Sjónvarpið
Sjónvarpið (einnig kallað Ríkissjónvarpið) er eina ríkisrekna sjónvarpsstöðin á Ísland undir hatti Ríkisútvarpsins og hóf útsendingar 30. september 1966. Dagskrárstjóri er Skarphéðinn Guðmundsson. Sjónvarpið er gjaldfrjáls opinber sjónvarpsstöð sem er send út stafrænt á UHF til viðtöku um loftnet og á vefnum, en útvarpsgjald rennur til reksturs þess.[1][2]
Sjónvarpið sendir út blandaða línulega dagskrá, meðal annars fréttir, veðurfréttir, íþróttir, barnaefni, sjónvarpsþætti og kvikmyndir; bæði íslenska framleiðslu og erlent efni sem oftast er textað. Þættir sem hafa hafið göngu sína í Sjónvarpinu eru meðal annars Stundin okkar, Áramótaskaupið, Spaugstofan, Kiljan, Verbúðin og Ófærð. Sjónvarpið er líka hluti af efnisveitu RÚV sem er aðgengileg á vef og í gegnum sérstakt app.
Ríkisútvarpið er aðili að Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) og á aðild að samstarfsvettvangi norrænu ríkisstöðvanna, Nordvision.
Saga
breytaAðdragandi og stofnun
breytaTalsverð umræða um nauðsyn þess að setja á stofn íslenskt sjónvarp hófst þegar kom fram á 7. áratug 20. aldar. Danska ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar 1951, Norska ríkisútvarpið árið 1954 og Sænska ríkisútvarpið árið 1956. Mörgum óx í augum kostnaðurinn við að koma slíkri starfsemi á fót og óttuðust áhrifin sem það gæti haft á íslenskt menningarlíf. Fyrir stofnun Sjónvarpsins hafði Keflavíkursjónvarpið („Kanasjónvarpið“) sent út bandarískt sjónvarpsefni á Íslandi frá 1955 og náðist víða á suðvesturhorni landsins. Aðalfjölmiðlar landsins voru þá dagblöð og útvarp. Árið 1964 gaf hópur forystufólks í íslensku menningarlífi út opinbera áskorun um að lokað yrði fyrir útsendingar Keflavíkursjónvarpsins til að það skapaði ekki þrýsting á stofnun íslensks sjónvarps. Árið eftir var svo ákveðið að stofna Sjónvarpið.
Í upphafi var ráðinn hópur karlmanna til að undirbúa stofnun Sjónvarpsins. Í þessum hópi voru Pétur Guðfinnsson sem var framkvæmdastjóri, fréttamennirnir Magnús Bjarnfreðsson og Markús Örn Antonsson, fréttastjórinn Emil Björnsson, dagskrárgerðarmennirnir Tage Ammendrup og Andrés Indriðason, og myndatökumennirnir Þrándur Thoroddsen og Gísli Gestsson.[3] Margir úr þessum fyrsta hópi sóttu sér starfsþjálfun hjá BBC og danska og sænska ríkissjónvarpinu. Stillimynd var send út reglulega frá 7. janúar árið 1966. Tilraunaútsendingar fóru fram innanhúss frá byrjun september sama ár og fyrsta útsendingin fór í loftið 30. september. Sent var út hliðrænt merki með PAL-staðlinum á metrabylgju.
Fyrstu ár
breytaÞegar Sjónvarpið hóf göngu sína var aðeins sent út tvisvar í viku, á föstudögum og miðvikudögum. Smátt og smátt fjölgaði útsendingardögum og brátt var farið að senda út alla daga nema fimmtudaga. Í upphafi var send út svarthvít mynd, en útsendingar í lit hófust undir lok árs 1977. Utan útsendingatíma Sjónvarpsins var send út stillimynd frá raftækjaframleiðandanum Philips sem átti að hjálpa fólki að stilla sjónvarpstæki fyrir móttöku sjónvarpsmerkisins. Stillimyndinni fylgdi sónn sem var hrein 1 kHz sínusbylgja. Sjónvarpið fór í sumarfrí í júlí til ársins 1983 og var þá engin útsending.
