Benjamín Netanjahú

Forsætisráðherra Ísraels
(Endurbeint frá Bibi)

Benjamín „Bibi“ Netanjahú (hebreska: בִּנְיָמִין נְתַנְיָהוּ; einnig ritað Benjamin Netanyahu eftir umritun á ensku) (f. 21. október 1949 í Tel Aviv) er níundi og núverandi forsætisráðherra Ísraels. Hann hefur gegnt embættinu frá 2022 en hafði áður þjónað því embætti frá 2009 til 2021 og frá 1996 til 1999. Hann situr á ísraelska þjóðþinginu Knesset (hebreska: הַכְּנֶסֶת) sem formaður Likud-flokksins og er fyrsti forsætisráðherra landins sem er fæddur eftir að ísraelska ríkið var stofnað. Netanjahú er jafnframt þaulsetnasti forsætisráðherra í sögu Ísraels.

Benjamín Netanjahú
בנימין נתניהו
Forsætisráðherra Ísraels
Núverandi
Tók við embætti
29. desember 2022
ForsetiIsaac Herzog
ForveriYair Lapid
Í embætti
31. mars 2009 – 13. júní 2021
ForsetiShimon Peres
Reuven Rivlin
ForveriEhud Olmert
EftirmaðurNaftali Bennett
Í embætti
18. júní 1996 – 6. júlí 1999
ForsetiEzer Weizman
ForveriShimon Peres
EftirmaðurEhud Barak
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. október 1949 (1949-10-21) (75 ára)
Tel Avív, Ísrael
ÞjóðerniÍsraelskur
StjórnmálaflokkurLikud
MakiMiriam Weizmann (g. 1972; skilin 1978)
Fleur Cates (g. 1981; skilin 1984)
Sara Ben-Artzi (g. 1991)
TrúarbrögðGyðingdómur
Börn3
HáskóliTækniháskólinn í Massachusetts, Harvard-háskóli
StarfStjórnmálamaður, erindreki, rithöfundur, fjármálaráðgjafi
Undirskrift

Ferill

breyta

Netanjahú gekk í ísraelska herinn árið 1967 þar sem hann leiddi sérsveitina Sayeret Matkal og tók þátt í ýmsum hernaðaraðgerðum, s.s. Operation Inferno (1968), Operation Gift (1968) og Operation Isotope (1972). Hann tók einnig þátt í Þreytistríðinu við Egyptaland, Sýrland og Jórdaníu á árunum 1967 til 1970 og í Jom kippúr-stríðinu árið 1973. Netanjahú lauk herþjónustu sinni 1972 og gekk síðan í Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) í Bandaríkjunum, þaðan sem hann útskrifaðist með BS- og meistaragráðu í vísindum árið 1976. Eftir útskrift starfaði hann sem ráðgjafi í ráðgjafarfyrirtækinu Boston Consulting Group í tvö ár en sneri síðan heim til Ísrael árið 1978. Þar stofnaði hann gagnhryðjuverkasamtökin Yonatan Netanyahu Anti-Terror Institute í nafni bróður síns, Jónatan Netanjahú, sem hafði látist í sérsveitarbjörgunaraðgerðinni Operation Entebbe (1976) við að bjarga gíslum hryðjuverkamanna í Úganda. Netanjahú þjónaði sem sendiráðherra Ísraels til Sameinuðu þjóðanna frá 1984 til 1988.

