Innrásin í Svínaflóa

misheppnuð innrás í Kúbu árið 1961

Innrásin í Svínaflóa (Invasión de Playa Girón á spænsku; Invasion of the Bay of Pigs á ensku) var misheppnuð innrás í Kúbu þann 17. apríl 1961. Innrásarmennirnir voru gagnbyltingarhersveit pólitískra útlaga frá Kúbu (Brigade 2506) sem nutu stuðnings bandarísku leyniþjónustunnar og nokkurra bandarískra hermanna.[1] Með þjálfun og fjárstyrk frá bandarísku leyniþjónustunni réðst hersveitin að byltingarher Kúbu og ætlaði sér að steypa af stóli ríkisstjórn Fidels Castro, sem var farin að taka á sig æ kommúnískari mynd. Innrásarherinn kom til Kúbu frá Gvatemala og Níkaragva en var sigraður innan þriggja daga af kúbverska byltingarhernum undir stjórn Castro.

Innrásin í Svínaflóa
Hluti af kalda stríðinu

Kúbverskir hermenn ásamt skriðdrekum gera árás á Svínaflóa þann 19. apríl, 1961.
Dagsetning17.–20. apríl 1961
Staðsetning
Svínaflói á suðurströnd Kúbu
Niðurstaða Kúbverskur sigur.
Stríðsaðilar
Fáni Bandaríkjana Bandaríkin
Fáni Kúbu Kúbverskir andspyrnumenn
Fáni Kúbu Kúba
Leiðtogar

Fjöldi hermanna
1.500 landgönguliðar
8 bandarískar sprengjuflugvélar
5 birgðaskip
Fáni Kúbu 25.000 kúbverskir hermenn
Fáni Kúbu 200.000 varahermenn
9.000 vopnaðir lögreglumenn
Mannfall og tjón
Kúbverskir andspyrnumenn:
118 drepnir
360 særðir
1.202 handsamaðir

Bandaríkjamenn:
4 drepnir
2 flugvélar skotnar niður
2 skipum sökkt
Kúbverskir hermenn:
176 drepnir
500+ særðir

Kúbverskir varahermenn:
2.000 drepnir og særðir

Árið 1952 hafði Fulgencio Batista hershöfðingi, bandamaður Bandaríkjanna, framið valdarán gegn Carlos Prío Socarrás forseta Kúbu og rekið Prío í útlegð til Miami. Valdaránið gegn Prío var ástæðan fyrir byltingarhreyfingunni sem Castro stofnaði. Byltingarher Castro tókst ekki að ná völdum frá Batista fyrr en eftir kúbversku byltinguna þann 31. desember 1958. Castro batt enda á náið bandalag Kúbverja við Bandaríkin þegar hann þjóðnýtti ýmsar viðskiptastofnanir Bandaríkjamanna á Kúbu (þ. á m. banka, sykur- og kaffiplantekrur).

Eftir byltinguna stofnaði Castro þess í stað til náinna efnahagsbanda við Sovétríkin. Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseti óttaðist stefnuna sem stjórn Castro virtist ætla að taka og varði því árið 1960 13,1 milljónum Bandaríkjadala til þess að skipuleggja valdarán gegn Castro. Bandaríska leyniþjónustan hófst handa við að skipuleggja innrás í Kúbu í samstarfi við ýmis kúbversk gagnbyltingaröfl og þjálfaði hersveitir þeirra í Gvatemala. Eftirmaður Eisenhowers, John F. Kennedy, samþykkti fullgerða innrásaráætlun þann 4. apríl 1961.

Rúmlega 1400 fallhlífaliðar komu saman í Gvatemala og lögðu af stað til Kúbu á bátum þann 13. apríl 1961. Tveimur dögum síðar gerðu bandarískar sprengjuflugvélar árás á kúbverskar flugstöðvar og sneru síðan aftur til Bandaríkjanna. Nóttina 16. apríl gekk innrásarherinn á land á ströndinni Playa Girón í Svínaflóa. Í fyrstu vann innrásarherinn bug á kúbverska byltingarhernum. José Ramón Fernández var foringi kúbverska gagnáhlaupsins þar til Fidel Castro ákvað að taka sjálfur við stjórnartaumum hersins. Þegar öllum varð ljóst að Bandaríkin stæðu að baki innrásinni og bardagarnir fóru að snúast Kúbverjum í vil ákvað Kennedy að hætta að senda flugvélar til stuðnings innrásarmönnunum.[2] Því hafði innrásarliðið aðeins um helming þess mannafla sem bandaríska leyniþjónustan hafði gert ráð fyrir. Innrásaráætlunin sem stjórn Eisenhowers hafði gert gerði ráð fyrir stuðningi bæði á sjó og í lofti. Þann 20. apríl gáfust innrásarmennirnir upp og voru flestir fangelsaðir og yfirheyrðir.

Innrásin misheppnaða styrkti mjög stöðu Castro og gerði hann að þjóðhetju. Aftur á móti eyðilagði hún samband Kúbu við Bandaríkin og aðra fyrrverandi bandamenn hennar en styrkti samband Kúbu við Sovétríkin. Þetta leiddi að endingu til Kúbudeilunnar árið 1962. Innrásin þótti mikið klúður í utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Tilvísanir

breyta
  1. „Bay of Pigs Invasion and the Alabama Air National Guard | Encyclopedia of Alabama“. Encyclopedia of Alabama (enska). Sótt 20. nóvember 2017.
  2. „Archived copy“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. febrúar 2016. Sótt 17. maí 2016.