Ágústus

fyrsti rómverski keisarinn frá 27 f.Kr. til 14 e.Kr
(Endurbeint frá Octavianus)

Ágústus einnig nefndur Augustus, Cæsar Ágústus, Caesar Augustus, Octavíanus eða Octavíanus Ágústus (Latína: IMPERATOR CAESAR DIVI FILIVS AVGVSTVS[1]; 23. september 63 f.Kr.19. ágúst 14 e.Kr.), var fyrsti og einn mikilvægasti keisari Rómaveldis, enda þótt hann upphefði ekki stöðu sína og kysi fremur titilinn princeps, sem þekktist frá lýðveldistímanum og er venjulega þýddur „fyrstur borgaranna“. Nafn Ágústusar, sem hét raunverulega Octavíanus og þar áður Octavíus, var upphaflega virðingartitill (myndaður af sögninni augeo, sem þýðir að auka eða upphefja, lofa eða dýrka), sem öldungaráð Rómar veitti honum árið 27 f.Kr. Sú venja er meðal sagnfræðinga að nota nafnið Octavíanus til að vísa til hans fyrir árið 27 f.Kr. en Ágústus eftir árið 27 f.Kr. Verður þeirri reglu fylgt hér.

Ágústus
Rómverskur keisari
Valdatími 27 f.Kr. – 14 e.Kr.

Fæddur:

23. september 63 f.Kr.
Fæðingarstaður Róm

Dáinn:

19. ágúst 14 e.Kr.
Dánarstaður Nola (við Napólí)
Forveri enginn (erfingi Júlíusar Caesars)
Eftirmaður Tíberíus
Maki/makar Claudia Pulchra 42 – 40 f.Kr.
Scribonia 40 – 38 f.Kr.
Livia Drusilla 38 f.Kr. til 14 e.Kr.
Börn Julia eldri
Faðir Gaius Octavius
Móðir Atia Balba Caesonia
Fæðingarnafn Gaius Octavius
Keisaranafn Imperator Caesar Divi Filius Augustus
Ætt Julíska-claudíska ættin

Octavíanus var erfingi Júlíusar Cæsars, sem var ömmubróðir hans. Eftir morðið á Cæsari gekk Octavíanus í bandalag með Marcusi Antoniusi og Marcusi Lepidusi. Þegar slitnaði upp úr bandalaginu kom til átaka milli Marcusar Antoniusar og Octavíanusar, sem hafði betur. Í kjölfarið komst Octavíanus til valda í Róm. Hann viðhélt hefðum rómverska lýðveldisins að forminu til en var í reynd sjálfráður einvaldur í yfir 40 ár. Valdatími hans myndar skiptinguna á milli lýðveldistímans og keisaratímans í Róm en keisaratíminn er venjulega talinn hefjast árið 27 f.Kr. Hann batt enda á borgarastríð sem áður hafði geisað og leiddi Róm inn í nýjan tíma hagsælda og friðar, Pax Romana eða Rómarfriðarins. Hann var kvæntur Liviu Drusillu í 51 ár.

Uppvaxtarár

breyta

Ágústus fæddist í Róm (eða Velletri) 23. september, 63 f.Kr. og hlaut nafnið Gaius Octavíus. Faðir hans, sem hét einnig Gaius Octavíus, var af virtri en tiltölulega lítt þekktri ætt riddarastéttar og var landstjóri Macedoniu. Skömmu eftir að Octavíus fæddist gaf faðir hans honum eftirnafnið Thurinus, hugsanlega til að minnast sigurs síns á Thuriubúum vegna þrælauppreisnar meðal þeirra. Móðir hans, Atia Balba Caesonia, var systurdóttir Júlíusar Cæsars, sem varð brátt sigursælasti herforingi Rómar og kjörinn einvaldur (dictator) ævilangt. Hann varði æskuárum sínum hjá afa sínum nærri Velítræ (í dag Velletri). Árið 58 f.Kr., þegar hann var fjögurra ára gamall, lést faðir hans. Lengst af æskunnar bjó hann hjá stjúpföður sínum, Luciusi Marciusi Philippusi.