Netanjahú var kjörinn formaður Likud-flokksins árið 1993 og leiddi hann til sigurs í kosningunum 1996. Í kjölfarið varð hann yngsti forsætisráðherrann í sögu Ísraels og þjónaði því embætti þar til hann bað ósigur gegn leiðtoga Verkamannaflokksins, Ehud Barak, í kosningunum 1999. Netanjahú dró sig úr pólitík um tíma en hóf síðan aftur þátttöku í stjórnmálum sem utanríkisráðherra (2002-2003) og fjármálaráðherra (2003-2005) í ríkisstjórn forsætisráðherrans Ariels Sharon. Netanjahú sagði af sér þessum embættum árið 2005 í kjölfar áætlunar um að leggja niður landtökubyggðir Ísraela á Gasaströndinni. Í desember 2006 náði Netenyahu aftur völdum sem formaður Likud-flokksins, eftir að Ariel Sharon klauf sig úr flokknum, og gerðist leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Knesset-þinginu. Eftir kosningarnar 2009 myndaði Netanjahú samsteypuflokk ísraelskra hægriflokka og varð aftur forsætiráðherra. Hann náði endurkjöri í þriðja sinn árið 2013 og hóf fjórða kjörtímabil sitt árið 2015.

Netanjahú hefur verið kosinn forsætisráðherra Ísraels fimm sinnum og hefur gegnt því embætti lengur en nokkur annar forsætisráðherra. Í þingkosningum sem haldnar voru í apríl 2019 lýsti Netanjahú yfir sigri eftir að Likud-bandalagið vann 35 þingsæti[1] en í kjölfarið mistókst Netanjahú hins vegar að mynda ríkisstjórn. Netanjahú lét leysa upp þingið og kalla til nýrra kosninga eftir að stjórnarmyndunarviðræðurnar mistókust.[2] Kosningar fóru fram í annað skipti á árinu þann 17. september en í þeim kosningum vann Likud-bandalagið 32 þingsæti og lenti í öðru sæti á eftir Bláhvíta bandalaginu, sem hlaut 33.[3] Reuven Rivlin forseti gaf Netanjahú aftur stjórnarmyndunarumboð en Netanjahú tókst ekki að komast að samkomulagi um stjórnarmyndun og neyddist til að skila umboðinu þann 22. október.[4] Vegna stjórnarkreppunar var haldið til kosninga í þriðja sinn á einu ári þann 2. mars 2020. Likud-flokkurinn varð aftur stærsti flokkurinn en hlaut þó ekki nægt fylgi til að mynda meirihlutastjórn með hefðbundnum bandamönnum sínum. Þann 26. mars féllst Benny Gantz, leiðtogi Bláhvíta bandalagsins, hins vegar á að mynda þjóðstjórn með Netanjahú til að takast á við kórónaveirufaraldurinn sem þá var hafinn.[5] Netanjahú og Gantz innsigluðu þjóðstjórnina þann 20. apríl en samkvæmt samkomulagi þeirra átti Netanjahú að sitja hálft kjörtímabilið sem forsætisráðherra en Gantz átti síðan að taka við.[6]

Þann 23. desember 2020 mistókst stjórn Netanjahú og Gantz að koma fjárlögum sínum í gegnum þingið. Þetta leiddi til þess að þing var sjálfkrafa rofið og kallað var til nýrra þingkosninga sem fóru fram í mars 2021. Þetta voru fjórðu þingkosningarnar í Ísrael á aðeins tveimur árum.[7] Likud-flokkurinn vann flest sæti á þinginu í kosningunum en Netanjahú tókst ekki að mynda ríkisstjórn. Að endingu gerðu átta stjórnarandstöðuflokkar þvert yfir pólitíska litrófið samkomulag um nýja stjórn, sem leiddi til þess að Naftali Bennett, formaður hægriflokksins Yamina, leysti Netanjahú af hólmi sem forsætisráðherra Ísraels þann 13. júní 2021.[8][9]

Aðrar þingkosningar voru haldnar eftir hrun nýju stjórnarinnar í nóvember 2022. Í kjölfar þeirra tókst Netanjahú að mynda nýja stjórn í samstarfi við aðra hægriflokka á ísraelska þinginu. Nýrri stjórn Netanjahú hefur verið lýst sem einni hægrisinnuðustu stjórn í sögu ríkisins.[10]

