Patrick Pearse
Patrick Henry Pearse (10. nóvember 1879 – 3. maí 1916) var kennari og rithöfundur sem leiddi írsku Páskauppreisnina árið 1916. Þegar Bretar höfðu brotið uppreisnina á bak aftur var hann tekinn af lífi ásamt bróður sínum og þrettán öðrum forkólfum uppreisnarinnar.
Patrick Pearse fæddist í Dyflinni. Hann lét snemma að sér kveða meðal írskra þjóðernissinna og var framarlega í flokki frelsisbaráttu Íra uppúr aldamótunum, en hann sótti sér fyrirmyndir í leiðtoga sjálfstæðisbaráttu fyrri tíma.
Hann gekk til liðs við Hið írska bræðralag lýðveldisins, að öllum líkindum árið 1913, og varð fljótt einn framámanna þeirra samtaka. Hann var meðlimur í vinnuhópi innan bræðralagsins sem skipulagði Páskauppreisnina og helsti skipuleggjandi.