Litla heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu
Litla heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu (sp. Pequeña Copa del Mundo de Clubes) var keppni félagsliða frá Suður-Ameríku og Evrópu sem haldin var í Venesúela á árabilinu 1952 til 1975. Blómatími mótsins var frá 1952 til 1957, en seinna skeið hennar sem stóð slitrótt frá 1963 til 1975 var veigaminna.[1] Keppnin var fyrirvari Intercontinental Cup, þar sem lið frá Evrópu og Suður Ameríku voru í báðum keppnunum.[1][2] Keppnin missti vinsældir við tilkomu Meistaradeildar Evrópu og Intercontinental Cup. Evrópsk lið fóru með sigur af hólmi í níu skipti af þrettán en suður-amerísk í hin fjögur skiptin.
Saga
breytaLitla heimsmeistarakeppnin var fyrst haldin í Karakas höfuðborg Venesúela í seinni hluta júlímánaðar 1952. Keppnisliðin voru fjögur: Botafogo frá Brasilíu, Millonarios frá Kólumbíu, heimaliðið La Salle og Real Madrid frá Spáni. Mættu þau öll hvort öðru tvívegis og fór svo að lokum að spænsku meistararnir urðu efstir á markatölu.
Árið eftir var mótið haldið í tvígang. Fyrst í febrúar þar sem Millonarios, með Alfredo Di Stéfano í broddi fylkingar varð efst í þriggja liða móti þar sem Rapid Vín frá Austurríki og River Plate frá Argentínu voru einnig meðal þátttakenda. Í júlí sama ár öttu fjögur félög kappi, þar sem Evrópuliðin voru tvö í fyrsta sinn: Roma og Barcelona. Brasilíska liðið Corinthians varð sigurvegari en úrvalslið frá Karakas rak lestina.
Ekki var keppt árið 1954 en ári síðar var þráðurinn tekinn upp að nýju. Þar keppti heimalið ásamt Valencia og Benfica ásamt São Paulo sem tryggði sér toppsætið með jafntefli gegn Valencia í lokaumferðinni. Mótið teygði sig yfir tæpan mánuð og hefur væntanlega reynt á þolrif evrópsku leikmannanna. Spánarmeistarar Real Madrid afþökkuðu þátttöku í keppninni og hljóp Valencia í skarðið þrátt fyrir að hafa einungis hafnað í 5. sæti spænsku deildarinnar.
Árið 1956 mættu þrjú evrópsk lið til keppni: portúgölsku meistararnir í Porto auk Roma og Real Madrid sem hvorugt höfðu þó orðið meistarar í heimalöndum sínum. Fulltrúar Suður-Ameríku voru Vasco da Gama. Spánverjarnir urðu fyrsta liðið í sögunni til að vinna í tvígang.
Tilkoma Evrópukeppni meistaraliða varð til þess að draga úr áhuga evrópskra liða á að leggja í svo langa keppnisferð. Tvö spænsk lið tóku þátt í mótinu 1957 sem reyndist það síðasta að sinni. Það voru Barcelona, sem unnu keppnina og Sevilla. Botafogo og Nacional frá Úrúgvæ voru fulltrúar Suður-Ameríku.
Seinna tímabilið
breytaLitla heimsmeistarakeppnin var endurvakin árið 1963 eftir sex ára hlé. Keppnisliðin voru aðeins þrjú. São Paulo varð meistari í annað sinn en Real Madrid og Porto komu þar á eftir. Mesta athygli vakti þó að Alfredo Di Stéfano var rænt af vinstrisinnuðum skæruliðum meðan á því stóð og haldið í gíslingu í þrjá daga áður en honum var sleppt heilum á húfi.
Tveimur árum síðar var þráðurinn tekinn upp að nýju. Keppnisliðin voru bara tvö, bæði frá Evrópu. Benfica varð meistari eftir sigur á Atlético Madrid í tveimur leikjum og framlengingu.
Árið 1966 varð Valencia meistari eftir keppni þriggja evrópskra liða. Vitória Guimarães frá Portúgal og Lazio tóku einnig þátt í mótinu sem var að þessu sinni kennt við frelsishetjuna Simón Bolívar.
Báðar heimsálfur áttu fulltrúa í keppninni 1967. Athletic Bilbao, sem endað hafði um miðja spænsku deildina, hampaði titlinum. Académica Coimbra sem hafði náð sínum langbesta árangri, öðru sæti í portúgölsku deildinni sama ár, hlaut silfrið en Platenese, argentínskt smálið, rak lestina.
Þrjú evrópsk lið öttu kappi þegar mótið fór næst fram árið 1969. Sparta Prag frá Tékkóslóvakíu varð meistari en Deportivo de La Coruña og Sporting frá Lissabon voru einnig meðal keppenda.
Vitória Setúbal frá Portúgal vann mótið árið 1970 þar sem Santos, Chelsea og Werder Bremen mættu einnig til leiks.
Eftir nokkurra ára hlé var síðasta mótið haldið árið 1975 og var keppnin þá orðin skugginn af sjálfri sér. Boavista frá Portúgal, Real Zaragossa frá Spáni og Rosario Central frá Argentínu öttu kappi við úrvalslið frá Austur-Þýskalandi sem varð síðasta sigurliðið í skrykkjóttri sögu litlu heimsmeistarakeppninnar.
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 El primer torneo internacional de clubes by José Quesada on Fútbol Retro.es
- ↑ EL RAPTO DE DI STÉFANO ARRUINÓ LA PEQUEÑA COPA DEL MUNDO by Iván Castelló on Eurosport, 18 Apr 2020