Heimsmeistarakeppni félagsliða í knattspyrnu

Heimsmeistarakeppni félagsliða í knattspyrnu er alþjóðleg knattspyrnukeppni sem skipulögð er af Fédération Internationale de Football Association eða FIFA. Keppnin var fyrst haldin árið 2000 og því næst árlega frá 2005 til 2023. Þáttökuliðin hlupu frá 6 og upp í 12 frá öllum álfusamböndum, en lið frá Evrópu og Suður-Ameríku voru alla tíð sigursælust. Á HM 2025 verður þátttökuliðum fjölgað í 32 og keppnin eftirleiðis haldin á fjögurra ára fresti.

Real Madrid er sigursælasta liðið í sögu keppninnar með 5 titla. Ríkjandi meistarar (2023) eru Manchester City.

 
Millonarios frá Kólumbíu sigruðu í óopinberu heimsmeistarakeppninni 1953.

Hugmyndin um alþjóðlega keppni félagsliða til að fá úr því skorið hvaða land státaði af besta liðinu er ævagömul. Þegar árið 1887 var kappleikur ensku bikarmeistaranna og skosku bikarmeistaranna kynntur sem heimsmeistarakeppni og árin 1909 og 1911 var keppt um Sir Thomas Lipton bikarinn á Ítalíu með þátttöku ítalskra, enskra, þýskra og svissneskra liða.[1]

Á sjötta áratugnum stóðu knattspyrnuforkólfar í Venesúela fyrir litlu heimsmeistarakeppninni þar sem evrópsk og suður-amerísk félög leiddu saman hesta sína.[2] Sú keppni varð að mörgu leyti fyrirmyndin að Intercontinental Cup árlegri keppni Evrópumeistaranna og Suður-Ameríkumeistaranna sem haldin var frá 1960 til 2004 og hlutu sigurvegararnir heimsmeistaranafnbót. Til ársins 1979 var keppt heima og heiman í úrslitaeinvíginu en frá 1980 var einn úrslitaleikur látinn nægja, sem fram fór í Japan, yfirleitt í desembermánuði.

Heimsmeistarakeppni stofnsett

breyta

Þegar á áttunda áratugnum fóru þær raddir að heyrast fyrir alvöru að óeðlilegt væri að krýna heimsmeistara í keppni þar sem einungis væru lið frá tveimur álfum. Ekki komst þó skriður á málið fyrr en löngu síðar. Að sögn Sepp Blatter forseta FIFA var það Silvio Berlusconi forseti AC Milan sem setti fram hugmyndina á fundi í New York árið 1993, en um þær mundir voru álfumeistarakeppnir félagsliða orðnar nokkuð traustar í sessi í öllum álfusamböndum.[3]

Ákveðið var á fundi í júní 1999 að fela Brasilíu að halda fyrstu heimsmeistarakeppnina síðar sama ár. Að lokum varð þó úr að fresta mótinu fram yfir áramót og var það haldið dagana 5. til 14. janúar 2000. Átta lið frá sex álfusamböndum öttu kappi. Brasilíska félagið Corinthians fór með sigur af hólmi eftir sigur á löndum sínum í Vasco da Gama í vítaspyrnukeppni eftir markalausan úrslitaleik.[4] Þátttaka Manchester United í keppninni varð mjög umdeild vegna þess að vegna hennar þurfti félagið að draga sig úr ensku bikarkeppninni í fyrsta sinn í sögunni.[5]

Ekki tókst að byggja á þessari byrjun. Fyrirhugað var að halda næstu heimsmeistarakeppni á Spáni árið 2001 en horfið var frá því að halda hana vegna fjárhagsvandræða. Ekki tókst að finna gestgjafaþjóð til að skipuleggja mótið árið 2002 og féll keppnin einnig niður árin 2003 og 2004. Fyrir árið 2005 náðust samningar milli FIFA, UEFA, CONMEBOL og Toyota, sem verið hafði aðalstyrktaraðili Intercontinental Cup, um að sameina keppninar tvær.

Stór í Japan

breyta

Líkt og viðureignir Evrópu- og Suður-Ameríkumeistaranna undangenginn aldarfjórðung, var önnur heimsmeistarakeppni félagsliða haldin í Japan árið 2005 og svo aftur næstu þrjú ár þar á eftir. Mótið var jafnframt fært fram fyrir áramót og var haldið í byrjun desember í stað byrjun janúar. Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi þar sem fulltrúar Evrópu og Suður-Ameríku hófu keppni í undanúrslitum. Í öllum tilvikum mættust þessi lið síðan í sjálfum úrslitaleiknum í Yokohama.

Árin 2005 og 2006 urðu brasilísku félögin São Paulo og Internacional meistarar eftir sigra á Liverpool og Barcelona í úrslitum. AC Milan varð fyrsta evrópska liðið til að lyfta bikarnum árið 2007 eftir sigur á Boca Juniors frá Argentínu og árið eftir lagði Manchester United ekvadorska liðið LDU Quito í úrslitaleiknum. Með þessu má segja að bundinn hafi verið endi á velgengni suður-amerískra liða í keppninni, en frá 2007 hafa evrópsk félög einokað hana í öll skiptin nema eitt.

Mót á faraldsfæti

breyta
 
Corinthians varð síðasta suður-ameríska liðið til að vinna keppnina árið 2012.

Eftir að hafa verið hýst af Japönum fjögur ár í röð leitaði FIFA eftir umsækjendum fyrir mótin 2009 og 2010. Auk Japans föluðust Ástralía, Portúgal og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Niðurstaðan varð sú að keppnin var haldin í Abú Dabí. Barcelona varð meistari árið 2009 eftir sigur á Estudiantes í framlengdum úrslitaleik, var þetta sjötti sigur spænska liðsins í öllum keppnum á almanaksárinu, sem var nýtt met.

Blað var brotið í sögu keppninnar árið 2010 þegar TP Mazembe frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó varð fyrsta afríska liðið til að komast í úrslit og rauf þar með einokun Evrópu og Suður-Ameríku. Afríkumennirnir sóttu þó ekki gull í greipar Inter Mílanó í úrslitum og steinlágu, 3:0.

Japanir urðu á ný hlutskarpastir þegar kom að því að velja gestgjafa fyrir árin 2011 og 2012. Barcelona hafði fádæma yfirburði í keppninni 2011, unnu báða leiki sína 4:0 þar á meðal brasilíska liðið Santos í úrslitunum. Árið eftir urðu Corinthians frá São Paulo síðasta liðið utan Evrópu til að hampa heimsmeistaratitlinum eftir sigur á Chelsea. Þetta var annar sigur Corinthians í keppninni en aðeins fjögur félög hafa orðið heimsmeistarar oftar en einu sinni.

Spænskt drottnunarskeið

breyta
 
Zinedine Zidane stýrði Real Madrid til meistaratitils 2016 og 2017.

Eftir að aðrir umsækjendur drógu framboð sín til baka urðu Marokkómenn sjálfkjörnir gestgjafar áranna 2013 og 2014. Auk álfumeistaranna sex, hafði sú hefð komist á að heimamenn fengu að senda sína fulltrúa sem sjöunda þátttökuliðið. Gestgjafarnir í Raja CA þurftu að fara lengstu mögulegu leið og vinna þrjá leiki, þar af einn í framlengingu til að komast í úrslitin, annað liða utan Evrópu og Suður-Ameríku í sögunni. Þar reyndust Bayern München þó ofjarlar þeirra.

2014 hófst einstök sigurganga Spánverja í keppninni þegar Real Madrid vann San Lorenzo frá Argentínu í úrslitum. Næstu tvö árin var keppnin í Japan og enn var spænskir á sigurbraut, fyrst Barcelona og því næst Real Madrid árið 2016, sem stóð þó tæpt þegar grípa purfti til framlengingar á móti japanska liðinu Kashima Antlers í úrslitum. Árin 2017 og 2018 fluttist keppnin til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og í bæði skiptin sigraði Real Madrid, í seinna skiptið eftir sigur á heimamönnunum í Al Ain sem urðu þar með fyrsta liðið frá Persaflóa til að komast svo langt.

