Framsækið þungarokk

tónlistarstefna
(Endurbeint frá Framsækinn málmur)

Framsækið þungarokk (e. progressive metal) er undirstefna þungarokks sem talið er að hafi orðið til í Bretlandi og Norður-Ameríku í lok áttunda áratugarins en var ekki skilgreindur sem tónlistarstefna fyrr en í lok níunda áratugarins. Oftast samanstendur hljómsveit í þessum tónlistarflokki af gítarleikara, trommuleikara, söngvara og bassaleikara en stundum eru gítarleikararnir fleiri en einn og oft er einnig hljómborðsleikari í hljómsveitinni. Framsækið þungarokk er hægt að skilgreina sem háværari útgáfu af framsæknu rokki en einnig er sagt að framsækinn málmur sé þungarokk sem fylgir óhefðbundnum reglum að því er varðar uppsetningu á lögum.

Með tímanum fóru tónlistarmenn framsækins þugnarokks að taka hugmyndir úr öðrum tónlistarflokkum og þá helst úr klassískri tónlist og djassi. Einu skilyrðin sem lag þarf að uppfylla til þess að vera progmetal er að það hafi ekki sömu uppsetningu og popplag og að það sé nógu þungt til þess að vera kallað þungarokk. Margar progmetal hljómsveitir hafa gert lög með flóknum hryn-hugmyndum og út frá þessum hugmyndum hafa myndast nokkrir undirflokkar framsækins málms eins og djent.

Í bæði framsæk ný-þungarokki og framsæknu rokki hefur oft verið lögð áhersla á tæknilegri kunnáttu hljóðfæraleikaranna og út frá því myndaðist það sem kallast tæknilegt dauðarokk. Söngurinn er oftast skær, í falsettu og leikrænn en með árunum hafa hljómsveitir eins og Opeth og Cynic rutt veginn fyrir söngvurum sem kjósa frekar að öskra eða urra. Framsækið þungarokk sem stefna hefur haft gríðarleg áhrif á marga aðra undirflokka þungarokks og öfugt. Margar hljómsveitir í dag sem eru skilgreindar sem dauðarokk, svartmálmur eða eitthvað svipað fylgja ekki hefðbundnu lagaformi og þess vegna má skilgreina þær sem framsækið þungarokk.

Upphaf

breyta
 
Hljómsveitin Rush, Alex Leifson gítarleikari lengst til vinstri, Neil Peart trommuleikari lengst til hægri og Geddy Lee söngvari og bassaleikari í miðjunni

Framsækinn málmur varð til þegar framsæknar hljómsveitir gerðu tilraunir með þyngri kafla í lögum sínum og þegar þungarokkshljómsveitir gerðu tilraunir með flóknari uppsetningar á lögum. Þannig má segja að þessi tegund tónlistar sé afsprengi tveggja tónlistarstefna.

Dæmi um framsæknar hljómsveitir sem fóru að spila tónlist í harðari kantinum eru Rush, King Crimson og High Tide. Af plötunum 2112, Farewell to Kings og Hemispheres eftir Rush mátti finna mörg góð dæmi um það hvernig framsækið þungarokk kom til með að líta út áratug síðar. Lög eins og 2112, La Villa Strangiato og Cygnus X-1 voru með löngum söngvaralausum köflum eins og tíðkast í framsæknu rokki en á milli þeirra voru ofstopafyllri kaflar af þungarokki. Seinna meir fóru rokkhljómsveitir að nota hugmyndir úr þessum köflum til þess að búa til heilu lögin. Deep Purple er dæmi um þungarokkshljómsveit sem tók upp á því að búa til lengri lög sem fylgdu ekki venjulegum reglum um lagaform.

King Crimson og Rush eru oft nefndir sem helstu áhrifavaldar af tónlistarmönnum innan progmetal geirans en einnig ber að nefna hljómsveitina Iron Maiden sem hafði tvo gítarleikara en það er algengt meðal progmetal-listamanna.

