Tage Ammendrup
Tage Ammendrup (1. febrúar 1927 – 9. maí 1995) var kaupmaður í versluninni Drangey og eigandi hljómplötuútgáfunnar Íslenzkra tóna allt til ársins 1965 er hann hóf störf sem dagskrárgerðarmaður og upptökustjóri hjá Sjónvarpinu. Hann vann hjá Sjónvarpinu allt frá stofnun þess og til æviloka.
Tage Ammendrup | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | Tage Ammendrup 1. febrúar 1927 Reykjavík, Ísland |
Dáinn | 9. maí 1995 (68 ára) |
Störf |
|
Fjölskylda
breytaForeldrar Tage voru María S. Ammendrup, kaupkona (14. september 1903 – 30. júní 1975) og Povl Chr. Ammendrup, klæðskera- og feldskerameistari (7. febrúar 1896 – 12. nóvember 1978). Hann átt eina systur, Jane Ammendrup (1934–1935), sem dó barnung. Eiginkona Tage var María Magnúsdóttir Ammendrup (14. júní 1927 – 28. ágúst 2010) og börn þeirra Páll (1947), Axel (1952–1999) og María (1962).
Skólaganga
breytaTage stundaði barnaskólanám í Landakotsskóla og hóf fiðlunám átta ára gamall. Hann stundaði nám í tónfræði, sögu og hljómfræði í Tónlistarskólanum samhliða fiðlunámi um nokkurra ára skeið (1945 – 1950). Hann spilaði einnig á mandolín og lék um skeið með Mandolínhljómsveit Reykjavíkur og M.A.J. tríóinu. Hann tók hluta af verslunarprófi og sótti námskeið í verslunartengdum greinum og tungumálum.
Verslunin Drangey
breytaTage varð hluthafi í verslun móður sinnar Drangey að Laugavegi 58, aðeins fjórtán ára gamall. Hann tók við öllum erlendum innkaupum árið 1944 og árið 1945 var byrjað að selja hljóðfæri, hljómplötur og nótur í Drangey meðfram leðurvörum, töskum og vefnaðarvöru.
Íslenzkir tónar og önnur útgáfustarfsemi
breytaTage stofnaði plötuútgáfuna Íslenzka tóna í apríl 1947, en ein helsta ástæða þess var að hann fann fyrir mikilli eftirspurn eftir íslensku efni í versluninni. Hann keypti upptökutæki til landsins og hóf að taka upp á plötur fyrir einkaaðila í upptökusal inn af versluninni. Hann gaf út nótur undir merkjum Drangeyjarútgáfunnar, einkum nótur dægurlaga, en einnig kennslubækur í hljóðfæraleik og fimmtán hefti af danslagatextum. Árið 1947 gaf hann út tímaritið Jazz, fyrsta Jazz-tímarit á Íslandi[1] og að áeggjan mætra tónlistarmanna hóf hann útgáfu á alhliða tónlistarblaði sem hét Musica og var gefið út í þrjú ár (1948 – 1950). Þessi tímarit höfðu öðruvísi og nýstárlegra útlit en flest önnur tímarit á þessum árum. Tímaritaútgáfan lagðist af vegna tímaskorts enda fyrst og fremst um hugsjónastarf að ræða.
Árið 1952 hófst hin eiginlega plötuútgáfa Íslenzkra tóna og henni lýkur áríð 1964. Íslenzkir tónar var fyrst útgáfufyrirtækja til að standa að viðamikilli útgáfu á íslenskum dægurlögum. Á tímabilinu 1952-1964 gaf fyrirtækið út í kringum hundrað 78 snúninga plötur, um hundrað 45 snúninga plötur og tvær (tvöfaldar) 33 snúninga plötur. Óhætt er að segja að Tage hafi gefið út stærstan hluta þeirra platna sem komu á þessum árum.[2] Samhliða plötuútgáfunni gaf Tage út ritið Hljómplötunýjungar árið 1954.
Útgáfan endurspeglaði víðsýni Tage og fjölbreyttan tónlistarsmekk. Mest var gefið út af dægurlögum, en einnig voru gefnar út klassískar plötur, sönglög, þjóðlög, jazz, sveitatónlist og rokk. Nokkrar barnaplötur voru gefnar út, syrpuplötur með sígildum slögurum og plata með íslenskum rímum. Tage fékk hæfustu listamenn til liðs við sig og meðal söngvara sem sungu inn á plötur Íslenzkra tóna voru: Sigfús Halldórsson, Svavar Lárusson, Soffía Karlsdóttir, Alfred Clausen, Sigrún Jónsdóttir, Ingibjörg Þorbergs, Helena Eyjólfsdóttir, Jóhann Möller, Nora Brocksted, Elly Vilhjálms, Ragnar Bjarnason, Skapti Ólafsson og Óðinn Valdimarsson. Einnig sungu klassískir söngvarar inn á plötur: Guðrún Á. Símonar, Sigurður Ólafsson, María Markan, Þuríður Pálsdóttir, Kristinn Hallsson, Magnús Jónsson, Sigurður Björnsson og Ketill Jensson.
Nokkur þekkt lög sem Íslenzkir tónar gáfu út: Litla flugan, Söngur villiandarinnar, Hreðavatnsvalsinn, Bílavísur, Manstu gamla daga, Litli vin, Meira fjör, Lukta-Gvendur, Sjómannavalsinn, Ágústnótt, Sjana síldarkokkur, Síldarvalsinn, Aravísur, Guttavísur, Pabbi vill mambo, Það var lítið hús (Nora Brocksted), Hvítir mávar, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, lögin úr Deleríum Búbonis, Einsi kaldi úr Eyjunum, Í kjallaranum, Komdu niður, Maja litla, Fjórir kátir þrestir, Hún var með dimmblá augu, Þórsmerkurljóð, Ég er kominn heim, Á morgun, Ég veit þú kemur, Ömmubæn, Ship-ohoj, Ef þú giftist mér, Blikandi haf, Allt á floti, Gamla gatan, Það er draumur að vera með dáta og svo má lengi telja.
-
Helsta vörumerki Íslenzkra tóna.
-
Forsíða fjórða tölublaðs tímaritsins „Jazz” sem kom út árið 1947.
-
Forsíða tónlistartímaritins „Musica”, frá 1949.
-
Plötumiði af einni fyrstu plötu Íslenzkra tóna árið 1952 (IM 2).
-
Kennslubók um gítargrip, útgáfuár 1952.
-
Drangeyjarútgáfan gaf út nótur dægurlaga eins og þessi 3 lög eftir Jenna Jónsson árið 1954.
-
Eitt af 15 textaheftum Drangeyjarútgáfunnar.
-
Teikning Þorleifs Þorleifssonar sem notuð var á plötuumslag (EXP-IM 68).
-
Tímaritið Hljómplötunýjungar var gefið út í tengslum við plötuútgáfu Íslenzkra tóna á árunum 1954-1955.
-
Forsíða leikskrár á kabaretti Íslenzkra tóna „Eitthvað fyrir alla” sem sýndur var í Austurbæjarbíói 1955.
-
Hljómsveitin Monn Keys með Noru Brockstedt innanborðs, kom til landsins á vegum Tage árið 1954.
-
Ein af mörgum plötum Íslenzkra tóna sem Alfreð Clausen söng inn á (EXP-IM 98).
-
Umslag af plötu með völdum köflum úr Mjallhvíti og dvergunum sjö, árið 1960 (EXP-IM 76).
-
Íslenzkir tónar gáfu út nokkrar litskrúðugar plötur árið 1960 (sjá til dæmis EXP-IM 80).
Kabarettar
breytaTage var áhugasamur um að koma listamönnunum á framfæri sem kostur var, bæði á Íslandi og erlendis. Hann stóð meðal annars fyrir vinsælum miðnæturskemmtunum í Austurbæjarbíói 1954 og Revíu-kabarettum 1955 og 1956 (8-15 sýningar fyrir fullu húsi), þar sem helstu tónlistarmenn, dansarar og leikarar komu fram. Þar kom meðal annars fram bandarískur rokkari sem líkast til er einn sá fyrsti til að syngja rokk opinberlega hérlendis. [3]
Innflutningur listamanna
breytaTage kom að því að fá til Íslands erlenda einsöngvara, einleikara og hljómsveitir. Hann var aðeins 19 ára þegar hann flutti inn ungverska fiðluleikarann Ibolyku Zilzer, en hún hélt þrenna tónleika í Gamla bíói í október 1946. Píanóleik annaðist Victor Urbancic. Tónleikarnir fengu jákvæða dóma.[4][5][6]
Tage aðstoðaði SÍBS við að fá hingað hinn sænska dægurlagasöngvara Gösta „Snoddas” Nordgren sem hélt nokkrar vel sóttar skemmtanir í Austurbæjarbíói í mars 1953 og vakti athygli í bæjarlífinu.[7][8][9]
Tage stóð fyrir komu norsku söngkonunnar Noru Brockstedt og hljómsveitarinnar Monn Keys árið 1954.[10] Hljómsveitin hélt nokkrar skemmtanir í Austubæjarbíói við góðar undirtektir. Skemmtanirnar voru fjölbreyttar, flutt voru gamanmál, amerísk og norræn dægurlög sungin og sungið á íslensku svo nefnd séu dæmi.
Fræg er ætlun Tage að flytja inn hljómsveit hörundsdökka jazztrompetleikarans Rex Stewart 1947.[11] Fyrirfram var uppselt á nokkra tónleika en samþykkt var á Alþingi að heimila ekki innflutning slíkra „trúða”, enda hafði hljómsveit af þessu tagi aldrei til Íslands komið. Um þetta atvik spunnust töluverðar pólitískar blaðadeilur.[12][13][14][15][16][17][18]
Brautryðjandi
breytaTage var framsýnn maður og brautryðjandi á mörgum sviðum. Hann var fyrstur til að gefa út Jazz-blað á Íslandi, fyrstur til að gefa út plötu með íslenskri danshljómsveit og fyrstur til að standa að umtalsverðri útgáfu íslenskra dægurlaga. Hann var fyrstur til að gefa út 45 snúninga (1954) og 12 tommu 33 snúninga plötur (1960) á Íslandi, þrátt fyrir að þær breytingar kæmu fyrirtæki hans að mörgu leyti illa. Hann prófaði plötur í ýmsum litum fyrstur manna og lét gera nýstárlegt kynningarefni. Hann lét taka upp fyrstu rokklög á Íslandi (IM 117) og ótaldar eru nýjungar þær sem listamennirnir sjálfir buðu upp á í flutningi sínum og féllu í góðan jarðveg hjá Tage. Það var því vel við hæfi að Tage var ráðinn í starf upptökustjóra og dagskrárgerðarmanns þegar Sjónvarpið hóf starfsemi sína. Þar gat hann haldið áfram að koma hæfileikafólki á framfæri og miðla af verðmætri reynslu.
Áhugamál
breytaEitt helsta áhugamál Tage var ljósmyndun. Hann hafði afar næmt auga fyrir góðri myndbyggingu eins og sjá má í þeim fjölda sjónvarpsþátta sem hann tók upp. Hann taldi ekki eftir sér að ganga langar vegalengdir eða vakna fyrir allar aldir til að ná rétta skotinu. Hann var líka áhugasamur um trjárækt og var einn af frumkvöðlum skógræktar í Mosfellsdal. Hann hafði áhuga á lífi Íslendinga í Vesturheimi á fyrri tímum og sérstakan áhuga á frumkvöðlinum Hirti Thordarsyni, en um hann gerði hann heimildarmyndina Hugvitsmaðurinn sem hann var að leggja síðustu hönd á þegar hann lést.
Árin í Ríkisútvarpinu
breytaTage vann við dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu 1945 og 1946 og aftur á árunum 1962 – 1965, þegar hann stjórnaði vinsælum skemmtiþáttum í útvarpi, meðal annars þættinum „Hvað er svo glatt“ árið 1965.
Hann hóf síðan störf hjá Sjónvarpinu 1965 en þar vann hann til æviloka. Hann tók upp um 1340 þætti í Sjónvarpinu: leikrit, skemmtiþætti, viðtalsþætti, heimildarmyndir og barnaefni svo nokkuð sé nefnt.
Tage sá um stjórn upptöku og leikstjórn á Spaugstofuþáttunum 1989 - 1991, 89-91 á stöðinni.
Tilvísanir
breyta- ↑ Grein Tómasar R. Einarsson í Helgarpóstinum, 24. apríl 1981, bls. 18.
- ↑ Sbr. Jón R. Kjartansson: Skrá yfir íslenzkar hljómplötur 1907 – 1955. Útg. 1955.
- ↑ Sjá dæmi um lagaval í Vísi 8.12.1955, bls, 7 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=83137&pageId=1183761&lang=4&q=BOHLIN
- ↑ Morgunblaðið, 18. október 1946, bls. 7.
- ↑ Alþýðublaðið, 18. október 1946, bls. 3.
- ↑ Vísir, 19. október 1946, bls. 7.
- ↑ Morgunblaðið, 17. mars 1953, bls. 16.
- ↑ Tíminn, 1. mars 1953, bls. 2.
- ↑ Fálkinn, 20. mars 1953, bls. 1 og 3.
- ↑ Sjá nánar um Íslandsför Noru Brockstedt og Monn-Keys http://is.wikipedia.org/wiki/IM_92
- ↑ Sjá frekari umfjöllun á Tímaritið Jazz.
- ↑ Vísir, 10. október 1947, bls. 1.
- ↑ Alþýðublaðið, 10. október, 1947, bls. 8.
- ↑ Alþýðublaðið, 12. október 1947, bls. 8.
- ↑ Þjóðviljinn, 12. október 1947, bls. 8.
- ↑ Morgunblaðið, 11. október 1947, bls. 5.
- ↑ Þjóðviljinn, 11. október 1947, bls. 8.
- ↑ Morgunblaðið, 16. október 1947, bls. 7.