Bandarísku Jómfrúaeyjar

Bandarísku Jómfrúaeyjar eru eyjaklasi austan við Púertó Ríkó sem tilheyrir Bandaríkjunum. Þær eru hluti Hléborðseyja, sem eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Fjórar eyjanna eru stærstar: St. Thomas, St. John, St. Croix og Water Island. Auk þeirra eru margar smærri eyjar.

United States Virgin Islands
Fáni Bandarísku Jómfrúaeyja Skjaldarmerki Bandarísku Jómfrúaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
United in Pride and Hope
Þjóðsöngur:
Jómfrúaeyjamarsinn
Staðsetning Bandarísku Jómfrúaeyja
Höfuðborg Charlotte Amalie
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Joe Biden
Landstjóri Albert Bryan
Bandarískt yfirráðasvæði
 • keyptar af Danmörku 17. janúar 1917 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

346 km²
1
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar

87.146
252,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 4,2 millj. dala
 • Á mann 38.136 dalir
VÞL (2019) 0.892 (31. sæti)
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur (USD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .vi
Landsnúmer +1-340

Danska Vestur-Indíafélagið settist að á St. Thomas árið 1672, á St. John árið 1694 og keypti svo St. Croix af Frökkum 1733. Árið 1754 urðu Dönsku Vestur-Indíur dönsk krúnunýlenda. Höfuðborgin Charlotte Amalie á St. Thomas var nefnd árið 1692 eftir Charlotte Amalie af Hessen-Kassel drottningu Danmerkur, eiginkonu Kristjáns 5. Danakonungs frá 1670 til 1699.

Í nýlendunni var einkum ræktaður sykurreyr. Framleiðslan byggðist á vinnuafli afrískra þræla. Dönsk stjórnvöld og fyrirtæki undir þeirra verndarvæng eru talin hafa flutt yfir 100.000 manns frá Afríku í þrældóm í Vesturálfu, þar af um 80.000 til þessara nýlenda Dana sjálfra.[1] Skömmu eftir afnám þrælahalds 1848 fór efnahagurinn mjög niður á við. Eyjarnar voru nú böggull fremur en bjargræði og á síðari helmingi 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. gerðu Danir tilraunir til að selja eyjarnar, einkum til Þýskalands og Bandaríkjanna. Tilraunir til að selja þær Bandaríkjunum runnu út í sandinn 1867 og aftur 1902. Í fyrri heimsstyrjöldinni urðu Bandaríkjamenn og Danir hins vegar sammála um að gera eignaskipti á eyjunum. Danir tóku kauptilboði Bandaríkjanna og seldu eyjarnar fyrir 25 milljónir Bandaríkjadala. Dönsk stjórnvöld óttuðust að Bandaríkin tækju eyjarnar með valdi ef svo færi að Þjóðverjar hernæmu Danmörku í stríðinu. Bandaríkjamenn óttuðust að ef Þjóðverjar eignuðust eyjarnar gætu þeir notað þær í hernaði gegn Bandaríkjunum.

Bandarísku Jómfrúaeyjar kjósa einn þingmann í fulltrúadeild bandaríska þingsins en sá hefur ekki atkvæðisrétt á þinginu. Íbúar eyjanna hafa heldur ekki rétt til að kjósa í bandarísku forsetakosningunum.

Kristófer Kólumbus kom til eyjanna í annarri ferð sinni til Nýja heimsins árið 1493. Hann nefndi þær Santa Úrsula y las once mil vírgenes („heilög Úrsúla og ellefu þúsund meyjar“) til heiðurs dýrlingnum, að sögn vegna þess að hann heillaðist af fegurð eyjanna. Hann var þar á ferð nokkru eftir messudag heilagrar Úrsúlu sem er í október. Þetta nafn var fljótlega stytt í Las Vírgenes eða Jómfrúaeyjar (sem hefur líka verið þýtt sem „Jómfrúreyjar“ og „Meyjaeyjar“ á íslensku).

Yfirráð yfir eyjunum breyttust oft næstu aldirnar, en um miðja 17. öld skiptust þær milli Dönsku Vestur-Indía, Bresku Hléborðseyja og Spænsku Jómfrúaeyja. Dönsku Vestur-Indíur urðu svo Bandarísku Jómfrúaeyjar árið 1917. Nokkrum árum áður höfðu Spænsku Jómfrúaeyjar gengið til Bandaríkjanna sem hluti af Púertó Ríkó.

Tilvísanir

breyta
  1. Sjá t.d. Svend Erik Green-Pedersen (1975). „The History of The Danish Negro Slave Trade, 1733–1807“. Revue française d'histoire d'outre'mer: 196–220.