Loðvík 12. (27. júní 14621. janúar 1515) var konungur Frakklands frá 1498 til dauðadags og áður hertogi af Orléans frá 1465.

Skjaldarmerki Valois-ætt Konungur Frakklands
Valois-ætt
Loðvík 12.
Loðvík 12.
Ríkisár 7. apríl 1498 – 1. janúar 1515
SkírnarnafnLouis d'Orléans
Fæddur27. júní 1462
 Château de Blois, Blois, Frakklandi
Dáinn1. janúar 1515 (52 ára)
 Hôtel des Tournelles, París, Frakklandi
GröfBasilique Saint-Denis, Frakklandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Karl hertogi af Orléans
Móðir María af Cleves
DrottningJóhanna af Valois (g. 1476)
Anna af Bretagne (m. 1498)
María Tudor (g. 1514)
BörnUm 10; þ. á m. Claude og Renée

Hertogi af Orléans

breyta

Loðvík var sonur Karls hertoga af Orléans og Maríu af Cleves og varð hertogi þriggja ára gamall, þegar faðir hans lést. Ungur að aldri tók hann þátt í uppreisn aðalsmanna gegn konunginum, Karli 8. frænda sínum, og var handtekinn og hafður í haldi í þrjú ár en þá var honum sleppt og tók hann síðan þátt í herferðum á Ítalíu með Karli.

Karl var ekki orðinn þrítugur og átti unga konu sem ól barn á hverju ári svo að Loðvík hefur varla búist við að erfa krúnuna þótt hann væri kominn í beinan karllegg af Karli 5., sem var Frakkakonungur 1364-1380. Þó fór svo að Karl 8. lést óvænt 1498 eftir að hafa orðið fyrir slysi þegar hann var að leika jeu de paume. Öll börn hans og konu hans, Önnu af Bretagne, voru þá dáin og stóð Loðvík næstur til ríkiserfða þótt fjarskyldur væri.

Hjúskaparmál konungs

breyta

Í hjúskaparsamningi sem gerður hafði verið milli Karls og Önnu 1491 var áskilið að ef þau dæju barnlaus skyldi hún giftast eftirmanni hans, en hún var þá ríkasta kona Evrópu og Frakkakonungar höfðu mikinn hug á að ná erfðaríki hennar, Bretagne, undir sig. Sá galli var að vísu á göf Njarðar að Loðvík var þegar kvæntur, hafði gengið að eiga Jóhönnu, systur Karls 8. 1476, þegar hann var um 14 ára og hún 12 ára.

Loðvík brá á það ráð að krefjast ógildingar hjónabandsins vegna þess að kona hans væri vansköpuð og hann hefði ekki getað uppfyllt hjúskaparskyldur sínar vegna fötlunar hennar, enda væru þau barnlaus eftir 22 ára hjónaband. Jóhanna barðist hart á móti og leiddi fram vitni um að hjónabandið hefði víst verið fullkomnað. Loðvík hefði vafalaust ekki fengið sínu framgengt ef Alexander VI páfi hefði verið hlutlaus dómari en af pólitískum ástæðum úrskurðaði hann konungi í vil. Var hjónaband konungshjónanna ógilt 15. desember 1498 og Loðvík giftist Önnu 8. janúar 1499.

Stjórnartíð Loðvíks

breyta
 
Loðvík skrifar Önnu drottningu bréf frá Ítalíu.

Loðvík var meira en hálffertugur þegar hann hann erfði kórónuna óundirbúinn en reyndist öflugur ríkisstjórnandi. Hann gerði endurbætur á franska réttarkerfinu og stjórnsýslunni og dró úr skattheimtu. Honum gekk vel að fást við valdamikla aðalsmenn og tókst að gera stjórnkerfið stöðugra.

Hann lét einnig til sín taka í utanríkismálum, hélt áfram að herja á Ítalíu og náði Mílanó á sitt vald 1499. Árið 1509 vann hann góðan sigur í stríði við Feneyinga. Þó fór að draga úr velgengni hans um 1510, einkum eftir að Júlíus II varð páfi og stofnaði Heilaga bandalagið til að berjast gegn ásælni Frakka á Ítalíu. Voru Frakkar hraktir frá Mílanó 1513.

Þótt herfarir Loðvíks væru kostnaðarsamar báru endurbætur hans í ríkisfjármálum svo góðan árangur að hallarekstur krúnunnar jókst ekkert og Loðvík var vinsæll hjá þegnum sínum.

Fjölskylda

breyta

Loðvík og Anna drottning áttu sjö börn. Fimm fæddust andvana en tvær dætur lifðu, Þær voru hins vegar ekki gjaldgengar til ríkiserfða í Frakklandi því þar erfðist krúna ekki í kvenlegg og þegar Loðvík fór að óttast að Anna ætti ekki eftir að ala honum son ákvað hann að Claude, eldri dóttirin skyldi giftast Frans af Angoulême, sem stóð næstur til ríkiserfða í Frakklandi. Claude var ríkisarfi í Bretagne, því þar gátu konur erft ríkið, og þetta var því enn ein tilraun Frakkakonunga til að sameina hertogadæmið Frakklandi. Anna drottning vildi viðhalda sjálfstæði Bretagne og neitaði að samþykkja ráðahaginn. Hún dó í janúar 1514 og giftust þau Claude og Frans nokkrum mánuðum síðar.

Loðvík var rúmlega fimmtugur þegar Anna dó og hafði enn færi á að bæta úr sonarleysinu. Hann giftist Maríu Tudor, 18 ára systur Hinriks 8. Englandskonungs, 9. október sama ár en dó á nýársdag 1515 og var sagt að ofreynsla í hjónasænginni hefði orðið honum að aldurtila. Frans frændi hans og tengdasonur erfði því ríkið.

Heimild

breyta


Fyrirrennari:
Karl 8.
Konungur Frakklands
(14981515)
Eftirmaður:
Frans 1.