Fáni Ítalíu
Fáni Ítalíu (stundum kallaður Il tricolore á ítölsku) er þrílitur fáni með þremur jafnbreiðum lóðréttum borðum; grænum, hvítum og rauðum, talið frá stöng.
Fáninn var fyrst notaður sem fáni Repubblica Cispadana sem var eitt af mörgum lýðveldum sem spruttu upp á Norður-Ítalíu í kjölfar herfarar Napóleons 1796. Mörg þessara lýðvelda tóku upp fána sem minnti á franska fánann. Fáninn varð síðan eitt af táknum þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem fylgdi í kjölfar endurreisnar gömlu lénsveldanna og við upphaf baráttunnar fyrir sameiningu Ítalíu tók Karl Albert af Savoja fánann upp með skjaldarmerki Savojaættarinnar í miðju á bláum grunni. Þessi merki voru í fánanum fram að lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar og stofnun lýðveldis 1946.
17. janúar 2003 voru litirnir staðlaðir miðað við Pantone-litagildi fyrir klæðalitun sem bjartur grasgrænn (18-5642TC), mjólkurhvítur (11-4201TC) og tómatrauður (18-1660TC).
Táknrænt gildi litanna
breytaLitirnir í fánanum hafa líklega byggst á litunum í einkennisbúningi Langbarðafylkingarinnar sem bar hvítan og rauðan lit í fána borgarinnar Mílanó á grænum búningi. Táknin hafa síðar verið túlkuð sem grænn litur grassléttanna, hvítur jöklanna í Alpafjöllunum og rauður blóðsins sem spillt hefur verið fyrir Ítalíu. Einnig er til önnur algeng túlkun sem ekki er eins rómantísk þar sem græni liturinn er litur basilíkunnar, hvítur litur mozzarella-ostsins og rauður litur tómatsins.