Bolungarvík
Bolungarvík er kaupstaður á Vestfjörðum og sjálfstætt sveitarfélag, við samnefnda vík, yst í Ísafjarðardjúpi. Hún er ein elsta verstöð landsins og er stutt í góð fiskimið. Áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi hét sveitarfélagið Hólshreppur. Þann 1. maí 2023 var íbúarfjöldi Bolungarvíkur 1003 manns. Bolungarvík er næstfjölmennasti bærinn á Vestfjörðum og þriðja fjölmennasta sveitarfélagið á eftir Vesturbyggð (1013 íbúar) og Ísafjarðarbæ(3623 íbúar).
Bolungarvíkurkaupstaður | |
---|---|
Hnit: 66°09′27″N 23°15′03″V / 66.15750°N 23.25083°V | |
Land | Ísland |
Kjördæmi | Norðvesturkjördæmi |
Þéttbýliskjarnar | Bolungarvík |
Stjórnarfar | |
• Bæjarstjóri | Jón Páll Hreinsson |
Flatarmál | |
• Samtals | 108 km2 |
• Sæti | 54. sæti |
Mannfjöldi (2024) | |
• Samtals | 989 |
• Sæti | 36. sæti |
• Þéttleiki | 9,16/km2 |
Póstnúmer | 415 |
Sveitarfélagsnúmer | 4100 |
Vefsíða | bolungarvik |
Staðhættir
breytaBolungarvík er nyrsta byggð við sunnanvert Ísafjarðardjúp. Handan Djúpsins blasa við Vébjarnarnúpur, Jökulfirðir og Grænahlíð. Við austanverðan bæinn er mikil sandfjara sem nefnist sandur og nær hann að Ósánni sem stendur við sveitabæinn Ós undir Óshyrnu. Víkin sem bærinn Bolungarvík stendur við er að mestu umlukin háum og bröttum fjöllum. Fjallið Traðarhyrna gnæfir yfir kaupstaðnum og er mestur hluti byggðarinnar undir því. Nokkur snjóflóðahætta er úr fjallinu og hafa þar verið reistir snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki. Fjallið Ernir er fyrir miðri Víkinni, en úr honum falla oft firnamikil snjóflóð. Norðan við hann er Tungudalur og Hlíðardalur gengur inn úr honum. Sunnan Ernis gengur Syðridalur, en í honum er Syðridalsvatn. Óshyrna er ysti hluti Óshlíðar þar sem áður var samgönguleið Bolvíkinga. Í Óshyrnu er þekktur klettur sem kallaður er Þuríður og er hann kenndur við landnámskonuna Þuríði sundafylli. Undir Óshyrnu er Ósvör en þar var fyrr á öldum mikil verstöð sem hefur verið endurgerð og er þar nú verbúð og minjasafn.
Saga
breytaÞað hefur verið byggð í Bolungarvík allt frá landnámsöld og býlið Hóll kemur fyrir í elstu heimildum. Hóll var höfuðból frá því um miðja 13. öld og er líklega fyrsta jörðin í byggðalaginu. Þar sem kaupstaðurinn Bolungarvík stendur núna voru áður jarðirnar Tröð, Ytri Búðir, Heimari-Búðir og Grundarhóll. Jörðin Tröð var áður undir fjallshlíðinni fyrir ofan Traðar- og Dísarland. Seinasta íbúðarhúsið í Tröð stendur ennþá við Traðarland.
Bolungarvík var ein helsta verstöð í Ísafjarðardjúpi allt fram á 20. öld. Róið var frá Bolungarvíkurmölum og svonefndum Grundum og úr Ósvör. Á 17. öld munu 20-30 skip hafa róið úr Bolungarvík og um aldamótin 1900 réru um 90 skip þaðan. Margar verbúðir voru í Bolungarvík en þar mun aldrei hafa risið eiginlegt sæbýlahverfi. Í byrjun 18. aldar voru 18 verbúðir í víkinni.
Það var Þuríður sundafyllir sem nam land í Bolungarvík, en til er skemmtileg saga um það hvernig hún varð seinna að steini. Þuríður átti soninn Völustein og eru til götur í Bolungarvík sem heita eftir þeim mæðginum.
Mönnuð veðurathugunarstöð hefur verið í Bolungarvík frá 1994.
Samgöngur í Bolungarvík
breytaSamgöngur Bolvíkinga landleiðina hafa löngum verið erfiðar og þar hafa orðið fjölmörg slys. Lengst af var farið um Óshlíð, sem er hættuleg leið, brött og skriðurunnin og hafa þar orðið fjölmörg slys á fólki. Fyrr á öldum var farið gangandi eftir götuslóða í hlíðinni. Fyrir aldamótin 1900 var slóðinn ruddur og reynt að halda honum við eftir það. Vegna grjóthruns og sjávarrofs reyndist það erfitt. Á vetrum var vegurinn ófær vegna svellalaga og snjóflóða og neyddist fólk þá til að feta fjöruna. Byrjað var að ryðja bílveg um Óshlíð 1946 og var hann tekinn í notkun haustið 1949. Þar með var komið á vegasamband við Ísafjörð og tenging við þjóðveginn. Óshlíðarvegur þurfti mikið viðhald og var hættuleg og ótrygg samgönguleið. Mikið framfaraskref var því tekið þegar Bolungarvíkurgöng, sem tengja saman Bolungarvík og Hnífsdal, voru tekin í notkun 25. september 2010.[1][2]
Myndasafn
breyta-
Bolungarvík, Traðarhyrna í baksýn
-
Bolungarvík, Óshyrna í baksýn
-
Kort af Ísafjarðardjúpi
-
Óshólaviti við Bolungarvík
-
Minjasafnið "Ósvör", fjallið Ernir í baksýn
-
Fiskhjallur í Ósvör
-
Óshlíðarvegur utan við Steinsófæru
-
Bolungarvíkurgöng (Óshlíðargöng) séð frá Hnífsdal
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- http://www.ruv.is/node/131829[óvirkur tengill] Vefur ruv (frétt/ Bolungarvíkurgöng opnuð í dag), 20. september
- http://andvari.vedur.is/~tj/rymingargrg/bolungarvik9705.html Geymt 4 september 2007 í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni Greinargerð um snjóflóðaaðstæður vegna rýmingarkorts fyrir Bolungarvík
- http://www.vedur.is/gogn/snjoflod/ryming/yfirlitskort/bo[óvirkur tengill] Yfirlitskort vegna snjóflóðahættu (Veðurstofan)
- http://www.timarit.is/?issueID=433706&pageSelected=3&lang=0
- Örnefnaskrá (Skrá yfir örnefni í Bolungarvík)
Tilvísanir
breyta- ↑ Ásgeir Jakobsson, Einars saga Guðfinnssonar, Skuggsjá, 1978
- ↑ Jón Þ. Þór, Saga Bolungarvíkur. Annað bindi. Frá 1920-1974, Sögufélag Ísfirðinga, 2007, bls. 63-66. ISBN 978-9979-9260-7-8