Frá endurkjöri sínu árið 2022 hefur Netanjahú einbeitt sér að ætluðum breytingum á dómkerfi Ísraels. Með breytingunum er dregið úr völdum Hæstaréttar landsins þannig að hann geti ekki beitt neitunarvaldi gegn ákvörðunum þingsins eða ríkisstjórnarinnar.[11] Í júlí 2023 samþykkti þingið lagabreytingar þess efnis að Hæstiréttur gæti ekki ógilt ráðstafanir þingsins, meðal annars á hernumdu svæðunum í Palestínu.[12] Breytingar Netanjahú á dómkerfinu hafa leitt til sumra fjölmennustu mótmæla í sögu Ísraels vegna ótta um að breytingarnar grafi undan sjálfstæði ísraelskra dómstóla.[13] Netanjahú hótaði að reka varnarmálaráðherra sinn, Yoav Gallant, í mars 2023 eftir að hann lýsti yfir andstöðu við breytingarnar á dómkerfinu.[14]

Þann 7. október 2023 gerðu Hamas-samtökin óvænta stórárás á Ísrael frá Gasaströndinni. Netanjahú lýsti í kjölfarið yfir stríðsástandi og myndaði þjóðstjórn með Benny Gantz og Bláhvíta bandalaginu til að heyja stríðið.[15] Þann 20. maí 2024 fór saksóknari við Alþjóðlega sakamáladómstólinn fram á að alþjóðleg handtökuskipun yrði gefin út á hendur Netanjahú, auk Yoavs Gall­ant varnarmálaráðherra og háttsettra leiðtoga innan Hamas, vegna ætlaðra stríðsglæpa og glæpa gegn mannúð sem framdir hefðu verið í stríðinu frá því í október 2023.[16]

Pólitísk stefnumál

breyta

Fjárhagsmál

breyta

Netanjahú hefur verið lýst sem stuðningsmanni frjáls markaðshagkerfis. Sem fjármálaráðherra (2003-2005) kom hann á umtalsverðum breytingum á efnahagskerfi landsins. Meðal annars ýtti hann undir einkavæðingu á ríkisreknum stofnunum, einfaldaði skattkerfið til að gera það aðgengilegra og kynnti lög miðuð að því að brjóta upp einokun á markaði til að auka samkeppni. Einnig barðist hann fyrir starfsnámskeiðum sem ættu að mennta og undirbúa atvinnuleysingja. Hann útvíkkaði jafnframt gjaldeyrisskatt svo hann yrði einnig lagður á einstaklinga en ekki einungis á fyrirtæki til þess að stækka skattstofn ríkisins. Sem forsætisráðherra frá árinu 2009 hefur hann komið á umbótum í bankakerfinu og dregið niður hömlur á fjárfestingum bæði innan- og utanlands.[heimild vantar]

Dauðarefsing

breyta

Árið 2017 lagði ríkisstjórn Netanjahú löggjöf til Knesset-þingsins um að það megi notast við dauðarefsinguna þegar kemur að því að refsa hryðjuverkamönnum. Löggjöfin komst í gegnum þingið og varð að lögum í janúar árið 2019. Löggjöfin gerir dómstólum auðveldara að notast við dauðarefsinguna við dæmda hryðjuverkamenn. [heimild vantar]

Ísrael og Palestína

breyta

Netanjahú hefur mælt gegn Óslóarsáttmálanum (1993) frá upphafi og hefur gagnrýnt fyrri ríkistjórnir fyrir að skuldbinda sig til að draga úr hernaðaraðgerðum bæði á Gasaströndinni og Vesturbakkanum. Eftir að hann tók við forsætisráðherræmbættinu hefur hann lofað að halda áfram hernaðaraðgerðum á umdeildum svæðum og segir það vera nauðsynlegt til að tryggja öryggi Ísraels. Netanjahú hafði áður kallað friðarsamræður við Palestínumenn tímasóun en hefur í seinni tíð lýst yfir áhuga á því að fylgja tveggja ríkja lausninni, að því gefnu að hin sjálfstæða Palestína verði gjörsamlega óhervænt ríki og að Jerúsalem verði viðurkennd sem óumdeild höfuðborg Ísraels. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa verið misjöfn og stjórn Palestínu hefur lýst yfir andstöðu sinni varðandi slíka sáttkomu.[heimild vantar]

