Dauðarokk er undirstefna þungarokksins. Dauðarokkið þróaðist út frá þrassi og fyrstu svartmálmshljómsveitanna á miðjum níunda áratugnum.

Dauðarokk er, í einfaldri mynd, öfgakennt þungarokk. Það einkennist af miklum bjögunarhljóm úr gíturunum, mjög hraðri endurtekinni skiptingu milli tveggja tóna (e. tremolo picking), djúpum öskrum söngvarans, mjög hröðum trommum, molltónum og oftar en ekki tóntegundaleysi (tónsmíði sem ekki byggist á tóntegund eða tóntegundum) og flóknum lögum með mörgum og flóknum taktbreytingum.

Frumkvöðlar stefnunnar eru taldir vera bandarísku hljómsveitirnar Death og Possessed en þær þróuðu tónlist sína út frá þrass- hljómsveitum á borð við Slayer og Kreator og frum-svartmálmshljómsveitum á borð við Celtic Frost og Venom. Hljómsveitirnar Obituary, Carcass, Deicide og Morbid Angel eru einnig taldar meðal frumkvöðla stefnunnar en hafa þó ekki haft jafn mikil áhrif og hinar fyrrnefndu.

Uppruni

breyta

Ef að nefna ætti tvær hljómsveitir, sem höfðu hvað mest áhrif á þróun fyrstu dauðarokkshljómsveitanna, væru það sveitirnar Venom og Slayer. Venom, ásamt því að vera frumkvöðlar svartmálms, höfðu einnig áhrif á þrassið og dauðarokkið. Fyrstu tvær plötur þeirra eru taldar áhrifamestar, það er að segja Welcome to Hell, frá 1981 og Black Metal, frá 1982, en frá þeirri síðarnefndu er enska nafn svartmálmsins tekið. Tónlistin þeirra einkenndist af myrkum og hráum tón í bland við hrjúfan söng og ógnvekjandi texta. Textarnir voru þá einkum um djöfladýrkun en það féll vel í kramið hjá öfgakenndum þungarokkshljómsveitum. Hljómsveitin Slayer var stofnuð árið 1981 og spiluðu þrass eins og margar frægar hljómsveitir frá þessum tíma, t.d. Metallica og Megadeth. Tónlistin þeirra var þó mun ofbeldisfyllri og hraðari og var því góður grunnur fyrir fyrstu dauðarokkssveitirnar. Textarnir þeirra voru þá einnig í samræmi við fyrstu dauðarokkssveitirnar, það er að segja um dauða, ofbeldi, stríð og djöfladýrkun. Þriðja plata Slayer, Reign in Blood, á að hafa veitt fyrstu dauðarokkurunum mikinn innblástur og hafði mikil áhrif á frumkvöðla stefnunnar.

Um miðjann níunda áratuginn komu svo fram áhrifamestu dauðarokkssveitirnar, Possessed og Death. Possessed var stofnuð í San Francisco árið 1983. Hún er kölluð fyrsta dauðarokkssveitin fyrir hröðu og þungu lögin sín í bland við kokhljóðum söngvarans, Jeff Beccerra. Nafn stefnunnar er einnig talið koma frá Possessed en fyrsta smáskífa sveitarinnar bar nafnið Death Metal. Hún kom út árið 1984. Aðeins ári seinna kom svo út þeirra fyrsta breiðskífa, Seven Churches. Hún er talin vera fyrsta dauðarokksplatan og jafnframt sú plata sem tengdi þrass við dauðarokkið. Söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar segir þá hafa verið undir miklum áhrifum frá Venom, ensku þungarokkssveitinni Motörhead og bandarísku þrass-sveitinni Exodus.

