Falklandseyjar

(Endurbeint frá The Falkland Islands)

Falklandseyjar (enska: Falkland Islands; spænska: Islas Malvinas) eru lítill eyjaklasi á Patagóníugrunni í Suður-Atlantshafi, um 480 km til suðausturs frá strönd Argentínu í Suður-Ameríku, og um 1.210 km norðan við Suðurskautslandið á 52. breiddargráðu suður. Eyjaklasinn er um 12.000 km2 að stærð og nær yfir Vestur-Falkland, Austur-Falkland og 776 minni eyjar. Falklandseyjar eru undir stjórn Bretlands og hafa heimastjórn í eigin málum, en breska ríkisstjórnin fer með utanríkis- og varnarmál.

Falklandseyjar
The Falkland Islands
Fáni Falklandseyja Skjaldarmerki Falklandseyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Desire the right (enska)
Þráðu hið rétta)
Þjóðsöngur:
God Save the King
Staðsetning Falklandseyja
Höfuðborg Stanley
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Ríkisstjórn undir landsstjóra

Konungur Karl 3.
Landstjóri Alison Blake
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

12.200 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2016)
 • Þéttleiki byggðar

3.398
0,28/km²
VLF (KMJ) áætl. 2013
 • Samtals 0,2285 millj. dala
 • Á mann 96.962 dalir
VÞL (2010) 0.874 (20. sæti)
Gjaldmiðill Falklandspund (FKP - bundið við Sterlingspund)
Tímabelti UTC-3
Þjóðarlén .fk
Landsnúmer +500

Hvernig fundur og síðan landnám eyjanna fór fram er umdeilt. Þar hafa verið á ýmsum tímum franskar, breskar, spænskar og argentínskar nýlendur. Bretland staðfesti yfirráð sín yfir eyjunum 1833 en Argentína hefur einnig gert tilkall til þeirra. Tilraun Argentínu til að leggja eyjarnar undir sig með innrás árið 1982 hratt af stað Falklandseyjastríðinu milli þjóðanna þar sem Argentína beið ósigur. Nær allir íbúar eyjanna vilja að þær heyri áfram undir breska stjórn. Staða þeirra er efni deilu milli Bretlands og Argentínu.

Íbúar eyjanna voru um 3.400 talsins árið 2016 og eru aðallega innfæddir Falklandseyingar af breskum uppruna. Íbúum fór fækkandi þar til aðflutningur frá Sankti Helenu og Chile sneri þeirri þróun við. Aðaltungumál eyjanna er enska. Íbúar eyjanna eru breskir ríkisborgarar.

Loftslag á eyjunum er á mörkum úthafsloftslags og kaldtempraðs loftslags. Báðar aðaleyjarnar eru með fjallgarða sem ná yfir 700 metra. Þar eru stórir stofnar sjófugla þótt margar tegundir verpi þar ekki lengur vegna ágangs innfluttra dýra eins og refa, rotta og katta. Helstu undirstöður efnahagslífs eyjanna eru fiskveiðar, ferðaþjónusta og sauðfjárrækt með áherslu á hágæðaull. Olíuleit með leyfi stjórnar Falklandseyja er umdeild vegna landhelgisdeilna við Argentínu.

Nafnið „Falklandseyjar“ er dregið af Falklandssundi sem liggur milli stærstu eyjanna tveggja.[1] Enski skipstjórinn John Strong sem kom til eyjanna árið 1690 gaf sundinu þetta nafn til að heiðra Anthony Cary, 5. vísigreifa af Falklandi, fjármálastjóra breska flotans sem fjármagnaði ferð hans.[2] Titill vísigreifans kemur frá skoska bænum Falklandi í Fife, sem líklega dregur nafn sitt af gelísku orði yfir girðingu, (lann). Eyjarnar voru ekki kallaðar Falklandseyjar fyrr en 1765 þegar breski skipstjórinn John Byron gerði tilkall til þeirra fyrir hönd Georgs 3. Bretakonungs.[3]

Á spænsku eru eyjarnar nefndar Islas Malvinas. Það nafn kemur úr frönsku, Îles Malouines. Franski landkönnuðurinn Louis-Antoine de Bougainville gaf eyjunum þetta nafn árið 1764.[4] Bougainville stofnaði fyrstu byggðina á eyjunum og nefndi þær eftir hafnarborginni Saint-Malo þar sem hann hafði lagt af stað í ferð sína.[5]

Á 20. fundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna ályktaði fjórða nefnd Sameinuðu þjóðanna að nafn eyjanna á öllum málum öðrum en spænsku yrði Falkland Islands (Malvinas), en Islas Malvinas (Falkland Islands) á spænsku. [6]

Enginn veit með vissu hver varð fyrstur til að finna Falklandseyjar. Almennt er talið að Hollendingur, Sebald de Weert, hafi fyrstur manna stigið fæti á eyjarnar árið 1598. Argentínumenn vilja raunar eigna einum skipstjóra Magellanleiðangursins 1520, Esteban Gomez, heiðurinn, en Bretar telja hins vegar John Davis hafa stigið þar fyrstan á land árið 1592.

Það var John Strong sem nefndi sundið á milli eyjanna eftir yfirmanni breska flotans, fimmta vísigreifanum af Falkland, árið 1690 og þaðan er enska nafnið komið. Spænska nafnið Las Malvinas er hins vegar komið frá frönskum sjómönnum sem lögðu oft leið sína til eyjanna á 17. öld. Sjómennirnir komu frá bænum St. Malo, sem varð til þess að Frakkar byrjuðu að nefna eyjarnar Malouines, sem Spánverjar aðlöguðu svo í nafnið Malvinas.

Bandarískur skipstjóri, Silas Duncan að nafni, átti eftir að reynast mikill örlagavaldur í sögu eyjanna. Árið 1829 réðu Spánverjar yfir eyjunum. Það ár skipaði stjórnin í Buenos Aires þýskættaðan kaupmann, Vernet, að nafni landstjóra á Falklandseyjum. Strax og Vernet hélt til eyjanna skar hann upp herör gegn ólögmætum veiðum við eyjarnar. Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á Vernet var bandaríski fiskibáturinn Harriet. Svo illa vildi til að bandarískt herskip, USS Lexington, var statt í Buenos Aires. Samkvæmt beiðni ræðismanns Bandaríkjamanna í Buenos Aires hélt skipið til eyjanna til að krefjast þess að Vernet skilaði því sem hann hafði gert upptækt. Duncan gerði raunar miklu meira en það eitt, því hann lagði höfuðstað eyjanna, Puerto Soledad í rúst, handtók íbúana og lýsti því yfir að eyjarnar lytu ekki stjórn neins.

Aðgerðir Duncans voru ekkert annað en sjóræningjaháttur. En meðan málsaðilar körpuðu um bætur vegna málsins, sáu Bretar sér leik á borði. Breska ríkisstjórnin gerði herskip út af örkinni í þeim tilgangi að hertaka eyjarnar, sem þeir gerðu þann 2. janúar 1833 án mikillar mótspyrnu argentínskrar freigátu, sem þar var stödd. Ári síðar var hin gamla nýlenda Breta, Port Egmont, endurbyggð og breski fáninn blakti aftur yfir eyjunum. Þrátt fyrir mótmæli gat hið nýstofnaða ríki Argentínu mjög lítið gert til að hamla gegn yfirgangi breska heimsveldisins.

Árið 1843 færði breski landstjórinn á Falklandseyjum, lautinant Richard Moody, höfuðstaðinn aftur til Puerto Soledad og nefndi hann Stanley. Breskir þegnar fóru nú að flytjast jafnt og þétt til eyjanna og um 1884 bjuggu þar um 1400 manns, allir af breskum uppruna.

Argentínumenn gerðu áfram tilkall til eyjanna og 1982 gerðu þeir tilraun til að hertaka þær sem leiddi til Falklandseyjastríðsins.

Landfræði

breyta
 
Hæðakort af Falklandseyjum.

Falklandseyjar eru um 12.000 km2 að stærð með um 1.300 km strandlengju.[7] Í eyjaklasanum eru tvær stórar eyjar, Vestur-Falkland og Austur-Falkland, og 776 minni eyjar.[8] Eyjarnar eru fjalllendar og hæðóttar.[9] Helsta undantekningin frá því eru slétturnar á Lafonia, skaga sem myndar syðsta hluta Austur-Falklands.[10] Falklandseyjar eru gerðar úr meginlandskjarna frá uppbroti Gondvana þegar Suður-Atlantshaf myndaðist fyrir 130 milljón árum. Eyjarnar eru í Suður-Atlantshafi á Patagóníugrunni, um 480 km austan við Patagóníu í suðurhluta Argentínu.[11]

Falklandseyjar eru staðsettar um það bil milli 51˚41' og 53˚00' suður og 57˚40' og 62˚00' vestur.[12] Falklandseyjasund skilur milli stærstu eyjanna tveggja.[13] Eyjarnar eru vogskornar og þar eru margar náttúrulegar hafnir.[14] Höfuðborgin og stærsta byggðin, Stanley, er á Austur-Falklandi.[12] Á Mount Pleasant er herstöðin RAF Mount Pleasant og hæsti tindur eyjanna, Mount Usborne, 705 metrar á hæð.[13] Utan við þetta þéttbýli eru svæði sem eru kölluð camp (úr spænsku campo „sveit“).[15]

Loftslag á Falklandseyjum er kalt, vindasamt og rakt úthafsloftslag.[11] Veður er mjög breytilegt í eyjaklasanum.[16] Hálft árið er rigning algeng, með 610 mm meðalúrkomu í Stanley og léttri snjókomu nær allt árið.[9] Hitinn hefur venjulega verið milli 21,1˚ og -11,0˚ í Stanley, og meðalmánaðarhiti verið milli 9˚ snemma á árinu og -1˚ í júlí.[16] Sterkir vestanvindar og skýjahula eru algeng.[9] Margir stormar ganga yfir í hverjum mánuði en almennt er veðurfar stillt.[16]

Tilvísanir

breyta
  1. Jones 2009, bls. 73.
  2. Sjá:
  3. Sjá:
  4. Hince 2001, bls. 121.
  5. Sjá
  6. „Standard Country and Area Codes Classifications“. United Nations Statistics Division. 13. febrúar 2013. Sótt 3. júlí 2013.
  7. See:
  8. Sainato 2010, bls. 157.
  9. 9,0 9,1 9,2 Central Intelligence Agency 2011, "Falkland Islands (Malvinas) – Geography".
  10. Trewby 2002, bls. 79.
  11. 11,0 11,1 Klügel 2009, bls. 66.
  12. 12,0 12,1 Guo 2007, bls. 112.
  13. 13,0 13,1 Hemmerle 2005, bls. 318.
  14. Sjá:
  15. Hince 2001, "Camp".
  16. 16,0 16,1 16,2 Gibran 1998, bls. 16.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.