Í aðdraganda þingkosninganna sem fóru fram í apríl árið 2019 hét Netanjahú því að sem forsætisráðherra myndi hann innlima landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum.[17]

Spillingarmál

breyta

Netanjahú hefur nokkrum sinnum verið bendlaður við spillingarmál í ísraelskum stjórnmálum. Í febrúar árið 2019 lýsti ríkissaksóknari Ísraels því yfir að hann hygðist ákæra Netanjahú fyrir spillingu, meðal annars fyrir mútu­þægni, fjár­svik og van­rækslu í starfi.[18] Netanjahú er sakaður um að þiggja gjafir frá auðkýfingum og bjóða greiða í skiptum fyrir jákvæða fjölmiðlaumfjöllun.[19] Eiginkona Netanjahú, Sara Netanjahú, hafði áður verið ákærð fyrir fjár­svik og trúnaðar­brot, en hún var sökuð um að kaupa mat af ut­anaðkom­andi veisluþjón­ustu fyrir almannafé að andvirði um 10,5 milljóna íslenskra króna.[20] Netanjahú og kona hans neituðu allri sök og líktu ásökununum við „nornaveiðar“ ísraelskra vinstrimanna í aðdraganda kosninga sem fóru fram í apríl 2019.

Þann 16. júní árið 2019 játaði Sara Netanjahú fyrir rétti að hafa notað andvirði um þrettán milljóna íslenskra króna úr ríkissjóði til að borga fyrir máltíðir. Hún var dæmd til þess að greiða sekt upp á andvirði fimmtán þúsund Bandaríkjadala.[21]

Þann 21. nóvember tilkynnti ríkissaksóknari Ísraels að formleg ákvörðun hefði verið tekin um að ákæra Netanjahú fyrir spillingu. Netanjahú varð þar með fyrsti sitjandi forsætisráðherra í sögu ríkisins sem sætir ákæru.[22][23][24]

Heimildir

breyta
  • https://www.knesset.gov.il/govt/eng/GovtByMinistry_eng.asp?ministry=1
  • David Remnick (23 janúar 2013). "Bibi's blues". The New Yorker.
  • Judy Dempsey (3 maí 2012). "The Enduring Influence of Benjamin Netanyahu's father". Carniege Europe.
  • "Netanyahu elected as Likud party chairman". Xinhua News Agency. 20 desember 2005.
  • "Netanyahu sworn in as Prime Minister". Haaretz. 31 mars 2009.
  • Stoyan Zaimov (18 mars 2015), Israeli "Prime Minister Benjamin Netenyahu Wins Re-Election, Becomes Israel's Longest-Serving Prime Minister", The Christian Post.
  • "Profile: Benjamin Netanyahu". BBC News Online. 20 febrúar 2009.

