Færeyska lögþingið

Færeyska lögþingið (færeyska: Løgtingið eða Føroya løgting) var upprunalega stofnað um 825 og fékk löggjafarvald að nýju með Heimastjórnarlögunum 1948, sem gerir það að einu elsta lögþingi í heiminum.

Þinghús færeyska lögþingsins.

Upprunalega hafði lögþingið bæði dómsvald og löggjafarvald. Framkvæmdavald var ekki til staðar í landinu. Það tíðkaðist því að þeir sömu settu lögin og dæmdu. Eftir að Færeyjar urðu norskt skattland árið 1035 dró úr völdum þingsins. Það var ekki fyrr en 1300-1400 sem lögþingið var skilið frá dómsvaldinu. Lögmaður, eins og forseti þingsins nefnist, var eftir það tilnefndur af konungi og lögréttumenn eða þingmenn voru tilnefndir af umboðsmanni konungs í Færeyjum. Árið 1380 komust Færeyjar undir sameiginlegt konungsvald Noregs og Danmerkur en með sérstöðu sem gamalt norskt skattland. Þessi skipan var höfð fram að einveldistímanum árið 1660, en þá fyrst var dregið úr völdum þingsins og að lokum var það aflagt að konungsboði árið 1816.

Þegar Danir fengu stjórnarskrá 1849 féllu Færeyjar undir hana og misstu þar með þá sérstöðu sem eyjarnar höfðu haft sem norskt land og seinna danskt. Færeyjar urðu nú formlega hluti af danska ríkinu. Í Færeyjum voru margir sem vildu endurreisa Lögþingið, meðal annars til þess að amtmaðurinn væri ekki einn um að veita dönskum stjórnmálamönnum ráðleggingar vegna lagasetningar fyrir Færeyjar. Helsti leiðtogi Færeyinga í sjálfstæðisbaráttunni var Niels Winther.

Þann 26. mars 1852 samþykkti danska þingið lög um að lögþing Færeyinga skyldi endurreist. Það fékk þó ekki löggjafarvald heldur var það aðeins ráðgefandi. Endurrreista lögþingið hélt áfram þeim forna sið að halda fyrsta fund sinn ár hvert á Ólafsvökunni, eftir að þingmenn höfðu verið til guðþjónustu í Hafnarkirkju.

 
Færeyskt frímerki vegna 150 ára afmælis lögþingsins, árið 2002.

Ýmsar breytingar hafa orðið á starfsemi Lögþingsins frá 1852 til dagsins í dag. Á endureista lögþinginu var amtmaður forseti þings en árið 1923 var gerð breyting og lögþings formaður valinn af þingmönnum. Árið 1935 fékk lögþingið heimild til að leggja á skatt og í síðari heimsstyrjöld, þegar Færeyjar voru hernumdar af Bretum, hafði þingið í raun löggjafarvald. Heimsstyrjöldinni lauk 1945 og þá var sjálfsstjórn Færeyinga orðin svo styrk í sessi að enginn vildi fara aftur í gamla farið. Eftir langar samningsviðræður á milli Færeyja og Danmerkur og eina þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem naumur meirihluti var fyrir sjálfstæðisyfirlýsingu, voru heimastjórnarlögin sett þann 1. apríl 1948. Með þeim lögum fékk færeyska lögþingið löggjafarvald í flestum málum. Með stjórnarskipunarlögum frá 1995 var þingræði fastsett sem meginregla og þar með var þingið orðið líkt öðrum þingum á Norðurlöndunum. Nú er verið að vinna að því að semja stjórnarskrá fyrir Færeyjar.

Lögþingskosningar

breyta

Lögþingskosningar eru haldnar á fjögurra ára fresti og þar velja kjósendur fulltrúa sína á þingið. Fulltrúarnir kallast þingmenn (eða þingmenn og þingkonur).

Stjórnmálakerfi Færeyinga grundvallast á þingflokkum. Hver flokkur hefur sína stefnu sem hann fylgir eftir á lögþinginu. Kjósandinn velur flokk eða frambjóðenda af lista flokksins og þegar atkvæði hafa verið talin kemur í ljós hverjir hafa verið kjörnir til þingsetu.

Samsetning þingsins 2015-2019

breyta
 
Samsetning lögþingsins á yfirstandandi þingi.

Ríkisstjórn:

Stjórnarandstaða:

Heimild

breyta