Gestapo
Gestapo (stytting á Geheime Staatspolizei eða „Leynilögregla ríkisins“[1]) var leyniþjónusta Þýskalands nasismans og Evrópu undir hernámi nasista í seinni heimsstyrjöld.
Hermann Göring, þáverandi innanríkisráðherra Prússlands, stofnaði Gestapo árið 1933 sem deild innan prússnesku lögreglunnar.[2] Í upphafi var Gestapo persónulegt valdatæki sem Göring notaði til að ofsækja pólitíska andstæðinga sína. Frá og með 20. apríl 1934 var Gestapo stýrt af leiðtoga SS-sveitanna, Heinrich Himmler, sem var útnefndur foringi lögreglusveita í Þýskalandi árið 1936. Gestapo var þá að breytast í ríkisstofnun og undirdeild Sicherheitspolizei (Öryggislögreglunnar) frekar en að vera prússnesk héraðsstofnun. Frá og með 27. september 1939 var Gestapo stjórnað af öryggisstofnuninni Reichssicherheitshauptamt og var talin systurstofnun SS-öryggisþjónustunnar. Gestapo var falið að uppræta raunverulega og meinta andófsmenn innan og utan Þýskalands og andspyrnuhreyfingar á svæðum sem Þjóðverjar lögðu undir sig í stríðinu. Með grimmdarverkum sínum varð Gestapo þekkt fyrir hrottaskap og valdníðslu. Gestapo lék jafnframt lykilhlutverk í framkvæmd Helfararinnar, sér í lagi í gegnum B4-skrifstofuna sem Adolf Eichmann fór fyrir.
Gestapo var virk fram á síðustu daga nasistastjórnarinnar en stofnunin var fordæmd sem glæpasamtök í Nürnberg-réttarhöldunum.
Tilvísanir
breyta- ↑ Miller, Michael (2006). Leaders of the SS and German Police, Vol. 1. R. James Bender Publishing, bls. 502.
- ↑ „Hvað var Gestapo og hvað gerðu menn þar?“. Vísindavefurinn.