Stefna verður til

breyta
 
Ray Alder söngvari Fates Warning

Á 8. áratugnum var um einstök lög eða plötur sem fylgdu þessari óskilgreindu tónlistarstefnu að ræða en ekki voru beinlínis til hljómsveitir sem hægt var að kalla hreinræktaðar progmetal hljómsveitir. Undir lok 9. áratugarins fóru hins vegar að koma fram hljómsveitir sem voru aðallega progmetal hljómsveitir. Þrjár hljómsveitir sem komu fram um þetta leyti hafa oft verið nefndar risarnir þrír en þær eru Queensrÿche, Fates Warning og Dream Theater. Queensrÿche gaf út plötuna Operation: Mindcrime árið 1988 en hljómsveitin hafði þá þegar gefið út þrjár plötur. Operation: Mindcrime er talin vera merkasta verk hljómsveitarinnar ásamt plötunni Empire. Queensrÿche hallaðist meira að framsækna hlutanum með glaðlegum og grípandi lögum sem samt höfðu ágenga kafla sem þungarokks-áheyrendurnir höfðu gaman af. Hljómsveitin Dream Theater náði miklum vinsældum með plötunni Images and Words árið 1992 og þá helst með laginu Pull Me Under. Þessar tvær hljómsveitir náðu vinsældum hjá breiðum hópi fólks og voru tónlistarmyndbönd þeirra spiluð á MTV en Fates Warning varð ekki jafn fræg. Hún komst í 191. sæti á Billboard top 200-listanum með þriðju plötunni sinni Awaken the Guardian en það hæsta sem sú hljómsveit komst á þann lista var í 111. sæti með plötunni No Exit sem kom út árið 1988. Fates Warning var þyngst af þessum þremur hljómsveitum þar sem hljómsveitin komst nær því að vera þungarokk heldur en framsækið rokk. Á plötunni No Exit var lagið The Ivory Gates sem er 20 mínútna langt lag og er talið vera framsæknasta verk sveitarinnar.

Á þessum tíma voru einnig aðrar hljómsveitir að semja lög sem hægt væri að skilgreina sem framsækinn málm eins og hljómsveitin Death sem lagði grunn að dauðarokki og tæknilegu dauðarokk-senuna. Einnig má nefna Metallica sem er líklegast frægasta þungarokkshljómsveit í heimi en má telja plötur hennar seint á 9. áratugnum til framsækins þungarokks.

1990 – 2000

breyta
 
Jordan Rudess hljómborðsleikari lengst til vinstri, Mike Portnoy trommuleikari í miðjunni og John Petrucci gítarleikari lengst til hægri

Þó að framsækið þungarokk væri og sé enn í dag fyrst og fremst tónlistarstefna á einstökum plötum og lögum jukust vinsældir þess vegna risanna þriggja. Í kjölfar þeirra komu fram aðrar framsæknar málm-hljómsveitir. Á árunum 1990 – 2000 birtust hljómsveitir eins og Porcupine Tree, Mr. Bungle, Meshuggah, Tool, Muse, Symphony X, Liquid Tension Experiment, Nile og Primus sem hver og ein hafði sinn eigin stíl þótt þær væru allar framsækinn málmur. Hljómsveitin Symphony X blandaði saman power metal og klassískri tónlist. Tool gerði tilraunir með að nota öðruvísi hljóðfæri, furðulega taktvísa og texta með óhefbundnu innihaldi líkt og tónlistarmenn alternative-stefnu gerðu. Les Claypool úr hljómsveitinni Primus notar slap tækni á bassann sinn til þess að búa til eins konar funk-útgáfu af framsæknum málmi sem hann kallar sjálfur sveitalubbametal. Porcupine Tree hefur notið vinsælda fyrir að halda ekki sterklega í þungarokkið og blanda framúrstefnu og popptónlistarhugmyndum inn í lögin sín. Liquid Tension Experiment var hljómsveit sem Mike Portnoy trommuleikari úr Dream Theater myndaði með John Petrucci gítarleikara úr Dream Theater, Jordan Rudess hljómborðsleikara sem seinna varð hljómborðsleikari í Dream Theater og Tony Levin bassaleikara úr King Crimson. Hugmyndin var að búa til súpergrúppu sem væri ekki með neinum söngvara heldur snerist mest um að sýna fram á hæfileika hljóðfæraleikaranna með sólóum. Hljómsveitir eins og Muse og 30 Seconds to Mars náðu vinsældum meðal almennings upp úr árinu 2000 en hljómsveitir eins og Nile voru oftar skilgreindar sem dauðarokk þrátt fyrir að uppfylla skilyrði framsækins málms.

