Sósíal-fasíska lýðveldið

(Endurbeint frá Repubblica Sociale Italiana)

Sósíal-fasíska lýðveldið[2] (ítalska: Repubblica Sociale Italiana, skammstafað RSI), gjarnan kallað Salò-lýðveldið, var leppríki undir stjórn Þýskalands sem stofnað var á Ítalíu á lokaárum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Sósíal-fasíska lýðveldið
Repubblica Sociale Italiana
Fáni Ítalíu Skjaldarmerki Ítalíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Per l'onore d'Italia
„Fyrir heiður Ítalíu“
Þjóðsöngur:
Staðsetning Ítalíu
Höfuðborg Salò, Veróna og Mílanó (de facto)
Róm (de jure)
Opinbert tungumál Ítalska
Stjórnarfar Fasískt einræði

Foringi (Duce) Benito Mussolini
Leppríki undir stjórn Þýskalands
 • Öxulaðgerðin 8.–19. september 1943 
 • Mussolini snýr aftur til valda 23. september 1943 
 • Andspyrnan hefur uppreisn 25. apríl 1945 
 • Mussolini drepinn 28. ágúst 1945 
 • Her RSI gefst upp 1. maí 1945 
Flatarmál
 • Samtals

167.600 km²
Gjaldmiðill Líra
Ekið er Hægra megin

Bakgrunnur

breyta

Eftir innrás bandamanna í Sikiley í júní 1943 og fjölda hernaðarósigra Ítala í seinni heimsstyrjöldinni kallaði ítalski einræðisherrann Benito Mussolini þann 24. júní saman stórráð fasismans, sem samþykkti í kjölfarið vantrauststillögu gegn honum, meðal annars með atkvæði tengdasonar Mussolini, Galeazzo Ciano. Næsta dag var Mussolini leystur úr embætti af Viktori Emmanúel 3. konungi og handtekinn. Nýja ítalska ríkisstjórnin, undir forystu Pietro Badoglio forsætisráðherra, hóf leynilegar samningaviðræður við bandamenn um uppgjöf Ítala og friðarsamkomulag. Eitt skilyrðið sem bandamenn settu var að Ítalía segði sig úr öxulveldunum og lýsti yfir stríði gegn Þýskalandi. Þjóðverjar hófu því „öxulaðgerðina“ (Fall Achse) og efldu herlið sín á Ítalíu. Þann 3. september undirrituðu Ítalir og bandamenn vopnahléssamning.

Í millitíðinni var Mussolini fyrst fluttur til eyjunnar Ponza og þann 7. ágúst var hann settur í varðhald í flotastöð Ítala á Maddalenaeyjum. Í lok ágúst var hann fluttur til Campo Imperatore-hótelsins í bænum Gran Sasso í Abruzzo.

Þann 12. september var Mussolini „frelsaður“ úr fangavistinni í „eikaraðgerðinni“ (Unternehmen Eiche) svokölluðu af þýskum fallhlífaliðum úr Waffen-SS undir stjórn Ottos Skorzeny. Skorzeny fór með Mussolini til þýsku flotastöðvarinnar Pratica di Mare, suðvestan við Róm. Var síðan flogið með hann til Vínar og daginn eftir til München. Síðan var farið með Mussolini á fund Hitlers í Úlfsbælinu við Rastenburg, þar sem Hitler bað hann að taka að nýju að sér stjórn Ítalíu.

Mussolini var á þessum tíma úrvinda og þjáður af magasári og því tregur til að verða við ósk Hitlers. Eftir átölur féllst hann loks á beiðnina og Þjóðverjar tilkynntu stofnun nýrrar stjórnar hans í útvarpsstöðinni Radio Roma þann 15. september. Þremur dögum síðar flutti Mussolini útvarpsávarp frá München þar sem hann staðhæfði að valdaránstilraun gegn honum hefði mistekist og að hann myndi brátt snúa aftur.

Stofnun

breyta
 
Sósíal-fasíska lýðveldið við stofnun þess árið 1943.

Mussolini vildi hafa bækistöðvar sínar í Róm en Þjóðverjar höfnuðu þessu þar sem það þótti of nálægt vígstöðvunum og þeir óttuðust jafnframt að það myndi leiða til óeirða meðal Rómarbúa ef Mussolini sneri aftur til borgarinnar. Mussolini var flogið aftur til Ítalíu þann 27. september og hann kom sér fyrir í Villa Feltrinelli í Gargnano utan við bæinn Salò við Garda-vatn á Norður-Ítalíu. Með Mussolini í för voru meðlimir í innsta hring fasistaflokksins sem enn héldu tryggð við foringjann.

Á sama tíma ákváðu Þjóðverjar að landsvæði sem Ítalía hafði innlimað frá Austurríki í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar skyldi innlimað í stór-þýska ríkið. Héruðin Suður-Týról, Tríeste og Istría voru því færð undir stjórn Þýskalands. Stórir hlutar af Mið-Ítalíu allt suður að Gústafslínunni, þar á meðal Róm, voru jafnframt undir beinni stjórn Alberts Kesselring.