Enskir yfirburðir

breyta
 
Leikmenn Chelsea fagna heimsmeistaratitlinum innilega.

Í stað þess að lýsa eftir umsækjendum um mótin 2019 og 2020 ákvað FIFA að fela Katar umsjónina í æfingarskyni fyrir HM 2022. Liverpool þurfti mark í uppbótartíma gegn C.F. Monterrey frá Mexíkó og framlengdan úrslitaleik gegn Flamengo til að hreppa sinn fyrsta titil. 2020-keppnin var það svo Bayern München sem sigraði eftir að hafa mætt mexíkóska liðinu UANL í úrslitum. Þar með höfðu félög frá öllum álfusamböndum nema Eyjaálfu komist svo langt. Þrátt fyrir nafnið, var 2020-keppnin haldin í febrúar á árinu 2021 og sama fyrirkomulag var viðhaft næstu tvö skiptin þar á eftir.

Heimsmeistarakeppnin 2021 var haldin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum snemma árs 2022 og lauk með sigri Chelsea, en sigurmark undir lok framlengingar gegn Palmeiras réði úrslitum. Á sama stað ári síðar var það Real Madrid sem bætti enn einum titlinum í safnið. Mótherjarnir í úrslitum voru Al Hilal frá Sádi Arabíu.[6]

Ákveðið var að halda síðustu heimsmeistarakeppnina með hefðbundna sniðinu í Sádi Arabíu árið 2023. Leiktíminn var aftur færður fram fyrir áramót og var keppnin því á ný haldin á sama ári og nafn hennar gaf til kynna. Manchester City varð sigurvegari eftir 4:0 sigur á Flamengo og var það aðeins í annað sinn í sögu keppninnar sem úrslitaleikur vannst með svo miklum mun.[7]

Ný og gjörbreytt keppni

breyta

Stjórnendur FIFA höfðu lengi lýst vilja sínum til að stækka heimsmeistarakeppni félagsliða og sníða hana að keppni landsliðanna. Um yrði að ræða mót með 32 liðum sem fram færi á fjögurra ára fresti, að sumarlagi, árið áður en HM karlalandsliða færi fram.[8]

Vonir stóðu til að hægt væri að hrinda keppninni af stokkunum árið 2021, en Covid-faraldurinn og harðar deilur við einstök álfusambönd en ekki síst við stóru knattspyrnufélögin í Evrópu, sem óttuðust of mikið álag á leikmenn sína, töfðu framkvæmdina um fjögur ár. Fyrsta heimsmeistarakeppnin með nýja fyrirkomulaginu verður haldin í Bandaríkjunum frá 15. júní til 13. júlí 2025.

Vegna ákvörðunarinnar um að stækka heimsmeistarakeppnina og halda á fjögurra ára fresti var ákveðið að endurvekja gömlu álfukeppnina, Intercontinental Cup frá og með árinu 2024 og halda þau ár sem heimsmeistarakeppnin fer ekki fram.

Meistarasaga

breyta
Félag Fjöldi titla Ár
  Real Madrid 6 2014, 2016, 2017, 2018, 2022
  Barcelona 3 2009, 2011, 2015
  Corinthians 2 2000, 2012
  Bayern München 2 2013, 2020
  Liverpool 1 2019
  Chelsea 1 2021
  São Paulo 1 2005
  Internacional 1 2006
  AC Milan 1 2007
  Manchester United 1 2008
  Inter Milano 1 2010
  Manchester City 1 2023

Heimildir

breyta
  1. West Auckland, Juventus And The First ‘World Cup’ The Hardtackle, 14. maí 2013.
  2. El primer torneo internacional de clubes José Quesada á Fútbol Retro, 25. sept. 2023.
  3. Blatter: "The Club World Championship holds promise for the future" Heimasíða FIFA, 6. des. 1999.
  4. [1] Heimasíða FIFA, leikskýrsla.
  5. United Pull Out of FA Cup. BBC News, 30. júní 1999.
  6. Mótssíða FIFA.
  7. Mótssíða FIFA.
  8. FIFA Club World Cup 2025: Everything you need to know Heimasíða FIFA, 28. febrúar 2024.

Tenglar

breyta