Hallgrímur Þorsteinsson

Hallgrímur Þorsteinsson f. 17. mars 1776, d. 4. ágúst 1816 var prestur á Hrauni og Steinsstöðum í Öxnadal.

Hallgrímur fæddist í Garði í Aðaldal og voru foreldrar hans þau Þorsteinn Hallgrímsson prestur, síðar í Stærra Árskógi, og fyrri kona hans Jórunn Lárusdóttir Scheving. Hallgrímur lærði í Hólaskóla og lauk stúdentsprófi þaðan 11. maí 1799. Þótti hann halda góða prófræðu og útskrifaðist með einkunn betri en í meðallagi.

Hallgrímur vígðist aðstoðarprestur til séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá vorið 1803. Hann þótti dável gefinn, ásjálegur maður og söngmaður góður. Hallgrímur var einn fjögurra bræðra sem allir voru prestar við Eyjafjörð á fyrstu áratugum 19. aldar, þeir voru auk hans sr. Kristján Þorsteinsson prestur víða m.a. á Tjörn, sr. Stefán Þorsteinsson á Völlum og sr. Baldvin Þorsteinsson á Upsum.

Kona sr. Hallgríms var Rannveig Jónasdóttir frá Hvassafelli. Þau bjuggu á Hrauni í Öxnadal 1803 - 1809 en frá 1809 á Steinsstöðum. Börn þeirra voru Þorsteinn, bóndi á Hvassafelli, Rannveig, húsmóðir á Steinsstöðum, Jónas, náttúrufræðingur og skáld og Anna Margrét á Steinsstöðum. Séra Hallgrímur drukknaði í Hraunsvatni sumarið 1816, fertugur að aldri.