Þjóðaratkvæðagreiðslan í Færeyjum 1946

Þjóðaratkvæðagreiðslan 1946 er færeysk þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram 14. september 1946 um framtíð sambandsins við Danmörku í kjölfarið á seinni heimstyrjöldinni.

Forsagan

breyta

9. apríl 1940 var Danmörk hernumin af Þjóðverjum. Bretar töldu þá nauðsynlegt að hernema Færeyjar, sem þeir gerðu þann 12. apríl. Á meðan á stríðinu stóð hafði ekki verið pólitískt samband á milli Færeyja og Danmerkur. Færeyingar þurftu að hjálpa sér sjálfum, undir stjórn Breta. 25. apríl viðurkenndu bresk yfirvöld fána Færeyinga og þessu var fylgt eftir 9. maí með því að setja stjórnarskipunarlög sem gáfu Færeyska lögþinginu löggjafarvald og amtmanni framkvæmdarvald.

27. október 1945 birtist fréttatilkynning í færeyska blaðinu Dimmalætting þess efnis að danska stjórnin hefði gert kunnugt að Færeyjum hafi verið stýrt eftir samkomulagi ríkjanna á meðan stríðinu stóð. Í kjölfarið hófust samningaviðræður á milli Lögþingsins og dönsku stjórnarinnar um framtíðarstöðu Færeyja. Eftir mánaðarlangar samningaviðræður var ljóst að Færeyingar mundu ekki ná samkomulagi sín á milli og heldur ekki við dönsku stjórnina. Danir gerðu þó eitt uppkast að heimastjórnarlögum.

Þjóðaratkvæðagreiðslan

breyta

9. maí 1946 samþykkti Lögþingið að leggja málið fyrir þjóðina. Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin með þessum spurningum:

I. Óskar þú þess að danska stjórnaruppkastið taki gildi?
II. Óskar þú þess að aðskilnaður verði á milli Danmerkur og Færeyja?

Atkvæðigreiðslan fór fram á þann hátt að kross átti að setja við þann möguleika sem kjósandinn vildi.

Úrslit

breyta
Val 1 Val 2 Ógild Kjósendur Kjörskrá Kosningaþáttaka
Norðureyjar 398 28,1% 954 67,3% 65 4,6% 1.417 2.220 63,8%
Austurey 1.372 54,4% 1.051 41,6% 101 4,0% 2.524 3.854 65,5%
Straumey Norður 544 45,2% 621 51,6% 38 3,2% 1.203 1.679 71,6%
Vágar 434 40,0% 616 56,7% 36 3,3% 1.086 1.485 73,1%
Straumey Suður 673 31,7% 1.309 61,7% 138 6,5% 2.120 3.323 63,8%
Sandey 286 36,5% 465 59,4% 32 4,1% 783 1.053 74,4%
Suðurey 1.783 71,6% 640 25,7% 68 2,7% 2.491 3.602 69,2%
Samtals 5.490 47,2% 5.656 48,7% 478 4,1% 11.624 17.216 67,5%

Eftirmálar

breyta

Þegar ljóst var að Færeyingar hefðu samþykkt með mjög naumum meirihluta að slíta sambandi við Danmörku vildi meirihluti Lögþingsins fara að vilja þjóðarinnar og lýsti yfir sjálfstæði eyjanna 18. september 1946. Þingmaðurinn Jákup í Jákupsstofu var rekinn úr Jafnaðarflokknum fyrir að fylgja meirihlutanum að málum. Þann 20. september lýsti danska stjórnin sjálfstæðisyfirlýsinguna ólöglega og þann 23. september tilkynntu Jafnaðarflokkurinn og Sambandsflokkurinn að þeir teldu aðgerðir lögþingsmeirihlutans ólöglegar og þeir mótmæltu með því að ganga af þingfundi. Tveimur dögum síðar tilkynnti amtmaður að konungur hefði ákveðið að rjúfa þing og halda kosningar.[1]

Þingfundur átti að vera 27. september en Fólkaflokkurinn mætti ekki eftir tilskipun konungsins og Jákúp í Jákupstofu mætti því einn. Kosningarnar voru haldnar þann 8. nóvember 1946. Úrslit þeirra urðu að gamli stjórnarmeirihlutinn fékk 8 þingmenn en fyrri stjórnarandstæðingar fengu 12 og var þá ljóst að ekkert yrði úr sjálfstæðisyfirlýsingu.

Síðan fóru fram samningsumleitanir á milli nýja meirihlutans og dönsku stjórnarinnar. Þeim lauk með því að Heimastjórnarlögin tóku gildi 1. apríl 1948. Í mótmælaskyni við lögin var Þjóðveldisflokkurinn stofnaður þann 23. maí.

Tilvísanir

breyta

Heimildir

breyta