Skipulag

breyta

Í augum Mussolini var mikilvægt að sýna að hin nýja stjórn hans væri meira en bara gluggaskraut fyrir hernámsstjórn Þjóðverja. Þjóðverjar treystu ítölsku fasistunum hins vegar ekki fyllilega til að hafa stjórn á yfirráðasvæði þeirra. Mussolini varð bæði þjóðhöfðingi og stjórnarleiðtogi í nýju stjórninni og var hún skipuð ýmsum gömlum samverkamönnum hans.

Flestir sem höfðu kosið með vantrauststillögunni gegn Mussolini þann 24. júní voru farnir í felur en sumir voru síðar handteknir og hnepptir í gæsluvarðhald Þjóðverja, þar á meðal Ciano greifi. Þeir voru þann 8. janúar 1944 ákærðir fyrir landráð með því að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Fimm af sex sakborningum voru dæmdir til dauða, þar á meðal tengdasonur sjálfs Mussolini, Ciano greifi. Dauðadómunum var framfylgt daginn eftir og voru sakborningarnir bundnir við stóla sem vísuðu frá aftökusveitinni. Ljósmyndir sem SS-liðar tóku af aftökunni sýna að Ciano náði að reigja hausinn aftur til að líta framan í böðla sína.

Stjórnsýsluskipting

breyta

Fyrir utan valdamiðju sína í Pódalnum naut Sósíal-fasíska lýðveldið takmarkaðra áhrifa. Það að ríkisráðuneytin nutu takmarkaðra valda og voru staðsett á víð og dreif innan yfirráðasvæðis lýðveldisins gerði starfsemi og samvinnu þeirra mun erfiðari. Innanríkisráðuneytið, sem hafði meðal annars umsjón á öryggismálum innanlands, var staðsett í Maderno, nágrannahéraði Gargnano þar sem Mussolini hélt sig. Utanríkis- og áróðursmálaráðuneytið var staðsett í Saló, fjármálaráðuneytið í Veróna, menntamálaráðuneytið í Padova og framkvæmdaráðuneytið í Feneyjum. Þýski sendiherrann, sem var með aðsetur sunnan við Mussolini, fór hins vegar með raunveruleg völd ríkisins ásamt SS-hershöfðingjanum Karl Wolff, sem gaf innanríkisráðherranum Buffarino Guidi fyrirmæli.

Hersveitir

breyta
 
Ítalskur RSI-hermaður í Róm í mars 1944.

Erfitt var að stofna herafla fyrir Sósíal-fasíska lýðveldið þar sem Þjóðverjar höfðu hneppt stóran hluta ítalska hersins í varðhald árið 1943. Margir Ítalir höfðu verið sendir í nauðungarvinnu í Þýskalandi og fáir vildu snúa aftur til að taka þátt í stríðinu. Lýðveldið greip til þess örþrifaráðs að veita föngum sakaruppgjöf gegn því að þeir skráðu sig í herinn, samhliða því sem dauðarefsingar voru innleiddar fyrir þá sem neituðu að gegna herþjónustu.

Þann 16. október 1943 var áætlun samþykkt í höfuðstöðvum Hitlers í Rastenburg þar sem Þjóðverjar heimiluðu Sósíal-fasíska lýðveldinu að stofna eigin her í fjórum deildum. Alls átti hann að telja til sín 52.000 hermenn. Í júlí næsta ár var fyrsta deildin af þessum fjórum reiðubúin og send fram á fremstu víglínur.

Lígúríuherinn svokallaði var stofnaður í desember 1944 og taldi til sín bæði þýska og ítalska hermenn undir stjórn Alfredo Guzzoni.

Flugher

breyta
 
Fiat G.55 Centauro-flugvél merkt flugher Sósíal-fasíska lýðveldisins.

Lýðveldið átti jafnframt lítinn flugher, sem skipt var í þrjár deildir, eina tundurskeytadeild, eina sprengjudeild og eina deild fyrir flutningavélar og minni vélar.

ANR barðist með þýska flughernum á Norður-Ítalíu. Þjóðverjar reyndu að láta leysa upp flugher Sósíal-fasíska lýðveldisins svo hægt væri að færa flugmennina yfir til þýska flughersins en fengu ekki sínu framgengt. Árið 1944 voru allar þýskar flugdeildir kallaðar frá Norður-Ítalíu vegna framsóknar bandamanna í Vestur-Evrópu sem farin var að ógna Þýskalandi sjálfu. Flugvélasveitir ANR urðu þaðan af að berjast einar síns liðs þrátt fyrir að vera langtum fámennari en flugvélasveitir bandamanna.

Sjóher

breyta

Aðeins lítill hluti ítalska sjóhersins gekk til liðs við Sósíal-fasíska lýðveldið. Þeir mynduðu kjarna „þjóðlega lýðveldisflotans“ (Marina Nazionale Repubblicana eða MNR), sem var aðeins 1/20 ítalska flotans að stærð og samanstóð af fjórum vélknúnum tundurskeytabátum, tveimur verndarskipum gegn kafbátum og ákveðnum öðrum léttskipum. Flotinn bjó jafnframt yfir fimm litlum kafbátum sem voru staðsettir við Norður-Ítalíu og fimm í Rúmeníu við Svartahafið. Þeir fimm sem voru á Norður-Ítalíu gengu til liðs við lýðveldisflotann en vegna greiðsluvanda var aðeins fjórum þeirra sem voru á Svartahafi skilað til Sósíal-fasíska lýðveldisins.

Óreglulegur herafli

breyta

Þegar fasistastjórnin á Ítalíu féll voru sjálfboðasveitir hennar, hinir svokölluðu svartstakkar, leystar upp. Í Sósíal-fasíska lýðveldinu var stofnað nýtt lýðveldisvarðlið (Guardia Nazionale Repubblicana eða GNR) ásamt svokölluðum svörtum hersveitum (brigate nere), sem lutu forystu Rodolfo Graziani.

Svörtu hersveitirnar voru 40 talsins og innihéldu fyrrverandi meðlimi í svartstökkunum, fyrrverandi lögreglumenn og hermenn og fyrrverandi meðlimi í lögreglusveitum Ítala í Afríku ásamt fleirum sem héldu tryggð við fasistastjórnina. Ásamt samverkamönnum sínum úr SS-sveitunum stóðu svörtu hersveitirnar fyrir skelfilegum ofbeldisverkum gegn meðlimum ítölsku andspyrnuhreyfingarinnar og pólitískum mótherjum.

Frá ágúst 1944 voru þessar sveitir limaðar inn í fastaherinn.

Stjórnmál

breyta

Mussolini vildi glæða fasismann nýju lífi í hinni nýju stjórnarskipan Sósíal-fasíska lýðveldisins með því að innleiða róttækari stjórnarstefnur en hann hafði boðað á undanförnum árum. Hann lofaði ítölsku þjóðinni nýrri byrjun ef hann fengi annað tækifæri til að leiða hana og boðaði fjölda stjórnaraðgerða með popúlísku ívafi.

Mussolini fullyrti að hann hefði aldrei snúið baki við gömlum vinstrisinnuðum hugsjónum sínum og að hann hefði haft í hyggju að þjóðnýta fjölda eigna á árunum 1939–1940, en hefði neyðst til að fresta þeim fyrirætlunum vegna upphafs stríðsins. Á flokksþingi fasista undir forystu Alessandro Pavolini í Veróna þann 14. nóvember 1943, hinu eina sem haldið var á tíma Sósíal-fasíska lýðveldisins, var ákveðið að stefna að „þriðju leiðinni“ á milli kapítalisma og marxísks sósíalisma. Til samræmis við þetta voru lög samþykkt sem áttu að tryggja lýðræði verkamanna á vinnustöðum þannig að nýir félagsstjórar hefðu ávallt 50% atkvæða launþega á bak við sig, jafnvel þótt þeir væru ekki hluthafar.

Almennt er í dag litið á þessi verkefni sem óraunsæjustu áætlanir fasistaflokksins. Þar sem þessar stefnur voru kynntar til sögunnar á miðju stríðssvæði voru þær flestar eingöngu til á pappírnum en ekki í framkvæmd. Mussolini gerði jafnframt ekkert til að bjarga um 8.000 Gyðingum sem voru fluttir frá Norður-Ítalíu í útrýmingarbúðir á tíma Sósíal-fasíska lýðveldisins. Talið er að þessi tala hefði orðið enn hærri ef ekki hefði verið fyrir skemmdarverkastarfsemi bæði óbreyttra borgara og hermanna ásamt kaþólsku kirkjunni.

Upplausn

breyta

Yfirráðasvæði Sósíal-fasíska lýðveldisins skrapp stöðugt saman vegna framsóknar bandamanna gegnum Ítalíu. Samhliða sókn bandamanna hófu andspyrnuhreyfingar uppreisn innan Sósíal-fasíska lýðveldisins þann 25. apríl 1945. Mussolini reyndi að flýja til Sviss ásamt frillu sinni, Clöru Petacci, og stjórnarliðunum Francesco Barracu, Alessandro Pavolini og Fernando Mezzasomma, en andspyrnumenn handsömuðu þau á leiðinni. Andspyrnuhreyfingin tók Mussolini af lífi ásamt fylgdarliði hans og lét flytja lík þeirra til Mílanó, þar sem líkin voru hengd upp og höfð til sýnis á torginu Piazzale Loreto.

Tilvísanir

breyta
  1. Giacomo De Marzi, I canti di Salò, Fratelli Frilli, 2005.
  2. Henning Poulsen (1985). Knut Helle; Jarle Simensen; Sven Tägil; Kåre Tønnesson (ritstjórar). Stríð á stríð ofan : 1914-1945. Saga mannkyns: Ritröð AB. 13. árgangur. Þýðing eftir Gunnar Stefánsson. Reykjavík: Almenna bókafélagið. bls. 238. „Meiri þýðingu hafði það ekki heldur að 12. september 1943 tókst þýskum hermönnum að frelsa Mussolini úr fangelsinu. Hitler setti hann í forustu fyrir svonefndu Sósíal-fasísku lýðveldi með aðsetur í Salo við Gardavatn en bauð honum ekki að taka þátt í stríðinu.“