Undirflokkar

breyta
 
Fredrik Thordendal gítarleikari og stofnandi hljómsveitarinnar Meshuggah

Um þetta leyti varð hugtakið progmetal töluvert víðara og fór stefnan þess vegna að skiptast niður í nokkra undirflokka. Kringum miðju 10. áratugarins og í byrjun 21. aldarinnar fóru framsæknar þungarokkssveitir að nota hugmyndir úr nútíma klassískri tónlist og frjálsum djassi og fóru ákveðnir tónlistarflokkar að myndast úr vissum hugmyndum, tónlistarstefnur eins og mathmetal og djent. Hljómsveitin Meshuggah spilaði lykilhlutverk í tilkomu djents sem er undirflokkur framsækins málms og hefur náð einhverjum vinsældum meðal metal tónlistamanna á seinustu tíu árum. Meshuggah gaf út plötuna Contradictions Collapse árið 1991 og síðan þá hefur hljómsveitin þróað tónlist sína mjög en haldið í það að byggja alla tónlist sína á taktinum 4/4. Hljómsveitin gerir lög sem hægt er að skrifa út í tveimur taktvísum þar sem einn þeirra er 4/4 og hinn er breytilegur. Algengast er fyrir tónlistarmenn á þessu sviði er að láta söngvarann og hendur trommuleikarans fylgja 4/4 á meðan afgangur hljómsveitarinnar spilar í öðrum taktvísi með jafnt nótnagildi sem veldur því að taktarnir skerast en mættast aftur á öðrum stöðum í laginu. Sem dæmi má taka lagið Bleed með Meshuggah þar sem er hægt að skrifa lagið út í 4/4 og í 3/16. Í kjölfar Meshuggah hafa komið nokkrar aðrar djent-hljómsveitir svo sem Tesseract, Animals as Leaders, Textures, Veil of Maya, A life Once Lost, Vildhjarta, Xerath og Periphery en segja má að þessi stefna hafi ekki komið almennilega upp á yfirborðið fyrr en um 2011.

Hljómsveitin Mr. Bungle var stofnuð árið 1985 og gaf út fyrstu plötuna sína árið 1991. Eftir það gaf hljómsveitin út tvær plötur í viðbót árin 1995 og 1999. Önnur plata hljómsveitarinnar heitir Disco Volante og er hún talinn vera tímamótaplata í tilraunakenndari kanti framsækins þungarokks. Á þeirri plötu skipti hljómsveitin oft um tónlistarstefnur í miðju lagi. Til dæmis í laginu Sleep part II fer hljómsveitin úr þungarokki í pönk í djass í suðræna tónlist svo eitthvað sé nefnt.

Framúrstefnulega þungarokkshljómsveitin Celtic Frost frá 9. áratugnum blandaði saman þrassi, sinfónísku þungarokki og gotneskt þungarokki sem er einkennandi fyrir hljómsveitir sem skilgreina má sem tilraunakennt framsækið þungarokk. Hljómsveitin The Mars Volta hefur náð miklum vinsældum með því að blanda saman latneskri tónlist, þungarokki og framsæknu rokki ásamt því að vera með fastan slagverksleikara og saxófónleikara.

Listi yfir framsæknar þungarokkshljómsveitir

breyta

(Listinn er ekki tæmandi)

Heimildir

breyta