Isaac Herzog

Forseti Ísraels

IsaacBougieHerzog (f. 22. september 1960) er ísraelskur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Ísraels frá 7. júlí 2021.

Isaac Herzog
יצחק הרצוג
Isaac Herzog árið 2021.
Forseti Ísraels
Núverandi
Tók við embætti
7. júlí 2021
ForsætisráðherraNaftali Bennett
Yair Lapid
Benjamin Netanjahú
ForveriReuven Rivlin
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. september 1960 (1960-09-22) (64 ára)
Tel Avív, Ísrael
ÞjóðerniÍsraelskur
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn
MakiMichal Herzog
TrúarbrögðGyðingdómur
Börn3
HáskóliHáskólinn í Tev Avív
Cornell-háskóli
New York-háskóli
Undirskrift

Isaac Herzog er sonur Chaims Herzog, fyrrum forseta Ísraelsríkis og er lögfræðingur að atvinnu. Herzog var ritari ríkisstjórnarinnar frá 1999 til 2001 og sat á Knesset-þinginu frá 2003 til 2018. Hann gegndi ýmsum ráðherraembættum frá 2005 til 2011, meðal annars embætti velferðarráðherra frá 2007 til 2011 í ríkisstjórnum Ehuds Olmert og Benjamins Netanjahú.

Herzog var formaður ísraelska Verkamannaflokksins og Síonistabandalagsins frá 2013 til 2017. Hann var leiðtogi stjórnarandstöðunnar frá 2013 til 2018 og var forsætisráðherraefni Verkamannaflokksins í þingkosningum árið 2015. Árið 2021 var hann kjörinn forseti Ísraels af Knesset-þinginu og tók við embættinu þann 7. júlí 2021.

Æviágrip

breyta

Isaac Herzog er sonur Chaims Herzog, sem var forseti Ísraels frá 1983 til 1993, og eiginkonu hans, Auru. Föðurafi Isaacs, Yitzhak HaLevi Herzog, var aðalrabbíni Ashkenazi-gyðinga á umboðssvæði Breta í Palestínu, sem síðar varð að Ísraelsríki.

Menntun og starfsferill

breyta

Isaac Herzog lauk fjögurra ára þjónustu sem liðsforingi í deild 8200 í ísraelska hernum og varð síðan majór í varaherdeild. Herzog nam síðan lögfræði í Háskólanum í Tel Avív, í Cornell-háskóla og í New York-háskóla. Hann vann síðan hjá lögmannsstofunni Herzog, Fox & Neemann, sem faðir hans hafði stofnað, en stofnaði síðar eigin lögmannsstofu.

Stjórnmálaferill

breyta

Isaac Herzog hóf stjórnmálaferil sinn árið 1988 sem ritari hjá ísraelska efnahags- og samfélagsráðinu og vann þar í tvö ár. Herzog bauð sig fram á Knesset-þingið fyrir Verkamannaflokkinn árið 1999 en náði ekki kjöri. Hann varð í kjölfarið ritari hjá ríkisstjórn Ehuds Barak til ársins 2001. Hann varð á sama tíma forseti fíkniefnaeftirlits stjórnarinnar frá 2000 til 2003.

Herzog var kjörinn á Knesset-þingið í þingkosningum Ísraels árið 2003.

Isaac Herzog varð húsnæðis- og byggingaráðherra í ríkisstjórn Ariels Sharon árið 2005. Í ríkisstjórnum Olmerts og Netanjahú varð hann ferðamannaráðherra frá 2006 til 2007, ráðherra samfélagsmála, Gyðinga erlendis og baráttu gegn Gyðingahatri frá 2007 til 2009 og samfélags- og velferðarráðherra frá 2007 til 2011.

Í janúar árið 2011 sleit Verkamannaflokkurinn stjórnarsamstarfi sínu við flokk Netanjahú og Herzog gekk í stjórnarandstöðu. Hann var endurkjörinn á þing árið 2013 og var sama ár kjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins eftir formannsslag við fráfarandi leiðtogann Shelly Yachimovich. Herzog hlaut 58,5 % atkvæða í formannskjörinu.[1]

 
Isaac Herzog ásamt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, á Knesset-þinginu árið 2018.

Í aðdraganda þingkosninga árið 2015 bauð Herzog stjórnmálaflokkunum Hatnua og Kadima kosningabandalag með Verkamannaflokknum. Þann 11. desember 2014 tilkynni Herzog ásamt Tzipi Livni, formanni Hatnua, að þau hygðust sameina krafta sína til að koma í veg fyrir að Benjamin Netanjahú yrði kjörinn forsætisráðherra í fjórða skipti.[2] Flokkur Netanjahú, Likud-bandalagið, lenti engu að síður í fyrsta sæti í kosningunum, á undan kosningabandalagi Herzogs.

