SkírnarnafnNguyễn Phúc Vĩnh Thụy
Fæddur22. október 1913
 Huế, franska Indókína
Dáinn31. júlí 1997 (83 ára)
 Val-de-Grâce, París, Frakklandi
GröfPassy-kirkjugarði
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Khải Định
Móðir Hoàng Thị Cúc
EiginkonaNam Phương ​(g. 1934⁠–⁠1963)​
Bùi Mộng Điệp
Lê Thị Phi Ánh
Christiane Bloch-Carcenac
Monique Baudot ​(g. 1972⁠–⁠1997)
Börn5 (skilgetin), 7 (óskilgetin)

Japanir steyptu frönsku nýlendustjórninni af stóli í mars árið 1945 og réðu í gegnum Bảo Đại, sem lýsti yfir stofnun víetnamsks keisaradæmis. Hann sagði af sér í ágúst 1945 þegar Japanir gáfust upp fyrir bandamönnum.

Frá 1949 til 1955 var Bảo Đại þjóðarleiðtogi hins andkommúníska „víetnamska ríkis“. Bảo Đại var almennt álitinn leppstjórnandi Frakka og var gagnrýndur fyrir að verja mestum tíma sínum utan Víetnams. Honum var að endingu steypt af stóli eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1955 af Ngô Đình Diệm forsætisráðherra, sem naut stuðnings Bandaríkjamanna.

Æviágrip

breyta

Faðir Bảo Đại var keisari í Annam, sem var eitt þriggja ríkja sem mynduðu ríkið Víetnam. Bảo Đại var þrettán ára gamall þegar faðir hans lést og hann tók við keisaratign í Amman. Hann var þá staddur í námi í Frakklandi og var þar áfram í nokkur ár eftir að hann varð keisari. Ættingjar hans og vinir stjórnuðu þá ríkinu í hans umboði undir umsjá frönsku nýlendustjórnarinnar. Bảo Đại sneri heim til Víetnams árið 1933 en var ekki lengi heima, heldur hélt hann aftur til Frakklands og dvaldi þar í fjögur ár. Bảo Đại var tíður gestur á frönskum skemmtistöðum og varð þekktur fyrir eyðslusemi.[1]

Bảo Đại sneri aftur til Víetnams árið 1937. Talið er að hann hafi ætlað sér að fara fljótt aftur til Frakklands en hann endaði á að vera nokkuð lengur heima í þetta sinn og sinnti stjórnarstörfum í meiri mæli en áður. Seinni heimsstyrjöldin braust út á meðan Bảo Đại var í Víetnam og Japanir hertóku franska Indókína. Bảo Đại neitaði að lýsa yfir hollustu við Japani og var því fangi í höll sinni á meðan á hernámi þeirra stóð. Undir lok stríðsins náði þjóðernishreyfingin undir forystu Hồ Chí Minh völdum í Víetnam og neyddi Bảo Đại til að segja af sér. Bảo Đại hélt því í útlegð til Singapúr og síðan til Frakklands.[1]

Á tíma fyrri Indókínastyrjaldarinnar buðu Frakkar Bảo Đại að snúa aftur til Víetnams og gerast ríkisleiðtogi. Bảo Đại þáði boðið og sneri því heim sem leiðtogi ríkisins í janúar 1950. Frakkar vissu að til þess að afla nýlendustjórninni stuðnings gegn þjóðernishreyfingu Hồ Chí Minh urðu þeir að veita Víetnömum ákveðin fyrirheit um aukið sjálfstæði, en þó ætluðust þeir aðeins til þess að Bảo Đại hefði afar takmörkuð völd.[1] Samkvæmt samningi Frakka við Bảo Đại hafði stjórn hans forráð á innanríkismálum Víetnams en Frakkar önnuðust hermál og utanríkismál og höfðu nokkra íhlutun um fjármál.[2]

Ngô Đình Diệm varð forsætisráðherra í stjórn Bảo Đại árið 1954 og gerði keisarann fljótt svo til valdalausan með aðstoð Johns Fosters Dulles, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Á Genfarráðstefnunni 1954 var fallist á að binda enda á Indókínastyrjöldina og að veita Víetnam sjálfstæði. Áætlað var að landinu yrði tímabundið skipt í tvo hluta en kosningar síðan haldnar sem ættu að leggja grunninn að endursameiningu. Bảo Đại taldi sig skuldbundinn af þessum skilmálum sem löglegur arftaki frönsku stjórnarinnar en Diệm var alfarið á móti þeim. Í október 1956 lét Diệm efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um langvarandi aðskilnað Suður-Víetnams frá Norður-Víetnam og jafnframt um að Suður-Víetnam yrði lýðveldi þar sem Diệm sjálfur yrði forseti. Diệm fékk sínu framgengt í atkvæðagreiðslunni og Bảo Đại varð því að stíga til hliðar sem ríkisleiðtogi.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Keisarinn í Víetnam“. Tíminn. 4. nóvember 1953. bls. 5; 7.
  2. „Nýja stjórnin í Indo-Kína“. Tíminn. 7. janúar 1950. bls. 5–6.
  3. Edgar Snow (1. desember 1964). „Stríð og friður í Víetnam“. Tímarit Máls og menningar. bls. 316–337.