Undir sama þaki voru sex leiknir íslenskir gamanþættir sem sýndir voru í sjónvarpinu haustið 1977. Handrit að þáttunum voru skrifuð af Birni Björnssyni, Hrafni Gunnlaugssyni og Agli Eðvarðssyni. Leikstjóri var Hrafn Gunnlaugsson.

Þættirnir byggðu á danskri fyrirmynd, þáttunum Húsið á Kristjánshöfn í leikstjórn Eriks Balling, sem notið höfðu fádæma vinsælda í danska ríkissjónvarpinu. Hver þáttur var sjálfstæð saga en sögurnar tengdust með því að persónurnar voru allar íbúar sama fjölbýlishúss. Meðal leikara voru Bessi Bjarnason, Guðrún Gísladóttir, Þórhallur Sigurðsson, Bríet Héðinsdóttir, Arnar Jónsson, Björg Jónsdóttir og Elfa Gísladóttir.

Þættirnir voru sendir út á besta tíma á laugardögum strax eftir fréttir og veðurfregnir og endursýndir á miðvikudögum.

Þættir

breyta
  1. „Hússjóðurinn“ (sýndur 1. október)
  2. „Dagdraumar“ (sýndur 8. október)
  3. „Hjartagosinn“ (sýndur 29. október*)
  4. „Umboðsskrifstofan“ (sýndur 5. nóvember)
  5. „Milli hæða“ (sýndur 12. nóvember)
  6. „Veislan“ (sýndur 19. nóvember)

* Vegna verkfalls BSRB í október 1977 stöðvuðust allar útsendingar sjónvarps og útvarps um tíma.