Hljómsveitin Death, sem hét upprunalega Mantas, var dauðarokkshljómsveit stofnuð í Flórída árið 1983. Death er talin vera ein áhrifamesta þungarokkshljómsveit allra tíma og frumkvöðlar í dauðarokks og mulningskjarna (e. grindcore) senunum. Fyrstu plötu þeirra, Scream Bloody Gore sem kom út árið 1987, hefur verið lýst sem hinni fyrstu sönnu dauðarokksplötu. Forsprakki sveitarinnar, Chuck Schuldiner, hefur verið kallaður faðir dauðarokksins og einnig hinn sanni upphafsmaður stefnunnar. Death eiga sér enn mjög stóran aðdáendahóp þrátt fyrir andlát Chucks árið 2001 og upplausn sveitarinnar sem fylgdi í kjölfarið. Tölur frá 2008 herma að plötur hljómsveitarinnar hafa selst í yfir tveimur milljónum eintaka og af þeim eru yfir 500.000 seldar aðeins í Bandaríkjunum. Cannibal Corpse er eina dauðarokkssveitin sem hefur selt fleiri plötur en Death í Bandaríkjunum.

Auknar vinsældir og þróun stefnunnar

breyta

Eftir velgengni Possessed og Death fóru margar hljómsveitir að feta sig í fótspor þeirra. Mikið varð um dauðarokkssveitir í Flórída, en þaðan eru Death komnir og því skiljanlegt að margir þar vilji spreita sig áfram í dauðarokkinu. Hljómsveitir á borð við Obituary, Morbid Angel og Deicide spruttu upp og nutu brátt vinsælda innan senunnar. Þær eru starfandi enn þann dag í dag og eiga enn stóran aðdáendahóp. Dauðarokk breiddist út um allan heim, en meðal þeirra sem tóku mjög vel í hana voru Svíar. Þaðan spruttu margar hljómsveitir sem áttu eftir að hafa áhrif á stefnuna, sveitir á borð við Carnage, God Macabre, Entombed, Dismember og Unleashed. Þar þróuðust svo í kjölfarið fyrstu böndin sem aðhylltust melódískt dauðarokk. Stefnan kallaðist Gautaborgar-þungarokk (e. Gothenburg Metal) í Svíþjóð vegna þess að þar þróaðist stefnan og blómstraði hvað mest. Hljómsveitir á borð við Dark Tranquillity, At the Gates og In Flames urðu mjög vinsælar innan Gautaborgar stefnunnar. Alþjóðlega kallast þessi stefna þó bara melódískt dauðarokk og varð vinsæl meðal þungarokkara í Bandaríkjunum og víðar.

Undirgrein dauðarokkins, mulningskjarni varð einnig vinsæll í kjölfar dauðarokksins. Stefnan var gerð fræg af breskum hljómsveitum á borð við Napalm Death, og fyrri plötum hljómsveitanna Bolt Thrower og Carcass.

Á seinni plötum Death byrjaði hljómsveitin að færa sig yfir á meiri faglegra og tæknilegra svið en sást á fyrri plötum þeirra. Þeir lögðu því ekki aðeins grunninn að venjulega dauðarokkinu heldur einnig að enn annarri undirgrein þess, sem kallast tæknilegt dauðarokk (e. technical death metal), en gengur einnig undir nafninu framsækið dauðarokk (e. progressive death metal). Í þeirri stefnu eru áherslur lagðar á enn flóknari takta og gítarriff í flóknari uppsetningu en áður hafði heyrst. Tilfinningaþrungin gítarsóló heyrast einnig mjög oft í tæknilegu dauðarokki, í bland við þungar og flóknar gítarlínur, hraðar trommur og hin einkenni dauðarokksins.

Dauðarokkið og undirgreinar þess njóta enn vinsælda í dag meðal þungarokkara, þrátt fyrir að hafa aldrei notið neinnar meginstraumsathygli né neinnar almenningshylli af viti.