Stofnun sjónvarpsins markaði upphaf dagskrárgerðar á íslensku fyrir sjónvarp og margir nýir sjónvarpsþættir litu dagsins ljós næstu ár. Meðal íslenskra þáttaraða sem nutu vinsælda frá fyrstu árum Sjónvarpsins má nefna Munir og minjar, Réttur er settur, Nýjasta tækni og vísindi og Kastljós. Fyrsta íslenska sjónvarpsleikritið var Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson. RÚV tók þátt í framleiðslu leikinna sjónvarpsmynda eins og Brekkukotsannáll (1973), Blóðrautt sólarlag (1977) og Paradísarheimt (1980). Meðal fyrstu leiknu sjónvarpsþáttaraðanna voru Undir sama þaki (1977) og Þættir úr félagsheimili (1982).
Regluleg þjónusta á táknmáli hófst árið 1979 og sama ár hóf tónlistarmyndbandaþátturinn Skonrokk göngu sína. Fréttaþjónusta batnaði til muna þegar erlendar fréttir fóru að berast gegnum gervihnött, en það gerðist í fyrsta skipti í september árið 1981 gegnum jarðstöðina Skyggni í Mosfellsbæ. Það ár var Söngvakeppni sjónvarpsins haldin í fyrsta sinn. Árið 1986 var í fyrsta sinn bein útsending frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva um gervihnött þegar Ísland tók þátt í fyrsta skipti með lagið „Gleðibankinn“.
Afnám einkaleyfis
breytaRíkisútvarpið hafði samkvæmt lögum einkaleyfi til útvarps- og sjónvarpsútsendinga á Íslandi. Einu undantekningarnar voru bandaríska Keflavíkurútvarpið og litlar kapalstöðvar sem voru í mörgum stærri fjölbýlishúsum eftir að myndbandstækin komu til sögunnar. Einkaleyfi RÚV var afnumið árið 1986 og sama ár hóf fyrst einkarekna áskriftarstöðin, Stöð 2, útsendingar. Samkeppnin hafði mikil áhrif á rekstur og dagskrárgerð Sjónvarpsins. Frá 1. október 1987 var sent út alla daga vikunnar og árið 1992 byrjaði morgunsjónvarp með barnaefni um helgar. Árið 1991 hóf Sjónvarpið útsendingu á textavarpi.
Fyrsta Jóladagatal Sjónvarpsins var framleitt árið 1988, en svipaðir leiknir þættir höfðu lengi notið vinsælda á norrænu ríkisstöðvunum.
Árið 1998 var starfsemi Sjónvarpsins flutt í útvarpshúsið Efstaleiti úr gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg 176. Útvarpið hafði flutt þangað inn tíu árum fyrr. Árið 2011 var stillimyndin lögð niður, en utan útsendingatíma var þá send út útvarpsdagskrá Rásar 1 með ljósmyndum og fréttaborða.
Stafrænt háskerpusjónvarp
breytaÁrið 2004 hóf Sjónvarpið útsendingu á breiðbandi með IPTV-staðlinum á dreifikerfum Símans og Vodafone Iceland. Árið 2007 hófust útsendingar um gervihnött sem voru aðallega hugsaðar fyrir skip á Íslandsmiðum, en þeim var hætt árið 2014. Það ár hóf Sjónvarpið að senda út háskerpusjónvarp í drefikerfi Vodafone. Árið 2013 hóf Sjónvarpið útsendingar á aukarásinni RÚV Íþróttir sem seinna fékk nafnið RÚV 2. Aukarásin er einkum til að senda út lengri íþróttaviðburði, fréttir með táknmálstúlkun og fleira efni til hliðar við hina eiginlegu dagskrá Sjónvarpsins. Árið 2015 var hætt að senda út hliðrænt sjónvarpsmerki.[4] Frá 2012 var hægt að sækja eldra sjónvarpsefni á vef Ríkisútvarpsins (Sarpurinn) og árið 2017 kom RÚV appið út þar sem er hægt að horfa á línulega dagskrá og skoða eldra efni með snjalltækjum.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Útvarpsgjald“. Skatturinn.
- ↑ „Útvarpsgjaldið og fjármál RÚV“. RÚV.
- ↑ Emil Björnsson (1986). „Eins og að stökkva fram af klettum“. Lesbók Morgunblaðsins. 66 (33): 4–6.
- ↑ „Sjónvarp einungis sent út stafrænt“. Ríkisútvarpið. 1. febrúar 2015.