Árið 51 f.Kr., þegar hann var ellefu ára, flutti hann útfararræðu ömmu sinnar, Júlíu, eldri systur Júlíusar Cæsars. Hann klæddist toga virilis fimmtán ára gamall og var kjörinn í Collegium Pontificum, sem var ráð æðstu presta ríkisins. Cæsar fór fram á að Octavíus væri með í liði sínu í herför sinni til Afríku en Atia andmælti og sagði hann of ungan. Næsta ár, 46 f.Kr., féllst hún á að leyfa honum að fylgja Cæsari til Spánar en hann varð veikur og gat ekki ferðast. Þegar hann hafði náð sér sigldi hann af stað en lenti í sjávarháska; þegar hann hafði komist á land með nokkrum félaga sinna fór hann yfir landsvæði óvinanna og náði til herbúða Cæsars. Cæsar þótti mikið til þessa koma. Þeir og Octavíus sneru aftur heim saman og Cæsar breytti erfðaskrá sinni í laumi.

Leiðin til valda

breyta

Þegar Júlíus Cæsar var ráðinn af dögum 15. mars 44 f.Kr. var Octavíus við nám í Apolloniu í Illyríu. Þegar erfðaskrá Cæsars var lesin kom í ljós að Cæsar, sem átti engin skilgetin börn, hafði ættleitt frænda sinn sem kjörson sinn og erfingja. Vegna ættleiðingarinnar tók Octavíus við nafninu Gaius Julius Caesar. Samkvæmt rómverskri hefð átti hann einnig að bæta við sem eftirnafni Octavíanus til að gefa til kynna upprunalegu fjölskyldu sína. Hins vegar er enginn vitnisburður um að hann hafi nokkurn tímann notað nafnið Octavíanus. Marcus Antonius hélt því seinna fram að hann hefði greitt fyrir ættleiðingu sína með því að gera Cæsar kynferðislega greiða en Suetonius segir í ævisögu Ágústusar að ásökunin hafi einungis verið rógburður.

Octavíanus, eins og hann er venjulega nefndur á þessu tímabili ævi sinnar, safnaði liði í Apolloniu. Hann hélt yfir til Ítalíu og fékk liði sínu gamalreynda liðsforingja úr herliði Cæsars og fékk stuðning þeirra með því að leggja áherslu á stöðu sína sem erfingi Cæsars. Hann var einungis átján ára gamall og var af þeim sökum hvað eftir annað vanmetinn af keppinautum sínum um völdin.

Í Róm var Marcus Antonius við stjórn. Hann myndaði bandalag með Marcusi Antoniusi og Marcusi Aemiliusi Lepidusi, sem höfðu verið helstu samherjar Cæsars. Bandalag þeirra er kallað síðara þremenningasambandið og fól í sér skiptingu valda til fimm ára og var stutt lögum, ólíkt hinu óformlega fyrra þremenningasambandi Pompeiusar, Cæsars og Marcusar Liciniusar Crassusar[2].

Þremenningarnir hrintu af stað áformum um að svipta um þrjú þúsund öldungaráðsmenn og tvö hundruð manns af riddarastétt eigum sínum og jafnvel lífinu, einkum þá, sem voru viðriðnir morðið á Cæsari. Að öllum líkindum réð fjárskortur miklu um ákvörðunina en þeir þörfnuðust fjár til að borga hermönnum sínum.[3].

Marcus Antonius og Octavíanus héldu svo í herleiðangur gegn Brútusi og Cassiusi, sem höfðu lagt á ráðin um morðið á Cæsari. Þeir höfðu safnað liði og flúið til austurs. Við Filippí í Macedoniu sigraði her Marcusar Antoniusar og Octavíanusar her Brútusar og Cassiusar, sem frömdu í kjölfarið sjálfsmorð (42 f.Kr.). Að orrustunni lokinni var á ný lagt á ráðin um fyrirkomulag þremenningasambandsins: Octavíanus sneri aftur til Rómar en Marcus Antoníus hélt til Egyptalands, þar sem hann gerðist bandamaður Kleópötru, fyrrum elskhuga Julíusar Cæsars og móður barnungs laungetins sonar Cæsars, Cæsarions. Lepidus var nú greinilega orðinn valdaminni en Octavíanus og Antoníus og sætti sig við umráð yfir skattlandinu Afríku.