Undirstefnur

breyta
  • Melódískt dauðarokk: Skandinavískt dauðarokk, þá aðallega Gautaborgarþungarokkið, er oftast talið vera upphaf melódísku dauðarokkssenunnar. Stefnan er samblanda af dauðarokki og þungarokki. Takturinn er oftast hægari en í venjulegu dauðarokki og mun meiri melódía er í lögunum. Öskur eru ofast notuð í því en þau eru hærri og skrækari en djúpu kokhljóðin og urrin sem venjulegir dauðarokks söngvarar gefa frá sér. Einnig notast sumar melódískar dauðarokkshljómsveitir við venjulegan og hreinan söng, í bland við öskrin. Breska sveitin Carcass, sem byrjaði sem mulningskjarnahljómsveit, er oftast talin hafa gefið út fyrstu melódískudauðarokks plötuna, fyrir utan skandinavísku hljómsveitirnar, en það er platan Heartwork] sem kom út árið 1993. Meðal hljómsveita stefnunnar er hægt að nefna At the Gates, In Flames, Dark Tranquillity, Carcass, Amorphis , Arch Enemy og Amon Amarth.
  • Tæknilegt dauðarokk: Í þessari stefnu eru áheyrslur lagðar á enn flóknari takta og gítarriff í flókinni uppsetningu. Tilfinningaþrungin gítarsóló heyrast mjög oft í tæknilegu dauðarokki, í bland við þungar og flóknar gítarlínur, hraðar trommur og hin einkenni dauðarokksins. Hljómsveitir sem heyra undir þessa stefnu blanda oft öðrum tónlistarstefnum við tónlistina, svo sem framsæknu rokki (e. progressive Rock), djazzi og klassískri tónlist. Meðal hljómsveita sem aðhyllast þessari stefnu má nefna Decapitated, Cryptopsy, Edge of Sanity, Origin og Sadist. Meðal hljómsveita sem blanda klassískri tónlist við stefnuna er hægt að nefna Necrophagist, Spawn of Possession og Fleshgod Apocalypse en hljómsveitir á borð við Cynic, Atheist, Pestilence og Gorguts eru undir áhrifum frá djazzi.
  • Mulningskjarni: Mulningskjarni er stefna sem er blanda af dauðarokki, iðnaðar tónlist (e. industrial Music), stefnunni hávaði (e. noise) og mjög öfgakenndu harðkjarnapönki (e. hardcore Punk). Tónlistin einkennist af mjög bjöguðum, hráum og niður-stilltum gítarhljómi, hröðum takti og óskiljanlegum urrum og kokhljóðum eða öskrum í hárri tónhæð. Annað frægt einkenni stefnunnar eru virkilega stutt lög, en þau styðstu eru aðeins nokkrar sekúndur að lengd. Hljómsveitin Napalm Death á heimsmetið fyrir styðsta lag í heimi en það er lagið „You Suffer“ sem er aðeins ein sekúnda að lengd. Efni texta mulningskjarna hljómsveita nær frá pólitískum efnum yfir í blóðsúthellingar og annað ógeðfellt efni. Meðal hljómsveita sem aðhyllast stefnunni má nefna Napalm Death, fyrri plötur Carcass og Bolt Thrower, Brutal Truth og Nasum.
  • Svart-dauðarokk (e. blackened death metal): er stefna sem blandar saman svartmálmi og dauðarokki. Oft má heyra í hljómsveitum sem falla ekki alveg undir dauðarokkið né undir svartmálm, og eru því skilgreindar af þungarokkssamfélaginu sem svart-dauðarokks sveitir. Þær einkennast þá af nokkrum einkennum hvorrar stefnu fyrir sig eftir því sem þeim finnst hljóma vel saman. Hljómsveitir á borð við Belphegor, Behemoth, Akercocke, Svart Crown og Sacramentum falla undir þessa undirgrein dauðarokksins og svartmálmsins.
  • Sinfónískt dauðarokk: Sinfónískt dauðarokk (e. symphonic death metal) er stefna sem hefur verið að stækka nú á seinustu árum. Stefnan tekur til sín einkenni úr dauðarokkinu og svo hin sinfónísku einkenni sinfóníska þungarokksins (e. symphonic metal). Lögin verða því oftast mjög þung og hörð en á sama tíma hljómar tilfinningaþrungin, sinfónísk tónlist með, þá ofast nær spiluð á hljómborð á tónleikum en í stúdíói er oft notast við alvöru hljóðfæri til þess að fá sem bestan tón. Af hljómsveitum sem aðhyllast sinfónískt dauðarokk má nefna Septic Flesh, Nightfall og Eternal Tears of Sorrow.

Heimildir

breyta