Þungarokk

tónlistarstefna

Þungarokk, stundum kallað bárujárnsrokk eða metal(l), er tegund rokktónlistar sem mótaðist seint á 7. áratug 20. aldar.

Tony Iommi úr Black Sabbath er þekktur fyrir að vera frumkvöðull í þungarokksgítarriffum.
Metallica er ein vinsælasta þungarokkshljómsveit heims.
Ronnie James Dio var meðal annars þekktur fyrir að gera djöflahornsmerki vinsælt.
Kiss eru þekktir fyrir skrautlega sviðsframkomu.
Iron Maiden á tónleikum.
Children of Bodom frá Finnlandi.
Dimmu Borgir frá Noregi spila svartmálm.
Heri Joensen, gítarleikari í færeysku þungarokksveitinni Týr.

Söguágrip

breyta

Þungarokk á rætur sínar í blúsrokki og ýmis konar öðru rokki. Þróunin, aðallega Bretlandi, hefur haft mikið með tónlistarstefnuna að segja en einnig voru áhrifamiklar hljómsveitir vestanhafs. Á 7. áratug 20. aldar voru hljómsveitir undir áhrifum frá amerískum blús en urðu taktfastari og mögnuðu upp hljóðfæri sín. Hljómsveitir eins og The Kinks, The Who, Jimi Hendrix, Steppenwolf, Blue Cheer, Cream og The Jeff Beck Group komu með nýjar hugmyndir og höfðu áhrif á síðari hljómsveitir. Steppenwolf kom með setninguna; heavy metal thunder, í lagi sínu Born to be Wild árið 1968. Síðar fóru blaðamenn í tímaritinu Rolling Stone að nota hugtakið heavy metal reglulega. Á 8. áratugnum var það notað sem skammaryrði yfir hávaðasöm bönd en síðar varð það hlutlausara og átti við tiltekinn lífstíl og tónlist. [1]

Litið er þó yfirleitt á hljómsveitirnar Black Sabbath, Led Zeppelin og Deep Purple sem fyrstu þungarokkshljómsveitirnar. Þær byggðu tónlist sína á þéttu gítarspili með bjögunareffektum, hröðum gítarsólóum og kröftugum trommuleik og söng.

Á 8. áratugnum hófu amerískar hljómsveitir að gera rokk af harðara kantinum aðgengilegra og voru með litríka sviðsframkomu. Sveitir eins og Aerosmith, Van Halen, Alice Cooper og Kiss voru áberandi í þeim geira. AC/DC (stofnuð 1973) frá Ástralíu kom með sína hörðu útgáfu af blúsrokki.

Undir lok 8. áratugarins komu fram nýjar hljómsveitir í Bretlandi. Þessi nýja bylgja (þekkt sem breska nýbylgjan í þungarokki, enska: New wave og british heavy metal/NWOBHM ) skapaði hljómsveitir eins og Judas Priest, Iron Maiden og Motörhead. Þessar hljómsveitir höfðu aftur á móti áhrif á nýja nálgun í vesturheimi í upphafi 9. áratugarins þar sem hraði var eitt helsta einkennið: Þrass (thrash metal) varð til með sveitum eins og Metallica, Megadeth, Slayer og Anthrax. Textagerðin varð öfgakenndari og þrasshljómsveitirnar vildu enn fremur aðskilja sig frá glysþungarokki sem var áberandi á sama tíma.

Á 9. áratugnum náði aðgengilegra form þungarokks töluverðum vinsældum. Bönd eins og til dæmis Guns N' Roses og Europe komust hátt á vinsældalista. Á 9. áratugnum varð einnig til ný jaðarstefna, dauðarokk með hljómsveitum eins og Death, Possessed og Morbid Angel.

Árið 1991 náði svarta plata Metallica miklum vinsældum en þá hafði sveitin farið í melódískari ájt og árið 1994 komst platan Far Beyond Driven með Pantera á toppinn á Billboard listanum í Bandaríkjunum þó sú plata hafi verið talsvert þungt rokk.[2]

Vinsældir hefðbundnara þungarokks dvínuðu með gruggi sem varð til í Seattle í byrjun 10. áratugarins. Grugg var undir áhrifum frá ýmsu þungarokki og hefur stundum verið talið til jaðarþungarokks. Á 10. áratugnum komu einnig fram nýjar stefnur eins og jaðarþungarokk og nu metal sem blönduðu þungarokki við aðrar tónlistarstefnur. Rage Against The Machine, Korn, Deftones, Limp Bizkit og System of a Down fundu áhrif í rappi og hipphoppi. Ýmsar aðrar undirtegundir urðu til og meðal annars má nefna framsækið þungarokk þar sem hljómsveitir fóru ýmsar leiðir í flóknum útsetningum tónverka og kraftmálm (power metal), sem náði miklum vinsældum í Þýskalandi. Þar er sótt í brunn klassísks þungarokks en stíllinn er hraður og textar fantasíukenndir.

Til eru ótal afbrigði af þungarokki í dag og samsuður ýmissa stefna innan og utan þess.

Tónlistarstefnan hefur verið umdeild. Gagnrýnendur hafa afskrifað það sem yfirgengilegan ungæðishátt og íhaldsamir hópar hafa mótmælt textagerð sem þeir telja vera af hinu illa og hafa skaðleg áhrif.[3]

Undirgreinar

breyta

(Listinn er ekki tæmandi)

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Vísindavefur - Hver er saga þungarokksins?

Tilvísanir

breyta
  1. Black Sabbath: 'We hated being a heavy metal band' BBC. skoðað 9. feb. 2016
  2. Pantera Allmusic. Skoðað 28. apríl, 2016.
  3. Heavy metal Allmusic. Sótt 23. apríl 2016.