Marcus Antoníus átti í ástarsambandi við Kleópötru meðan hann var í Egyptalandi og áttu þau saman þrjú börn, Alexander Helios, Kleópötru Selene og Ptolemajos Fíladelfos. Árið 40 f.Kr. yfirgaf Antoníus Kleópötru og kvæntist Octavíu yngri, systur Octavíanusar, til þess að strykja bandalagið við hann. Octavía ól honum tvær dætur, sem hétu báðar Antonía. Árið 37 f.Kr. yfirgaf Antoníus Octavíu og hélt enn á ný aftur til Egyptalands til þess að vera með Kleópötru. Rómaveldi var þá í reynd skipt á milli Octavíanusar í vestri og Antoníusar í austri.

Antoníus herjaði í austur. Octavíanus aflaði sér bandamanna í Róm, treysti völd sín og bar út róg um að hollusta Antóníusar væri nú með Egyptum og að hann hefði tekið upp siði þeirra og venjur. Spennan varð sífellt meiri og að lokum, árið 32 f.Kr., lýsti öldungaráðið opinberlega yfir stríði á hendur „erlendu drottningunni“, til að forðast yfirbragð enn eins borgarastríðsins. Stríðið varði ekki lengi: í Actiumflóa við vesturströnd Grikklands mættust flotarnir í mikilli orrustu, þar sem mörg skip brunnu og fórust og þúsundir manna fórust í báðum liðum. Octavíanus bar sigur úr býtum en Antóníus og Kleópatra flúðu til Egyptalands. Octavíanus elti þau og eftir annan ósigur framdi Antoníus sjálfsmorð. Kleópatra framdi einnig sjálfsmorð þegar útskýrt hafði verið fyrir henni hvernig hún yrði höfð til sýnis í sigurgöngu Octavíanusar í Róm og Cæsarion yrði „slátrað miskunnarlaust“. Ágústus á að hafa sagt að „tveir Cæsarar væru einum of margir“ þegar hann fyrirskipaði líflát Cæsarions.[4].

Octavíanus verður Ágústus: „principatið“

breyta
 
Ágústus

Octavíanus hafði töglin og hagldirnar í vesturhelmingi Rómaveldis fyrir orrustuna við Actium árið 31 f.Kr. en eftir þá orrustu og ósigur Antoníusar og Kleópötru var austurhluti Rómaveldis einnig á hans valdi og hann var því í reynd orðinn einráður yfir öllu ríkinu. Áralöng borgarastríð höfðu alið á stjórnleysi en lýðveldið var engu að síður ekki reiðubúið fyrir að Octavíanus gerðist einvaldur. Octavíanus gat þó ekki hefið upp völd sín án þess að hætta á frekari borgarastríð meðal rómverskra herforingja og jafnvel þótt hann sæktist ekki eftir neinni valdastöðu kröfðust aðstæður þess að hann tæki tillit til velferðar ríkis og byggða. Octavíanus leysti upp sínar eigin hersveitir og boðaði til kosninga þar sem hann var kosinn ræðismaður; sem slíkur var hann nú löglega kosinn yfirmaður rómverskra hersveita, þrátt fyrir að hann hefði leyst upp einkaher sinn.

Fyrra samkomulagið

breyta

Árið 27 f.Kr. afsalaði Octavíanus opinberlega hluta af völdum sínum til öldungaráðsins og bauðst til að afsala sér þeim völdum, sem hann hafði yfir Egyptalandi, sem hafði orðið einkaeign hans í kjölfar sigurs hans á Kleópötru.

Sagan hermir að tillaga Octavíanusar um að segja af sér ræðismannsembætti hafi leitt til óeirða meðal lægri stétta, plebeia, í Róm. Öldungaráðið og fylgismenn Octavíanusar komust að samkomulagi, sem kallast fyrra samkomulagið. Octavíanus fékk völd landstjóra í vesturhluta Rómaveldis og í Sýrlandi — þeim landsvæðum, þar sem næstum 70% rómverskra hersveita voru.

Ödungaráðið veitti honum einnig titlana Augustus og princeps. Augustus var titill, sem hafði trúarlegan fremur en pólitískan blæ. Í trúarbrögðum samtímans táknaði hann kennivald yfir mönnum, sem náði langt út fyrir opinberar skilgreiningar á tiltekinni stöðu eða embætti. Aukinheldur hjálpaði nafnbreytingin að greina á milli annars vegar þess tíma, þegar Octavíanus vann ötullega að því að treysta völd sín, stundum með harkalegum aðgerðum, og hins vegar stjórnar hans sem Ágústusar, sem ríkti með velvild. Princeps þýðir „fyrstur“ eða „fyrsti leiðtogi“. Titillinn hafði verið notaður í rómverska lýðveldinu um þá, sem þjónuðu ríkinu vel; til dæmis hafði Pompeius haft þennan titil.

Enn fremur var Ágústusi leyft að bera lárviðar- og eikarkórónu. Þetta var ef til vill hættulegasta breytingin. Kórónunni var venjulega haldið yfir höfði rómversks herforingja í sigurgöngu og kórónuberinn endurtók í sífellu „mundu að þú ert dauðlegur“ í eyru herforingjans. Ef til vill ber sú staðreynd að Ágústusi var ekki aðeins veitt kórónan heldur rétturinn til að bera hana á höfði sínu skýrt vitni um tilurð einveldis. Aftur á móti ber að árétta að hvorki titlarnir né kórónan veitti Octavíanusi nein aukaleg völd. Í skilningi laganna var hinn nýi Ágústus ekkert annað en gríðarlega virðulegur rómverskur borgari, sem gegndi embætti ræðismanns.

Þessar ákvarðanir voru afar óvenjulegar fyrir öldungaráð Rómar en á hinn bóginn var öldungaráðið ekki lengur sama samkunda yfirstéttamanna sem hafði ráðið Cæsar af dögum. Bæði Antoníus og Octavíanus höfðu hreinsað öldungaráðið af grunsamlegum meðlimum og komið fyrir sínum eigin fylgismönnum í stað þeirra. Ekki er vitað hversu frjálsar hendur öldungaráðið hafði eða hvað fór fram á bak við tjöldin.

Síðara samkomulagið

breyta

Árið 23 f.Kr. lét Ágústus af völdum sem ræðismaður en hélt eftir herstjórnarvaldinu, imperium, sem var fólgið í embættinu. Þetta leiddi til annarrar málamyndunar milli Ágústusar og öldungaráðsins, sem kallast síðara samkomulagið. Ágústusi voru fengin völd lýðsforingja (tribunicia potestas) en þó ekki titilinn. Þetta leyfði honum að kalla saman þingið eða boða til funda eftir eigin hentisemi og leggja fram mál, veitti honum neitunarvald yfir ákvörðunum lýðfunda og þingsins, boða til og stjórna kosiningum og til að tala fyrstur á öllum fundum. Í lýðsforingjavöldum Ágústusar fólust einnig völd, sem voru venjulega fólgin í embættti censors, þar á meðal rétturinn til að hafa umsjón með opinberu siðgæði og rýna í lög til þess að tryggja að þau væru í þágu almennings sem og að geta haldið þjóðskrá (census) og ákvarða aðild að öldungaráðinu. Enginn lýðsforingi Rómar hafði nokkurn tímann haft þessi völd og ekkert fordæmi var fyrir því að sameina völd lýðsforingja og censors í eina stöðu. Ágústus var ekki heldur kosinn í embætti censors. Enn er deilt um hvort Ágústusi voru fengin þessi völd með lýðsforingjavöldum sínum eða hvort hann einfaldlega tók sér þessi völd.

Auk valda lýðsforingja voru Ágústusi einum falin herstjórnarvald innan borgarmarka Rómar: allar hersveitir í borginni, sem höfðu áður verið undir stjórn embættismanna borgarinnar, lutu nú stjórn Ágústusar. Ágústus fékk enn fremur imperium proconsulare maius eða vald yfir öllum fyrrum ræðismönnum en það þýddi að hann gat skipt sér af stjórn allra skattlanda og breytt ákvöðrunum allra landstjóra. Með maius imperium var Ágústus sá eini sem gat hlotið sigurgöngu í Róm þar eð hann var orðinn yfirmaður alls herafla Rómar.

Svo virðist sem lægri stéttir Rómar hafi ekki skilið til fulls allar pólitískar afleiðingar síðara samkomulagsins. Þegar Ágústus bauð sig ekki fram í kosningum til ræðismanns árið 22 f.Kr. var aftur óttast að öldungaráðið væri að reyna að hrekja Ágústus, sem var álitinn „bjargvættur fólksins“, frá völdum. Árið 22, 21 og 20 f.Kr. brást lýðurinn við með óeirðum og leyfði einungis að einn ræðismaður væri kosinn hvert ár, að því er virðist til þess að skilja hina stöðuna eftir fyrir Ágústus. Árið 19 f.Kr. ákvað öldungaráðið að lokum að leyfa Ágústusi að bera einkennismerki ræðismanns opinberlega og frammi fyrir öldungaráðinu. Stundum er þessi ákvörðun nefnd þriðja samkokmulagið. Þetta virðist hafa lægt óeirðaröldurnar; óháð því hvort Ágústus var í reynd ræðismaður kom hann almenningi fyrir sjónir sem slíkur.

Hafa ber í huga að öll varanleg og lögleg völd rómverska ríkisins voru í höndum öldungaráðsins og fólksins. Ágústusi voru fengin sérstök völd en einungis sem fyrrum ræðismaður og embættismaður á vegum öldungaráðsins. Ágústus kom aldrei fram sem konungur eða einvaldur og lét einungis ávarpa sig með titlinum princeps. Eftir að Lepidus lést árið 13 f.Kr. tók hann einnig við embætti æðsta prests, pontifex maximus, sem var mikilvægasta embætti innan rómverskra trúarbragða.

Völd og titlar rómverskra keisara einskorðuðust síðar við þau völd og þá titla sem Ágústus hafði haft. Til þess að sýna auðmýkt höfnuðu nývígðir keisarar þó oft einum eða fleiri titlum sem Ágústus hafði borið. Eftir því sem á valdatíma þeirra leið sönkuðu keisarar þó að sér öllum völdunum og titlunum, óháð því hvort öldungaráðið hafði veitt þeim þessi völd eða ekki. Lárviðarkórónan, einkennismerki ræðismanns og síðar purpurarauð klæði herforngja í sigurgöngu (toga picta) urðu að einkennisklæðnaði keisara og héldust fram á býsanskan tíma. Jafnvel germanskir þjóðflokkar, sem réðust inn í fyrrum vesturhluta Rómaveldis tóku upp einkennisklæðnað keisaranna fyrir æðstu valdastöður sínar.

Valdatími

breyta

Ágústus, sem hafði komist til valda af dirfsku, ríkti af miklum hyggindum. Hann hlaut nær óskoruð völd en færði Róm 40 ára langan friðartíma með miklum hagsældum fyrir borgarana, sem nefnist Pax Romana eða rómarfriður.

Endurskipulagning hersins

breyta

Ágústus bjó til fyrsta fastaher og fyrsta fasta sjóher Rómar og lét koma rómverskum hersveitum fyrir meðfram landamærunum, þar sem þær gátu ekki haft afskipti af stjórnmálum. Sérsveitir hersins, lífvörður keisarans, voru í Róm og vörðu keisarann. Hann kom einnig reglu á fjármál og skattheimtu Rómar. Ágústus stjórnaði gríðarlegum fjármunum, sem bárust hvaðanæva frá yfirráðasvæðum Rómaveldis, og nýtti þá meðal annars til að halda hernum ánægðum.

Landsbyggðarstefna og stækkun Rómaveldis

breyta
 
Prima Porta styttan af Ágústusi.

Rómaveldi stækkaði mjög á valdatíma Ágústusar. Stríð var háð í fjallahéruðum í norðurhluta Spánar árin 26 til 19 f.Kr. og leiddu að lokum til þess að Rómverjar náðu yfirráðum yfir svæðinu. Í kjölfar árása Galla hernámu Rómverjar svæði í kringum Alpana. Landamæri Rómaveldis voru færð fram að náttúrulegum landamærum Dónár og Galatia var hernumin. Í vestri reyndu Rómverjar að ná fótfestu á landsvæðum Germana en voru að lokum sigraðir í orrustunni um Teutoburgskóg árið 9 e.Kr. Í kjölfarið féllust Ágústus og eftirmenn hans á að líta á Rín sem varanleg landamæri Rómaveldis. Í austri lét Ágústus nægja að koma á rómverskum yfirráðum yfir Armeníu og landsvæðum sunnan Kákasusfjalla. Hann lét veldi Parþa eiga sig og hélt góðum samskiptum við þá og árið 20 f.Kr. samdi hann við þá um að skila Rómverjum hermerkjum, sem þeir höfðu tapað í orrustunni við Carrhae.

Bretland

breyta

Í riti Ágústusar Res Gestae (orðrétt Hlutir gerðir) kemur fram að hann hafi tekið á móti tveimur konungum Bretlands. Hann hugleiddi innrás en hætti við hana.

Indland

breyta

Í starfsliði Ágústusar var Indverji[5] og hann tók á móti sendinefndum frá Indlandi[6]

Félagslegar umbætur, nýsköpun og skemmtanir í Róm

breyta

Ágústus kom á fót samgönguráðuneyti, sem lagði nýtt vegakerfi vítt og breitt um Rómaveldi — með því bötnuðu samgöngur, samskipti, póstburður og verslun. Ágústus stofnaði einnig fyrsta slökkvilið veraldar og stofnaði lögreglusveitir í Róm.

Hann nýtti gríðurleg auðævi, sem bárust víða að frá skattlöndum, til þess að halda hernum ánægðum með rausnarlegu kaupi og til að halda íbúum Rómar ánægðum með mikilfenglegum leikum. Hann nýtti leikana og aðrar uppákomur til að heiðra sjálfan sig og sína nánustu og jók þannig á vinsældir sínar.

Byggingaráform í Róm

breyta

Ágústus montaði sig af því að hann hefði "fundið Róm úr múrsteini en skilið við hana úr marmara" (þótt það hafi varla átt við um fátækrahverfi borgarinnar). Hann lét byggja

Ágústus lét gera við

Þessi verkefni eru skráð sem verkefni hans en hann tók ekki heiðurinn af þeim af ásettu ráði.

Ágústus hvatti einnig aðra til þess að hrinda í verk byggingaráformum, svo sem Lucius Cornelius Balbus (minor) og Crypta Balbi.

Hagstjórn

breyta

Líkt og allir keisarar skattlagði Ágústus landbúnað of mikið og varði skattfénu í herinn, hof og leika. Laun og verðlag voru hins vegar látin vera og það gerði mörkuðum mögulegt að njóta sín. Þegar Rómaveldi hætti að þenjast út og herfang hætti að berast frá sigruðum löndum byrjaði efnahagurinn að staðna og að lokum versnaði hann. Valdatími Ágústusar er því að sumu leyti álitinn hápunktur valda og hagsældar Rómaveldis. Ágústus fékk uppgjafarhermönnum jarðir og reyndi að lífga við landbúnað en höfuðborgin var þó áfram háð innfluttu korni frá Egyptalandi.

Trúmál

breyta

Ágústus studdi dyggilega við átrúnað á rómverska guði, einkum Apollon, og lét sem sigur Rómar á Egyptalandi væri sigur rómverskra guða á egypskum guðum.

Rómverskar hefðir

breyta

Ágústus fékk Virgil til að semja Eneasarkviðu í von um að auka þjóðarstolt Rómverja og stolt þeirra á hefðum sínum og sögu (einn af þeim titlum sem hann hafði afþakkað áður en hann hlaut titilinn Ágústus var Rómúlus, sem ‚annar stofnandi‘ Rómar).

Eigin ímynd

breyta

Hann vann ötullega að því að stöðluð mynd af honum breiddist út um Rómaveldi. Hann var táknaður á sama hátt jafnvel sem gamall maður. Afleiðing þessa er meðal annars sú að myndir af honum eru auðþekkjanlegastar allra keisaramynda. Styttur og brjóstmyndir eru víða varðveittar, meðal annars á:

Átak í siðferðismálum

breyta

Ágústus hóf átak í siðferðismálum. Hann studdi hjónabönd, fjölskyldur og barneignir – og gekk jafnvel svo langt að refsa skírlífi eftir að ákveðnum aldri var náð – en hvatti fólk gegn munaðarlífi, lauslæti og frjálslyndi í kynlífi (þar með talið vændi og samkynhneigð), og framhjáhaldi. Ástæðan var fólksfækkun meðal yfirstétta. Átak Ágústusar var að mestu leyti án árangurs (hann gerði jafnvel sína eigin dóttur og – kannski í tengslum við hana – Óvidíus útlæg frá Róm vegna kynferðislegra hneykslismála.)

Menningarmál

breyta

Ágústus var menningarjöfur og studdi dyggilega við bakið á skáldum, listamönnum, og arkítektum. Valdatími hans er álitinn gullöld latneskra bókmennta. Hóratíus, Propertius, Tíbúllus, Lívíus, Óvidíus og Virgill blómstruðu allir undir verndarvæng hans en urðu að launa fyrir sig með því að heiðra hann og vera honum þóknanlegir. (Óvidíus var gerður útlægur frá Róm, sennilega fyrir frjálslyndi í siðferðismálum, sem var Ágústusi ekki þóknanlegt)

Ævilok

breyta

Á endanum náði Ágústus að vinna hylli flestra menntamanna Rómar. Margir litu aftur til blómatíma lýðveldisins með fortíðarþá en viðruðu ekki skoðanir sínar opinberlega. Vinsældir hans jukust meðal almennings vegna leikanna sem hann hélt til heiðurs sjálfum sér og vinum sínum og vandamönnum. Þegar Ágústus lést var óhugsandi að snúa aftur til gamla fyrirkomulagsins. Hann hafði ríkt í 40 ár og nánast enginn var á lífi sem mundi þá tíma þegar lýðveldið blómstraði og borgarastríð geisuðu ekki. Spurningin var nú einungis hver myndi taka við af Ágústusi.

Arftaki

breyta

Völd Ágústusar voru svo traust og alger að hann gat útnefnt arftaka sinn en slíkt hafði ekki verið til siðs frá upphafi lýðveldistímans. Í fyrstu var útlit fyrir að Ágústus myndi útnefna systurson sinn Marcus Claudius Marcellus, sem hafði kvænst dóttur Ágústusar Júlíu eldri. Marcellus lést hins vegar af völdum matareitrunar árið 23 f.Kr. Frásagnir síðari tíma sagnaritara herma að eiginkona Ágústusar, Livia Drusilla, hafi borið ábyrgð á eitruninni og öðrum dauðsföllum en það er alls óvíst að hún hafi átt hlut að máli.

Eftir fráfall Marcellusar gifti Ágústus dóttur sína einum helsta bandamanni sínum, Marcusi Agrippu. Þeim varð fimm barna auðið: Gaius Cæsar, Lucius Cæsar, Vipsania Julia, Agrippina eldri og Postumus Agrippa, svo nefndur vegna þess að hann fæddist eftir andlát föður síns, Marcusar Agrippu. Áform Ágústusar um að gera elstu dóttursyni sína að erfingjum sínum urðu ljós þegar hann ættleiddi þá sem sína eigin syni. Ágústus virtist einnig taka stjúpsyni sína, syni Liviu frá fyrra hjónabandi, Nero Claudius Drusus Germanicus og Tíberíus Claudius, fram fyrir aðra eftir að þeir höfðu hernumið stóran hluta af landsvæðum Germana.

Þegar Agrippa lést árið 12 f.Kr. skildi Tíberíus, sonur Liviu, við konu sína og kvæntist ekkju Agrippu, Júlíu, dóttur Ágústusar. Tíberíus fór með lýðsforingjavöld Ágústusar um hríð en settist í helgan stein stuttu síðar. Synir Júlíu, sem Ágústus hafði ættleitt, Gaius og Lucius, létust um aldur fram, árið 4 og 2 e.Kr. og Drusus hafði látist nokkru fyrr (9 f.Kr.). Í kjölfarið var Tíberíus kallaður til Rómar og ættleiddur af Ágústusi.

Þann 9. ágúst árið 14 e.Kr. lést Ágústus. Postumus Agrippa og Tíberíus höfðu verið útnefndir erfingjar hans. Postumus hafði hins vegar verið gerður útlægur og var líflátinn um svipað leyti. Ekki er vitað hver fyrirskipaði líflát hans en gatan var greið fyrir Tíberíus til þess að taka við völdum stjúpföður síns.

Arfleifð Ágústusar

breyta
 
Teikning af Ágústusi gerð eftir Prima Porta styttunni.

Ágústus var tekinn í guðatölu stuttu eftir andlát sitt og bæði eftirnafn hans, sem hann hafði erft eftir ömmubróður sinn, Cæsar, og titillinn Augustus urðu að varanlegum titlum rómverskra valdhafa næstu 400 árin og voru enn í notkun í Konstantínópel fjórtán öldum eftir dauða hans. Á mörgum tungumálum varð cæsar að orði um keisara, líkt og í þýsku (Kaiser), hollensku (keizer) og rússnesku (Czar) auk íslensku. Dýrkun hins guðdómlega Ágústusar hélst þar til kristni var gerð að ríkistrú á 4. öld. Þess vegna eru margar vel varðveittar styttur og brjóstmyndir af fyrsta og að sumu leyti mikilvægasta keisaranum. Í grafhýsi Ágústusar voru upphaflega bronssúlur með áletrunum um ævi hans og störf, Res Gestae Divi Augusti.

Ágústusar er getið í Lúkasarguðspjalli (2:1).

Margir telja að Ágústus hafi verið besti keisari Rómaveldis. Gjörðir hans lengdu svo sannarlega líftíma Rómaveldis og hann kom á friðar- og farsældartíma, Pax Romana eða Pax Augusta (Rómarfriður eða Ágústusarfriður). Hann var myndarlegur, vel gefinn, ákveðinn og lævís stjórnmálamaður en ef til vill ekki eins heillandi og Júlíus Cæsar eða Marcus Antonius.

Ágústmánuðurlatínu Augustus) er nefndur eftir Ágústusi. Áður hafði hann heitið Sextilis (sjötti mánuður rómverska tímatalsins). Víðkunn saga segir að ágúst hafi 31 dag vegna þess að Ágústus vildi að sinn mánuður væri jafnlangur og mánuður Julíusar Cæsars, júlí en þessi saga er uppspuni 13. aldar fræðimannsins Johannesar de Sacrobosco. Sextilis hafði 31 dag áður en mánuðurinn var nefndur eftir Ágústusi og hann var ekki valinn vegna lengdar sinnar.

Þegar litið er á valdatíma Ágústusar og arfleifð hennar ætti ekki að vanmeta lengd valdatímans þegar árangurinn er metinn. Fólk fæddist og náði miðjum aldri án þess að þekkja neitt annað stjórnarfyrirkomulag en „principatið“. Hefði Ágústus dáið fyrr, (til dæmis árið 23 f.Kr.), þá litu málin öðruvísi út. Því verður mannfall og sá skaði sem borgarastríð ullu yfirstéttum lýðveldistímans sem og langvarandi stjórn Ágústusar að teljast mikilvægir þættir í umbreytingu rómverska lýðveldisins í einveldi í raun. Eigin reynsla Ágústusar, þolinmæði hans, góður smekkur hans og skilningur hans á stjórnmálum voru einnig mikilvægir þættir í umbreytingunni. Hann beindi ríkinu inn á ýmsar brautir, sem vörðu um aldir, allt frá tilvist fastahers á eða nærri landamærum ríkisins, til ættarveldisins, sem einkennir oft keisaraveldi, til skreytingar höfuðborgarinnar á kostnað keisarans. Merkasta arfleifð Ágústusar var friður og farsæld, sem einkenndi ríkið næstu tvær aldirnar undir því stjórnkerfi, sem hann hafði skapað. Hann varð fyrirmyndin um góðan keisara og þótt allir keisarar tækju sér nafn hans, Cæsar Augustus, stóðust einungis fáir samanburð við hann, svo sem Trajanus.

Ágústus í dægurmenningu

breyta

Ágústus lenti í 18. sæti á lista Michaels H. Hart yfir 100 áhrifamestu persónur sögunnar.

Í kvikmyndum og sjónvarpi

breyta

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Imperator Caesar, sonur hins guðlega, Ágústus
  2. Scullard (1987): 163
  3. Scullard (1987): 164
  4. Green (1990): 697
  5. Plut. Alex. 69.9
  6. Res Gestae, 31

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Augustus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. apríl 2006.
  • Galinsky, Karl, Augustan Culture (Princeton: Princeton University Press, 1998).
  • Galinsky, Karl (ritstj.), The Cambridge Companion to the Age of Augustus (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
  • Green, Peter, Alexander to Actium: The Historical Evolution of the Hellenistic Age (Los Angeles: University of California Press, 1990).
  • Scullard, H.H., From the Gracchi to Nero; A History of Rome from 133 BC to AD 86 (London: Routledge, 1982).
  • Zanker, Paul, The Power of Images in the Age of Augustus (Ann Arbor: University of Michigan Press, 1990).