Á 20. samkomu Knesset-þingsins lýsti Isaac Herzog því yfir að Netanjahú bæri ábyrgð á versnandi samskiptum Ísraels við Bandaríkin og gagnrýndi Netanjahú fyrir að neita að taka við flóttamönnum úr sýrlensku borgarastyrjöldinni. Herzog bauðst að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með flokki Netanjahú en neitaði boðinu vegna óskýrleika í stefnu ríkisstjórnarinnar og spillingarmála sem umváfu forsætisráðherrann.

Herzog bauð sig fram til endurkjörs á formannsstól Verkamannaflokksins í júlí 2017 en tapaði í fyrstu umferð með aðeins 16,7 % atkvæða. Í seinni umferð lýsti hann yfir stuðningi við Amir Peretz, sem bað ósigur fyrir Avi Gabbay.[3][4]

Í júní árið 2018 var Isaac Herzog útnefndur forseti Jewish Agency, stærstu hagsmunasamtaka gyðinga á alþjóðavísu. Herzog var valinn þrátt fyrir andstöðu Netanjahú, sem vildi flokksbróður sinn, Yuval Steinitz, í embættið. Herzog tók við embættinu í ágúst sama ár og sagði um leið upp bæði þingsæti sínu og stöðu sinni sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar.[5]

Forseti Ísraels

breyta

Isaac Herzog gaf kost á sér sem óháður frambjóðandi til embættis forseta Ísraels árið 2021 á móti Miriam Peretz, sem naut meiri almannahylli samkvæmt skoðanakönnunum.[6][7] Þann 2. júní 2021 kaus Knesset-þingið Herzog nýjan forseta Ísraels með 87 atkvæðum gegn 26 fyrir Miriam Peretz.[8] Herzog var kjörinn aðeins fáeinum klukkustundum áður en Yair Lapid tókst að semja um stjórnarsamstarf til að bola Benjamin Netanjahú frá völdum.[9]

Herzog tók við af Reuven Rivlin sem forseti Ísraels þann 7. júlí árið 2021. Hann er hlynntur samningaviðræðum til þess að leysa úr deilum Ísraels og Palestínu. Herzog er jafnframt kunnur Frakklandsvinur.[10][11]

Tilvísanir

breyta
  1. Moran Azulay (22. nóvember 2013). „Drama in Labor party: Herzog beats Yachimovich for chairmanship“ (enska). Yedioth Ahronoth. Sótt 11. júlí 2021.
  2. „Israël : Livni et les travaillistes contre Netanyahou“ (franska). Le Monde. 12. desember 2014. Sótt 11. júlí 2021.
  3. Attila Somfalvi; Itay Blumental; Moran Azulay (7. júlí 2017). „Herzog, Margalit back Peretz in Labor leadership race“ (enska). Ynet. Sótt 11. júlí 2021.
  4. Alexander J. Apfel (4. júlí 2017). „Peretz and Gabbay vie for Labor party leadership as Herzog is cast aside“ (enska). Ynet. Sótt 11. júlí 2021.
  5. Gil Hoffman (21. júní 2018). „Herzog to become Jewish Agency head despite Netanyahu's opposition“ (enska). The Jerusalem Post. Sótt 11. júlí 2021.
  6. „סקר גיאוקרטוגרפיה ל"כל העיר": מרים פרץ – המועמדת הפופולארית בקרב הציבור לנשיאות המדינה, יהורם גאון אחריה“ (hebreska). Kol Ha'ir. 1. janúar 2021. Sótt 11. júlí 2021..
  7. „Poll: Israelis favor Miriam Peretz over Isaac Herzog for president“ (enska). Arutz Sheva. 21. maí 2021. Sótt 11. júlí 2021.
  8. „Isaac Herzog élu nouveau président de l'Etat d'Israël“. i24news.tv. 2. júní 2021. Sótt 11. júlí 2021.
  9. „Israël: course contre la montre pour un accord sur un gouvernement anti-Netanyahou“ (franska). i24news.tv. 2. júní 2021. Sótt 11. júlí 2021.
  10. „Ami et admirateur de la France, Itzhak Herzog sera t-il Président de l'État d'Israël ?“. israelvalley.com (franska). 17. maí 2021. Sótt 11. júlí 2021.
  11. „Israël : Isaac Herzog, ancien chef du Parti travailliste, élu président“ (franska). Le Monde. 2. júní 2021. Sótt 11. júlí 2021.


Fyrirrennari:
Reuven Rivlin
Forseti Ísraels
(7. júlí 2021 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti