Risto Ryti

5. forseti Finnlands (1889–1956)

Risto Heikki Ryti (3. febrúar 1889 – 25. október 1956) var finnskur stjórnmálamaður sem var fimmti forseti Finnlands frá 1940 til 1944.[1] Ryti hóf stjórnmálaferil sinn á sviði hagfræði á millistríðsárunum. Hann stofnaði til fjölda alþjóðlegra tengsla í bankastarfsemi á vettvangi Þjóðabandalagsins. Ryti var forsætisráðherra Finnlands á tíma vetrarstríðsins og millibilsfriðarins og forseti Finnlands á tíma framhaldsstríðsins.

Risto Ryti
Ryti á fimmta áratuginum.
Forseti Finnlands
Í embætti
19. desember 1940 – 4. ágúst 1944
ForsætisráðherraJukka Rangell
Edwin Linkomies
ForveriKyösti Kallio
EftirmaðurC. G. E. Mannerheim
Forsætisráðherra Finnlands
Í embætti
1. desember 1939 – 19. desember 1940
ForsetiKyösti Kallio
ForveriAimo Cajander
EftirmaðurJukka Rangell
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. febrúar 1889
Huittinen, Stórfurstadæminu Finnlandi, rússneska keisaradæminu
Látinn25. október 1956 (67 ára) Helsinki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurFramsóknarflokkurinn
MakiGerda Serlachius
Börn3
Undirskrift

Ryti var höfundur Ryti-Ribbentrop-samkomulagsins (sem var nefnt eftir Ryti og Joachim von Ribbentrop), bréfs frá Ryti til þýska nasistaforingjans Adolfs Hitler þar sem Ryti lofaði að Finnar myndu ekki semja einir um frið við Sovétríkin í framhaldsstríðinu nema að undangegnu samþykki Þýskalands. Samkomulagið var gert til að tryggja hernaðarstuðning Þjóðverja við Finna á móti sovésku Vyborg-Petrozavodsk-sókninni árið 1944.[2] Ryti sagði af sér stuttu síðar, sem gerði eftirmanni hans, Mannerheim, kleift að hundsa samkomulagið og semja um frið við Sovétríkin eftir að sóknin hafði verið stöðvuð.

Eftir stríðið var Ryti aðalsakborningurinn í stríðsglæparéttarhöldum sem haldin voru yfir finnskum ráðamönnum frá 1945 til 1946.[3] Ryto var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir glæpi gegn friði en var náðaður af Juho Kusti Paasikivi forseta árið 1949. Orðspor hans var að mestu óskaddað en heilsu hans fór hrakandi og hann tók aldrei framar þátt í opinberum störfum.

Æskuár og starfsferill

breyta

Risto Ryti fæddist í sveitarfélaginu Huittinen í Satakunta og var einn af sjö bræðrum. Foreldrar hans voru bóndahjónin Kaarle Evert Ryti og Ida Vivika Junttila. Þótt Ryti væri úr bændafjölskyldu tók hann sjaldan þátt í störfum á fjölskyldubýlinu í æsku þar sem hann þótti fremur hneigður til bókmennta og fræðastarfa. Hann gekk í stuttan tíma í framhaldsskólann í Pori en var annars menntaður í heimahúsum þar til hann hóf lögfræðinám í Háskólanum í Helsinki árið 1906.

Árið 1909 sneri Ryti aftur til æskuslóða í Satakunta og hóf störf sem lögfræðingur í Rauma. Hann kynntist á þessum tíma Alfred Kordelin, einum ríkasta manni í Finnlandi. Ryti gerðist lögfræðingur hans og með þeim tókst náinn vinskapur. Ryti hlaut kandítatspróf í lögfræði árið 1912. Árið 1914 flutti hann til Oxford í Englandi til að nema hafrétt en upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar neyddi hann til að snúa aftur til Finnlands. Þar kvæntist hann árið Gerdu Paulu Serlachius (1886–1984). Þau eignuðust þrjú börn: Henrik (1916-2002), Niilo (1919-1997) og Evu (1922-2009). Á tíma októberbyltingarinnar árið 1917 voru Ryti og eiginkona hans vitni að því að Kordelin var myrtur af rússneskum bolsévika.

Stjórnmálamaður og bankamaður

breyta

Ryti barðist ekki í finnsku borgarastyrjöldinni, heldur hélt hann sig í skjóli ásamt fjölskyldu sinni í Helsinki, sem var undir stjórn rauðliða. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum stuttu síðar og var kjörinn á finnska þingið fyrir Framsóknarflokkinn þegar hann var þrjátíu ára gamall. Hann sat á þingi árin 1919-1923 og 1927-1929. Fyrstu ár sín á þingi var Ryti formaður dómsmálanefndar og síðar fjármálanefndarinnar. Hann átti einnig sæti í borgarráði Helsinki frá 1924 til 1927.

Árið 1921 var Ryti, þá 32 ára gamall, útnefndur fjármálaráðherra. Hann hélt því embætti til ársins 1924. Árið 1924 útnefndi Kaarlo Juho Ståhlberg forseti Ryti seðlabankastjóra og Ryti gegndi því embætti þar til hann varð forsætisráðherra árið 1939.

Árið 1925 var Ryti teflt fram sem forsetaframbjóðanda en andstæðingar hans sameinuðust að baki Lauri Kristian Relander. Stuðningur við Ryti jókst með árunum en ekki nóg til að hafa áhrif á kosningar. Á fjórða áratugnum dró Ryti sig úr daglegu stjórnmálastarfi en hélt áfram þátttöku í efnahagsmálum. Árið 1934 hlaut hann heiðursriddaranafnbót í Konunglegu viktorísku reglunni (KCVO) vegna framlaga hans við að bæta samskipti Bretlands og Finnlands.

Forsætisráðherra og forseti

breyta
 
Hitler, Mannerheim og Ryti árið 1942.

Ryti var kjörinn forsætisráðherra við byrjun vetrarstríðsins. Hann reyndi að meta stöðuna á raunhæfan máta fremur en of svartsýnan eða bjartsýnan. Ryti taldi aðra meðlimi ríkisstjórnarinnar á að ganga að friðarsamkomulagi og skrifaði undir friðarsamkomulagið í Moskvu þann 13. mars 1940. Með samkomulaginu glataði Finnland miklu landsvæði til Sovétríkjanna og þurfti að taka við flutningum um 400.000 manns frá hernumdu svæðunum. Í kjölfar friðarsamkomulagsins fór Ryti fyrir stjórn ríkisins ásamt Mannerheim marskálki, iðnjöfrinum Rudolf Walden og sósíaldemókrataforingjanum Väinö Tanner þar sem Kyösti Kallio forseti var við slæma heilsu.

Vegna veikinda Kallios voru völd forsetaembættisins færð til Ryti. Kallio batnaði aldrei og þar sem sérstakar aðstæður komu í veg fyrir að gengið yrði til forsetakosninga samþykkti finnska þingið bráðabirgðalög sem heimilaði kjörmannaráðinu frá árinu 1937 að kjósa eftirmann Kallios. Ryti var kjörinn forseti með 288 atkvæðum af 300. Sama dag og kjörið fór fram, þann 19. desember 1940, lést Kallio úr hjartaáfalli. Eftir að Ryti varð forseti fór Mannerheim áfram með yfirstjórn hersins.

Bandalag við Þýskaland

breyta

Í aðdraganda vetrarstríðsins og eftir það tók Finnland upp utanríkisstefnu sem fól í sér nánara samstarf við Þýskaland. Þetta var ekki síst fyrir tilstilli Ryti, sem hafði áður helst verið talinn Englandsvinur. Finnland hafði áður átt í nánum tengslum við Bretland í ljósi mikillar verslunar milli ríkjanna en þegar Þjóðverjar höfðu náð sterkum tökum í Eystrasalti urðu Finnar að leita nýrra viðskiptafélaga.

Þrátt fyrir bandalagið við Þjóðverja veittu Ryti, Tanner og Mannerheim áróðri og hugmyndafræði nasisma lítið vægi í Finnlandi. Ólíkt öðrum meginlandsríkjum Evrópu sem tóku þátt í seinni heimsstyrjöldinni var Finnland undir þeirra stjórn jafnframt áfram lýðræðisríki.

Í ágúst árið 1940 samþykkti Ryti leynilegt hernaðarsamstarf með Þýskalandi til að styrkja stöðu Finnlands gagnvart Sovétríkjunum. Smám saman varð ljóst að friður á milli einræðisríkjanna tveggja myndi ekki endast til lengdar og almennt var talið, jafnvel meðal sérfræðinga, að Sovétríkin gætu ekki staðist þýska innrás.

Ryti fór að aðhyllast þá stefnu að Finnland ætti að nýta sér tækifærið og endurheimta landsvæði frá Sovétríkjunum sem hafði glatast í vetrarstríðinu ef Þýskaland ákvæði að ráðast á Sovétríkin. Þegar framhaldsstríðið hófst studdi Ryti einnig innlimun Finnlands á Austur-Karelíu, sem þjóðernissinnar höfðu kallað eftir frá öðrum áratugnum.

Framhaldsstríðið (1941-1944)

breyta
 
Risto Ryti forseti og Carl Gustaf Emil Mannerheim marskálkur árið 1944.

Þegar innrás Þjóðverja í Sovétríkin hófst í júní 1941 voru Finnar í fyrstu hlutlausir, þar til loftárásir Sovétmanna gáfu þeim óvænt tækifæri til að hrinda innrásaráætlunum sínum í framkvæmd nokkrum dögum síðar. Finnskir hermenn voru fljótir að endurheimta landsvæðið sem Sovétmenn höfðu hertekið í vetrarstríðinu og sóttu fram lengra inn í Sovétríkin. Margir finnskir þingmenn voru mótfallnir því að fara yfir gömlu landamærin en Ryti taldi Väinö Tanner og jafnaðarmenn á að vera áfram í ríkisstjórn sinni þrátt fyrir andstöðu þeirra gegn því að innlima Austur-Karelíu. Geta Ryti til að halda stórri samsteypustjórn á floti stuðlaði mjög að tilfinningu um þjóðarsamheldni á stríðsárunum.

Forsetatíð Ryti átti að ná yfir lok kjörtímabils Kyösti Kallio, til ársins 1943, en þar sem stjórnin gat ekki haldið forsetakosningar á tíma framhaldsstríðsins komu kjörmennirnir frá árinu 1937 saman til að kjósa Ryti á ný. Þetta óvenjulega fyrirkomulag var heimilað með stjórnarskrárbreytingu sem finnska þingið samþykkti.

Sovétmenn hófu gagnsókn á móti Finnlandi í júní 1944, þegar brestir voru komnir í samstarf Finnlands og Þýskalands vegna tilrauna Finna til að semja um frið við Sovétríkin. Finnland vantaði bæði matvæli, vopn og skotfæri og því krafðist þýski utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentrop þess að Finnar lofuðu því að semja ekki um frið án aðkomu Þjóðverja. Ryti brást við með því að skrifa Ryti–Ribbentrop-samkomulagið, sem fól í sér persónuleg vilyrði hans um að Finnland myndi ekki sækjast eftir friði í forsetatíð hans. Stuttu eftir þetta var gagnsókn Sovétmanna stöðvuð og Ryti sagði því af sér svo eftirmaður hans á forsetastól gæti hafið friðarviðræður, í þetta sinn með sterkari samningsstöðu þótt Finnar hefðu glatað flestum landvinningum sínum.

Eftir seinni heimsstyrjöldina

breyta

Eftir stríðið reyndi Ryti að hefja störf við Seðlabanka Finnlands að nýju. Árið 1945 kröfðust Sovétmenn og finnskir kommúnistar þess að Ryti yrði dreginn fyrir rétt vegna „ábyrgðar hans á stríðinu“. Þetta kom finnsku þjóðinni, sem hafði mikið álit á Ryti, mjög í opna skjöldu. Eftir mikinn þrýsting frá Sovétríkjunum var Ryti dæmdur í tíu ára fangelsi eftir réttarhöld sem voru víða álitin ólögleg og réttarfarsbrestur frá finnsku sjónarhorni.

Ásamt Ryti voru sjö aðrir finnskir ráðamenn dæmdir, flestir til styttri fangelsisvistar en hann. Sakborningarnir voru dæmdir á grundvelli afturvirkra laga sem finnska þingið hafði samþykkt. Þrátt fyrir að finnska stjórnarskráin bannaði slík lög voru þau samþykkt sem stjórnarskrárbreyting með auknum meirihluta af þinginu. Bæði dómstóllinn og þingið voru undir miklum þrýstingi frá Sovétríkjunum og Bretlandi á meðan á réttarhöldunum stóð.[4] Þótt Ryti og hinir sem hlutu fangelsisdóm sættu fremur mildri meðferð í fangelsi hafði fangavistin slæm áhrif á heilsu hans. Árið 1949 voru allir sakborningarnir nema Ryti náðaðir en Ryti hafði þá verið lagður inn á sjúkrahús. Ryti var náðaður af Juho Kusti Paasikivi forseta síðar sama ár. Ryti tók aldrei framar þátt í opinberum störfum. Hann einbeitti sér að því að rita endurminningar sínar en lauk aldrei við þær vegna heilsubrests. Ryti lést árið 1956 og var jarðsettur með sæmd.

Eftir hrun Sovétríkjanna hlaut Ryti uppreist æru, en ekki formlega. Afstaða finnsku ríkisstjórnarinnar hefur verið sú að óþarfi sé að veita Ryti og hinum sakborningunum formlega uppreist æru þar sem þeir hafi aldrei glatað æru sinni til að byrja með. Hugmyndin um að ógilda formlega dómana gegn þeim afturvirkt hefur verið viðruð en henni hefur jafnan verið hafnað þar sem hún sé ekki í samræmi við finnska dómvenju.[5]

Árið 1994 var reist stytta af Ryti nálægt finnska þinghúsinu. Árið 2004 hlaut Ryti næstflest atkvæði í atkvæðagreiðslu sjónvarpsstöðvarinnar YLE um mestu mikilmenni í sögu Finnlands.

Ítarefni

breyta
  • Barbara A. Chernow, George A. Vallasi, ritstjóri (1993). Columbia Encyclopedia (5. útgáfa). Columbia University Press. bls. bls. 2387. ISBN 0-395-62438-X.
  • Turtola, Martti (2000). „Risto Ryti“. Í Marjomaa, Ulpu (ritstjóri). 100 faces from Finland. Finnish Literature Society. ISBN 951-746-215-8.

Tilvísanir

breyta
  1. „Ministerikortisto“. Valtioneuvosto. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2017. Sótt 11. mars 2024.[óvirkur tengill]
  2. Jokisipilä, Markku (2004). Aseveljiä vai liittolaisia (finnska). SKS. ISBN 951-746-609-9.
  3. Turtola (2000), bls. 403.
  4. Kysymys sotasyyllisyystuomion purkamisesta Geymt 7 ágúst 2017 í Wayback Machine Ákvörðun dómsmálaráðherra Finnlands. 11-27-1992. Sótt 10-10-2007. Á finnsku.
  5. ASIAKIRJA KK 656/1992 vp Geymt 25 desember 2007 í Wayback Machine. (Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn um uppreist æru þeirra sem voru dæmdir fyrir stríðsábyrgð.). Sótt 10-10-2007. á finnsku


Fyrirrennari:
Kyösti Kallio
Forseti Finnlands
(19. desember 19404. ágúst 1944)
Eftirmaður:
C. G. E. Mannerheim