Éamon de Valera

3. forseti Írlands (1882-1975)

Éamon de Valera (14. október 1882 – 29. ágúst 1975) var írskur stjórnmálamaður sem naut mikilla áhrifa í írska lýðveldinu á 20. öld. Hann var þrisvar forsætisráðherra (írska: Taoiseach) landsins á tímabilinu 1937 til 1959 og síðan forseti Írlands frá 1959 til 1973. De Valera er talinn meðal sjálfstæðishetja Írlands og meðal þeirra sem mótuðu Írland sem nútímaríki.

Éamon de Valera
Éamon de Valera árið 1946.
Forseti Írlands
Í embætti
25. júní 1959 – 24. júní 1973
ForsætisráðherraSeán Lemass
Jack Lynch
Liam Cosgrave
ForveriSeán T. O'Kelly
EftirmaðurErskine H. Childers
Forsætisráðherra Írlands
Í embætti
9. mars 1932 – 18. febrúar 1948
ForsetiDouglas Hyde
Seán T. O'Kelly
ForveriW. T. Cosgrave
EftirmaðurJohn A. Costello
Í embætti
13. júní 1951 – 2. júní 1954
ForsetiSeán T. O'Kelly
ForveriJohn A. Costello
EftirmaðurJohn A. Costello
Í embætti
20. mars 1957 – 23. júní 1959
ForsetiSeán T. O'Kelly
ForveriJohn A. Costello
EftirmaðurSeán Lemass
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. október 1882
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
Látinn29. ágúst 1975 (92 ára) Dyflinni, Írlandi
ÞjóðerniÍrskur
StjórnmálaflokkurFianna Fáil
MakiSinéad de Valera (g. 1910; d. 1975)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn7
HáskóliKonunglegi háskólinn á Írlandi
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Éamon de Valera fæddist til spænsks föður og írskrar móður í New York í Bandaríkjunum. Móðir hans hafði flust til Bandaríkjanna til að flýja hallærið mikla sem tröllreið Írlandi á 19. öld. Faðir hans lést þegar Éamon var aðeins þriggja ára og móðir hans neyddist því til að senda hann í fóstur til fjölskyldu sinnar á Írlandi.[1] Vegna námshæfileika sinna komst de Valera í kaþólska skóla í Cork og í Blackrock og síðan í hinn Konunglega háskóla Írlands í Dyflinni. Eftir nám vann hann fyrir sér um hríð sem stærðfræðikennari.[2][3][4]

Sjálfstæðisbarátta

breyta

Áhugi de Valera á endurreisn gelískrar tungu leiddi til þess að hann komst í kynni við og gekk síðan til liðs við Írsku sjálfboðaliðana, sjálfstæðishreyfingu sem barðist gegn breskum yfirráðum á Írlandi. De Valera tók þátt í páskauppreisninni árið 1916 og leiddi hersveit uppreisnarmanna gegn bresku setuliði í Dyflinni. Hann neyddist til að gefast upp eftir að leiðtogi uppreisnarinnar, Patrick Pearse, hafði verið yfirbugaður og bresk herskip hófu skothríð á Dyflina. De Valera var í kjölfarið handtekinn og dæmdur til dauða.[1] Dómurinn yfir de Valera var mildaður og honum sleppt úr fangelsi stuttu síðar, hugsanlega þar sem hann var bandarískur ríkisborgari og Bretar töldu sig þurfa á aðstoð Bandaríkjamanna að halda í fyrri heimsstyrjöldinni sem þá stóð yfir.[2]

De Valera hóf stjórnmálaferil eftir að honum var sleppt og bauð sig fram á breska þingið í kjördæminu Austur-Clare fyrir írska sjálfstæðisflokkinn Sinn Féin. Sinn Féin var á mikilli uppleið á þessum tíma vegna andstöðu Íra gegn herkvaðningu Breta á Írlandi á styrjaldarárunum. De Valera vann þingsætið með yfirburðum en var aftur handtekinn árið 1918, sakaður um aðild að „þýsku samsæri“. Með hjálp flokksfélaga sinna tókst de Valera að sleppa úr fangelsi og fór síðan til Bandaríkjanna til að vinna írsku sjálfstæðisbaráttunni stuðning.[5]

Á meðan de Valera sat í fangelsi höfðu 27 af 73 kjörnum þingmönnum Sinn Féin komið saman í Dyflinni og stofnað eigið þing þar sem þeir staðfestu stofnun sjálfstæðs lýðveldis á Írlandi. Eftir að de Valera slapp úr fangelsi og sneri heim til Írlands árið 1920 var hann einróma kjörinn forseti lýðveldisins á þinginu. Bretar höfðu á þessum tíma glatað stjórn á suðurhluta Írlands og írska sjálfstæðisstríðið var byrjað.[1]

Eftir að Írar og Bretar sömdu um vopnahlé árið 1921 hélt de Valera til fundar við David Lloyd George, forsætisráðherra Bretlands, á Downingstræti 10 í London. Viðræður þeirra skiluðu litlum árangri og de Valera dró sig í kjölfarið til hlés frá samningaviðræðunum. Hans í stað sendu Írar fimm manna samninganefnd til fundar við Breta og varð niðurstaðan sú að samið var um stofnun írska fríríkisins. Í samningnum um stofnun fríríkisins var kveðið á um að Norður-Írland yrði klofið frá Írlandi, þingmenn þyrftu áfram að sverja konungi Bretlands hollustueið og að áfram yrðu tiltekin stjórnartengsl við breska heimsveldið.[1] De Valera var mjög mótfallinn þessum skilmálum en samningurinn var engu að síður samþykktur á írska þinginu með 64 atkvæðum gegn 57 þann 7. janúar árið 1922.[6]

Andstaða de Valera og margra annarra harðra sjálfstæðissinna við samninginn var svo mikil að borgarastyrjöld braust út á milli stuðningsmanna og andstæðinga samningsins sem entist til næsta árs. Andstæðingar samningsins voru sigraðir og de Valera var sviptur völdum og fangelsaður á ný. Honum var sleppt næsta ár og nokkru síðar klauf hann sig úr Sinn Féin með því að stofna nýjan stjórnmálaflokk, Fianna Fáil.[1]

Stjórnmálaferill

breyta

Flokkur de Valera vann stórsigur í kosningum fríríkisins árið 1932 og de Valera varð þannig leiðtogi ríkisstjórnar Írlands. Sem ríkisstjórnarleiðtogi vann hann að því að fella niður flest þau ákvæði úr samningnum um stofnun fríríkisins sem honum mislíkaði. Hann lét fella úr gildi kröfuna um að þingmenn sværu konungnum hollustueið og þurrkaði á næstu árum úr stjórnarskránni öll ákvæði sem tengdu Írland við bresku krúnuna.[1] Árið 1937 klauf de Valera Írland í reynd alfarið frá Bretlandi og gerði það að sjálfstæðu lýðveldi með því að kynna til sögunnar nýja stjórnarskrá þar sem forseti kom í stað Bretakonungs sem þjóðhöfðingi ríkisins.

Éamon de Valera varð þar með fyrsti forsætisráðherra hins sjálfstæða írska lýðveldis. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939 gætti de Valera þess að viðhalda hlutleysisstefnu Írlands.[2] Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, reyndi að fá de Valera til að ganga inn í styrjöldina við hlið bandamanna með því að lofa því að samþykkja sameiningu Írlands en de Valera afþakkaði boðið þar sem hann taldi ekki að Churchill myndi standa við loforðið.[7] De Valera leyfði þó um 50.000 Írum að ganga í breska herinn og enn fleiri að vinna í breskum verksmiðjum. Auk þess handtók hann fjölda meðlima Írska lýðveldishersins sem vildu að Írland gengi í stríðið með Öxulveldunum til þess að geta endurheimt Norður-Írland frá Bretlandi. Eftir dauða Adolfs Hitler sendi de Valera samúðarkveðjur til þýska sendiherrans í Dyflinni[1] og uppskar þannig mikla reiði bandamanna, sérstaklega Churchills.

Ríkisstjórn de Valera féll árið 1948 en de Valera komst aftur til valda eftir kosningar árið 1951. De Valera var því í stjórnarandstöðu þegar síðustu tengsl Írlands við Bretland voru slitin árið 1949.[2] Hann sat aftur sem forsætisráðherra frá 1951 til 1954 og vann sinn stærsta kosningasigur árið 1957, þá kominn á áttræðisaldur og orðinn blindur. Vegna aldurs de Valera töldu flokksmenn Fianna Fáil hann á að láta af forsætisráðherraembættinu árið 1959 og gerast þess í stað frambjóðandi flokksins í embætti forseta Írlands. De Valera var kjörinn forseti lýðveldisins árið 1959 með rúmum meirihluta atkvæða. Sem forseti hætti hann beinum afskiptum af írskum stjórnmálum en hafði áfram mótandi áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar.[1] Seán Lemass, sem hafði lengi verið hægri hönd de Valera, tók við af honum sem forsætisráðherra og leiðtogi Fianna Fáil.[8]

De Valera sat í tvö kjörtímabil sem forseti og lét af völdum árið 1973. Þá var hann elsti ríkjandi þjóðhöfðingi í heimi.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Gunnar Pálsson (23. mars 1978). „„Mikill örn með ylblíða klóglófa". Morgunblaðið. bls. 70-73; 76.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Eamon de Valera: höfundur Írlands nútímans“. Þjóðviljinn. 10. september 1975. bls. 6.
  3. Sigríður Thorlacius (13. júlí 1968). „Þjóðhöfðingi og þjóðhetja Eamon de Valera forseti Írlands“. Tíminn. bls. 7; 12.
  4. Ívar Guðmundsson (17. september 1946). „Í heimsókn hjá de Valera“. Morgunblaðið. bls. 9; 11.
  5. Lárus Sigurbjörnsson (18. apríl 1971). „Sjálfsævisaga forseta: Fyrri hluti“. Morgunblaðið. bls. 8-9; 13.
  6. Lárus Sigurbjörnsson (25. apríl 1971). „Sjálfsævisaga forseta: Síðari hluti“. Morgunblaðið. bls. 10-11.
  7. „De Valera hafnaði boði um sameiningu Írlands“. Morgunblaðið. 8. nóvember 1970. bls. 1.
  8. Davíð Logi Sigurðsson (22. september 2002). „Tíminn hefur grætt gömul sár“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  9. „57 ára stjórnmálaferli Eamons de Valera lokið“. Morgunblaðið. 27. júní 1973. bls. 16.


Fyrirrennari:
W. T. Cosgrave
(forsætisráðherra írska fríríkisins)
Forsætisráðherra Írlands
(forsætisráðherra írska fríríkisins til ársins 1937)
(9. mars 193218. febrúar 1948)
Eftirmaður:
John A. Costello
Fyrirrennari:
John A. Costello
Forsætisráðherra Írlands
(13. júní 19512. júní 1954)
Eftirmaður:
John A. Costello
Fyrirrennari:
John A. Costello
Forsætisráðherra Írlands
(20. mars 195723. júní 1959)
Eftirmaður:
Seán Lemass
Fyrirrennari:
Seán T. O'Kelly
Forseti Írlands
(25. júní 195924. júní 1973)
Eftirmaður:
Erskine H. Childers