Bartólómeus 1. patríarki
Bartólómeus 1. (f. 29. febrúar 1940 undir nafninu Dímítríos Arhondonís) er núverandi erkibiskup og samkirkjulegur patríarki kristnu rétttrúnaðarkirkjunnar í Konstantínópel. Sem patríarki í Konstantínópel er Bartólómeus talinn „fremstur meðal jafningja“ af patríörkum rétttrúnaðarkirkjunnar (en ekki eiginlegt höfuð kirkjunnar, sem lýtur ekki boðvaldi neins eins trúarleiðtoga).
Bartólómeus 1. Βαρθολομαῖος Αʹ | |
---|---|
Patríarki Konstantínópel | |
Núverandi | |
Tók við embætti 2. nóvember 1991 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. febrúar 1940 Agioi Þeodoroi (Zeytinliköy), Imbros (Gökçeada), Tyrklandi |
Þjóðerni | Tyrkneskur |
Trúarbrögð | Rétttrúnaðarkirkjan |
Undirskrift |
Bartólómeus er 270. patríarkinn í Konstantínópel, en samkvæmt hefð er Andrés postuli sagður hafa verið sá fyrsti. Þar sem reglur kveða á um að patríarkinn verði að vera tyrkneskur þegn er Bartólómeus ríkisborgari Tyrklands og hefur gegnt þjónustu í tyrkneska hernum.[1]
Sem patríarki hefur Bartólómeus beitt sér fyrir samræðum milli kristinna kirkjudeilda.[1] Bartólómeus hefur jafnframt verið kallaður „græni patríarkinn“ vegna áhuga hans á umhverfismálum.[2][3]
Í október árið 2018 gaf Bartólómeus rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu leyfi til að kljúfa sig undan rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni í Moskvu og stofna sjálfstæða úkraínska rétttrúnaðarkirkju. Kírill, patríarki rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu, brást við með því að slíta tengslum kirkju sinnar við patríarkann í Konstantínópel.[4][5]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Egill Helgason (14. október 2017). „Patríarki grísku kirkjunnar á Íslandi“. DV. Sótt 13. september 2022.
- ↑ Gunnþór Þorfinnur Ingason (15. október 2018). „Virðing lífs og verndun - Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum“. Kirkjan. Sótt 13. september 2022.
- ↑ „Bartólemeus I heimsækir Ísland“. mbl.is. 27. september 2017. Sótt 13. september 2022.
- ↑ Vera Illugadóttir (15. desember 2018). „Úkraínumenn stofna sjálfstæða kirkju“. RÚV. Sótt 13. september 2022.
- ↑ Anna Kristín Jónsdóttir (11. desember 2018). „Hin þriðja Róm fallin“. RÚV. Sótt 13. september 2022.
Fyrirrennari: Demetríos 1. |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |