Marcus Antonius (14. janúar 83 f.Kr.1. ágúst 30 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og herforingi.

Marcus Antonius var mikilvægur stuðningsmaður Gaiusar Juliusar Caesars, herforingi hans í Gallíu og fjarskyldur frændi hans. Í Gallíu stjórnaði Antonius riddaraliði Caesars í orrustunni við Alesiu, þar sem Caesar sigraði Vercingetorix, einn helsta hershöfðingja Galla. Eftir gallastríðin sendi Caesar Antonius til Rómar sem fulltrúa sinn, en samkvæmt lögum mátti Caesar ekki halda til Rómar með her sinn. Fljótlega þurfti Antonius þó að flýja Róm undan andstæðingum Caesars og hélt til Caesars þar sem hann var staddur við Rubicon ána. Í kjölfarið hélt Caesar til Rómar með her sinn og hófst þar með borgarastríð milli Caesars og Pompeiusar.

Í borgarastríðinu var Antonius næst æðstur í her Caesars, á eftir Caesari sjálfum. Í orrustunni við Farsalos barðist Antonius með Caesari, og stjórnaði helmingi heraflans, gegn herafla Pompeiusar, sem var mun fjölmennari. Caesar vann orrustuna sem er álitin hafa verið úrslitaorrusta stríðsins. Þegar borgarastríðinu var lokið og Caesar orðinn einvaldur (dictator) skipaði hann Antonius sem magister equitum (meistari hestsins) sem þýddi í raun að Antonius var næstráðandi í Rómaveldi.

Eftir að Caesar var ráðinn af dögum myndaði Antonius stjórnmálasamband við Octavianus og Marcus Aemilius Lepidus og er það gjarnan nefnt þremenningasambandið síðara. Antonius var mestur herforingi þeirra þriggja og átti mestan heiðurinn af sigri þeirra Octavianusar á herjum Brutusar og Cassiusar í orrustunni við Filippí árið 42 f.Kr.

Þremenningasambandið rann út árið 33 f.Kr. og ósætti og valdabarátta milli Octavianusar og Antoniusar blossuðu upp í borgarastyrjöld árið 31 f.Kr. Floti Octavianusar sigraði sameinaðan flota Antoniusar og Kleópötru drottningar í Egyptalandi í orrustunni við Actíum. Antonius og Kleópatra komust undan til Alexandríu þar sem smávægileg átök urðu milli hers Octavianusar og þeirra fáu hermanna sem eftir voru í liði Antoniusar og Kleópötru. Þegar ljóst var hver málalok voru framdi Antonius sjálfsmorð. Slíkt hið sama gerði Kleópatra skömmu síðar eftir að hafa reynt að semja fyrst við Octavianus. Þar með lauk borgarastyrjöldinni, Octavianus stóð þá eftir sem valdamesti maður Rómaveldis og varð síðar fyrsti keisari heimsveldisins.

Marcus Antonius hafði áður verið kvæntur Octaviu, systur Octavianusar og átti með henni tvær dætur, Antoniu eldri og Antoniu yngri. Antonia yngri var móðir Claudiusar keisara en Antonia eldri var amma Nerós keisara.

  Þetta æviágrip sem tengist fornfræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.