Tilvísanir

breyta
  1. Kristján Róbert Kristjánsson (10. apríl 2019). „Netanyahu sigurvegari kosninganna“. RÚV. Sótt 24. september 2019.
  2. „Ísrael: Stjórnarmyndun mistekst – kosið að nýju“. Varðberg. 30. maí 2019. Sótt 24. september 2019.
  3. Kristinn Haukur Guðnason (19. september 2019). „Stjórnarmyndun í Ísrael verður erfið“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2019. Sótt 24. september 2019.
  4. Ævar Örn Jósepsson (22. október 2019). „Netanyahu skilaði stjórnarmyndunarumboðinu“. RÚV. Sótt 21. nóvember 2019.
  5. Samúel Karl Ólason (26. mars 2020). „Svíkur bandamenn sína og myndar ríkisstjórn með Netanyahu“. Vísir. Sótt 4. apríl 2020.
  6. Alexander Kristjánsson (20. mars 2020). „Net­anja­hú held­ur völd­um“. mbl.is. Sótt 23. apríl 2020.
  7. Ævar Örn Jósepsson (23. desember 2020). „Þing rofið í Ísrael og kosningar boðaðar í mars“. RÚV. Sótt 25. desember 2020.
  8. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (2. júní 2021). „Ný ríkis­stjórn hefur verið mynduð í Ísrael“. Vísir. Sótt 13. júní 2021.
  9. Fanndís Birna Logadóttir (13. júní 2021). „Tólf ára stjórnar­tíð Netanyahu lýkur form­lega“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. júní 2021. Sótt 13. júní 2021.
  10. Ólafur Björn Sverrisson (21. desember 2022). „Netanjahú snýr aftur til valda“. Vísir. Sótt 1. janúar 2023.
  11. Dagný Hulda Erlendsdóttir (4. febrúar 2023). „Þúsundir mótmæla breytingum á dómskerfi“. RÚV. Sótt 13. október 2023.
  12. Samúel Karl Ólason (24. júlí 2023). „Nýsamþykkt lög draga úr áhrifum Hæstaréttar Ísraels“. Vísir. Sótt 13. október 2023.
  13. Markús Þ. Þórhallsson (10. september 2023). „Þúsundir andæfðu breytingum á dómkerfinu 36. laugardaginn í röð“. RÚV. Sótt 13. október 2023.
  14. Alexander Kristjánsson; Ólöf Ragnarsdóttir (26. mars 2023). „Netanjahú rekur varnarmálaráðherrann eftir gagnrýni“. RÚV. Sótt 13. október 2023.
  15. „Ísrael myndar stríðsráð og „neyðarþjóðstjórn". mbl.is. 11. október 2023. Sótt 13. október 2023.
  16. „Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn vill handtaka Netanjahú“. mbl.is. 20. maí 2024. Sótt 22. maí 2024.
  17. Ævar Örn Jósepsson (6. apríl 2019). „Boðar innlimun landtökubyggða á Vesturbakkanum“. RÚV. Sótt 24. september 2019.
  18. Daníel Freyr Birkisson (28. febrúar 2019). „Netanja­hú verður á­kærður“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júní 2021. Sótt 1. mars 2019.
  19. Kjartan Kjartansson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson (28. febrúar 2019). „Netanjahú ákærður fyrir spillingu“. Vísir. Sótt 1. mars 2019.
  20. „Kona Net­anja­hú ákærð fyr­ir fjár­svik“. mbl.is. 21. júní 2018. Sótt 1. mars 2019.
  21. Sylvía Hall (16. júní 2019). „Sara Netanjahú játaði að hafa misnotað ríkisfé“. Vísir. Sótt 6. ágúst 2019.
  22. Ásgeir Tómasson (21. nóvember 2019). „Benjamin Netanyahu ákærður“. RÚV. Sótt 21. nóvember 2019.
  23. „Net­anya­hu ákærður“. mbl.is. 21. nóvember 2019. Sótt 21. nóvember 2019.
  24. „Netanyahu verður ákærður fyrir spillingu“. Vísir. 21. nóvember 2019. Sótt 21. nóvember 2019.


Fyrirrennari:
Shimon Peres
Forsætisráðherra Ísraels
(18. júní 19966. júlí 1999)
Eftirmaður:
Ehud Barak
Fyrirrennari:
Ehud Olmert
Forsætisráðherra Ísraels
(31. mars 200913. júní 2021)
Eftirmaður:
Naftali Bennett
Fyrirrennari:
Yair Lapid
Forsætisráðherra Ísraels
(29. desember 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti